25.02.1933
Efri deild: 10. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

33. mál, leiðsöguskip

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Eftir því sem skipagöngur hér við land vaxa — og það gera þær ár frá ári —, vex þörfin fyrir löggjöf um leiðsögu skipa. Hingað til hafa ekki verið nein lög um þetta hér á landi, en þó hafa verið skipaðir leiðsögumenn á sumum stöðum, en ekki er mér kunnugt um, að til sé önnur heimild fyrir þessu en gömul venja, sem eflaust hefir skapazt af nauðsyn.

Að sjálfsögðu er það nauðsyn fyrir þá, sem hér sigla, að geta aflað sér leiðsögu þar, sem þeir eru ekki nauðkunnugir. Þessi leiðsaga verður að vera ábyggileg. Það getur beinlínis haft áhrif á flutningsgjöld héðan og hingað, að skipstjórar eigi víst, að geta fengið hér ábyggilega leiðsögumenn. Til þess að svo megi verða, sýnist það vera öruggasta leiðin, að hið opinbera taki þessi mál í sínar hendur og að þess sé krafizt, að leiðsögumenn uppfylli ákveðin skilyrði til tryggingar þeim, sem aðstoð þeirra nota.

Það er vitamálastjórinn, sem hefir lagt til máttarviðina í þetta frv., og er það mjög sniðið eftir tilsvarandi löggjöf Norðurlanda.

Með frv. er ekki lögð leiðsöguskylda á skip. Þar er ekki gengið lengra en að heimila ráðh. að fyrirskipa hana á ákveðnum svæðum. Á höfnum er þó gert ráð fyrir, að hafnastjórnir ráði þessu, eins og nú er. Tilgangurinn er að skipta landinu í leiðsögusvæði, og hafi hver leiðsögumaður einkarétt á sínu svæði, því að ella mundi á sumum stöðum ómögulegt að fá leiðsögumenn.

Fyrir ríkissjóð verður ekki kostnaður af frv., þó að lögum verði.

Að þessari umr. lokinni óska ég, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.