25.11.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (1063)

45. mál, greiðslufrestur á fasteignaverðslánum

Flm. (Jón Jónsson):

Það hefir farið svo slysalega, að ég vissi ekki, að þetta mál var á dagskrá í dag, og hæstv. forseti hefir ekki látið mig vita um það, svo að ég hefi ekki búið mig undir að halda framsöguræðu, en málið er svo einfalt, að ekki virðist þörf á langri framsögu. Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að draga úr hinum ægilegu afleiðingum kreppunnar, ekki sízt hjá bændum. Þ. á m. hafa verið sett lögin nr. 79 frá 1933, par sem gert var ráð fyrir, að lánsstofnunum væri heimilt að veita greiðslufrest á slíkum lánum, sem hér ræðir um. Í því sambandi er helzt að nefna Búnaðarbankann, bæði veðdeild, ræktunarsjóð, og byggingar- og landnámssjóð, og veðdeild Landsbankans. Nú hefir ekki enn raknað úr vandræðum bændastéttarinnar og þeir eiga enn erfitt uppdráttar, og ekki er útlit fyrir, að þeir geti staðið í skilum vegna skulda, sem á þá hafa hlaðizt, og þeim er því nauðsyn á gjaldfresti, á meðan þeir eru að koma skuldum sínum í hagkvæmt lag með aðstoð Kreppulánasjóðs. Um þetta hafa borizt margar umsóknir, og get ég vottað það, að Búnaðarbankinn hefir sýnt hina mestu lipurð og tillátssemi, en allt öðru máli er að gegna um Landsbankann. Til vor hafa borizt hér um bil daglega kvartanir frá bændum, sem hafa att erfitt með að greiða af lánum sínum og hafa leitað afborgunarfrests hjá Landsbankanum, en fengið nei við bónum sínum. Ég hygg, að Landsbankinn hafi ekki veitt nokkrum manni afborgunarfrest, og sum útibú hafa jafnvel gengið svo langt, að þau hafa látið fram fara nauðungarsölu á jörðum bændanna, og að allar líkur séu til þess, að bændur geti á þessu ári bætt stórum aðstöðu sína. Þar sem Landsbankinn hefir svo harkalega tekið þessu máli, er sýnt, að tilgangur löggjafans hefir ekki náðst, og af því að okkur í stjórn Kreppulánasjóðs eru þessir erfiðleikar ljósir, flytjum við till. á þskj. 71, þess efnis, að ríkisstj. sjái um það, að lánsstofnanirnar verði við þessari sjálfsögðu skyldu. Ég vona fastlega, að enginn hv. þm. verði til þess að mæla gegn till., og í trausti þess, að hún fái greiðan framgang, lýk ég máli mínu.