10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Sveinn Ólafsson:

Í framhaldi af því, sem hv. flm. brtt. á þskj. 292 tók fram, vil ég bæta því við, af því að ég er staðkunnugur þarna, að þessi viti hefir fallið undan við samningu frv. vegna þess, að viti er þarna starfandi að nafninu til. En hann er orðinn gamall og lélegur og varla hæfur til að koma að gagni, og þarf þess vegna að byggja hann upp. Hann er búinn að standa á þriðja tug ára. Upphaflega var hann einkaeign, en nú er hann eign Seyðisfjarðarkaupstaðar. Það er í alla staði réttmætt, sem hv. þm. Seyðf. fer fram á, að þessi viti verði talinn með öðrum þeim vitum, sem þarf að byggja og ríkissjóður kostar.