12.04.1933
Neðri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þetta mál er komið frá Ed. og hefir tekið þar nokkrum breyt. Upphaflega var ætlazt til, að það tæki bæði til hreppsfélaga og kaupstaða, en var breytt þannig í Ed., að það næði aðeins til hreppsfélaga. Ég verð að segja, að ég tel ekki rétt að gera þennan greinarmun á hreppsfélögum og kaupstöðum, en þar sem ekki er hægt að neita því, að það er meira aðkallandi að fá svona löggjöf fyrir hreppsfélög, vil ég í bili sætta mig við það, en getur verið, að ekki verði langt þangað til þarf að búa til svipuð l. fyrir kaupstaði.

Það er vitað, að mörg hreppsfélög eru nú í svo miklum fjárhagsvandræðum, að óhjákvæmilegt er að koma fjárhag þeirra á þann grundvöll, að þau geti starfað áfram og rækt skyldur sínar. Sum hreppsfélög eru nú það illa komin, að þau eru hætt að sinna þeim skyldum, sem á þeim hvíla, og er það af því, að þau finna, að þessar skyldur eru svo þungbærar, að þau geta ekki lengur staðið undir þeim öllum, og þá verður með þau eins og marga einstaklinga, að það kemur í þau kæruleysi, svo að þau hætta jafnvel að inna af hendi það, sem þau þó gætu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, nema sérstakt tilefni gefist til, en aðeins óska, að frv. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.