23.03.1933
Efri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Einar Árnason:

Ég geri nú ekki ráð fyrir, að þau dæmi yrðu mörg, þar sem ágreiningur yrði milli ráðh. og vitamálastjóra. Þó getur slíkt komið fyrir, og þá finnst mér eðlilegt, að sá maður, sem hefir yfirstjórn vitamálanna, hafi þar æðsta úrskurðarvald. Hann ber ábyrgðina, og því er ekki rétt, að hann geti velt henni yfir á vitamálastjóra, ef illa tekst um val á vitaverði. Annars mun ráðh. venjulega hafa það traust á þeim mönnum, sem vitamálastjóri bendir á, að hann geti vísað frá sér öllu kvabbi. Þótt úrskurðarvaldið sé í höndum ráðh., yrði hitt vitanlega aðalreglan, að farið yrði eftir till. vitamálastjóra. Má benda á margt hliðstætt, og með þessum brtt. er ekki verið að gefa í skyn, að forstöðumaðurinn sé ekki fullkomlega trúverðugur.