18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (1217)

37. mál, talstöðvar

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég get að mestu leyti látið nægja að vísa til grg. um þetta mal. Landssíminn leigði á síðastl. sumri allmörgum síldveiðiskipum talstöðvar. Stofnkostnaður slíkra stöðva er ekki mikill, og leiga þeirra ekki heldur þá. Hinsvegar urðu þær þegar á síðastl. sumri að mjög miklu gagni. Sannleikurinn er sá, að skipin, sem höfðu talstöðvar, voru ekki fyrr komin í síld en þau tilkynntu það öðrum skipum, og þannig flaug fiskisagan á örskömmum tíma. Leigan eftir talstöðvarnar var um 100 kr., og auk þess þurftu skipin að sjá um viðhald þeirra. En til þess að stöðvar þessar komi að fullu gagni þarf að reisa talstöðvar í verstöðvunum, til þess að hægt sé að tilkynna skipunum, hvernig þau eiga að haga veiði sinni, hvort þau eiga að koma með síld í bræðslu eða til söltunar, og yfirleitt, hvernig á stendur í hvert skipti.

Þessar talstöðvar verða einnig til að auka mjög mikið öryggi sjómanna. Það má gera ráð fyrir, að flest skip, a. m. k. þau stærri, fái sér stöðvar þegar á næsta ári, og er þá mjög fljótlegt að tilkynna þeim, ef bat vantar, og senda þau til að leita. Gæti það oft komið í veg fyrir slys, sem nú gerast mjög tíð.

Í frv. er farið fram á, að reistar verði talstöðvar á Siglufirði og Ísafirði á næsta sumri. Mundi Siglufjarðarstöðin sérstaklega miðuð við að auka afköst síldveiðanna, en Ísafjarðarstöðin verða til að auka öryggi skipa og báta. Ég vil minna á það, að nú alveg nýlega hvarf bátur af Ísafirði, og ef þá hefði verið talstöð á Ísafirði og hægt að tilkynna hvarfið öðrum skipum, sem á sjónum voru, þegar í stað, þá má vel vera, að leitin hefði ekki orðið eins erfið og nú lítur út fyrir, að hún ætli að verða.

Hér er ekki um mikinn kostnað að ræða. Landssímastjóri segir, að þar sem rafmagn sé fyrir hendi, muni svona stöðvar ekki kosta meira en 5 til 7 þús. kr. hver. Síðar má gera ráð fyrir, að teknar yrðu upp fleiri stöðvar, sennilega í næstu fjárl., t. d. á Akranesi, Vestmannaeyjum og öðrum helztu verstöðvum landsins. Ég þarf ekki að rökstyðja frekar réttmæti þessarar till. né heldur hitt, að við flm. tilnefnum til að byrja með Siglufjörð og Ísafjörð. frá Ísafirði og verstöðvunum þar í grennd róa um 500 manns á hverjum degi í háskammdeginu, þegar sjóveður er. Og að sumarlagi stundar mikill fjöldi skipa alstaðar að af landinu síldveiðar úti fyrir Norðurlandi.

Vil ég svo mælast til, að umr. verði frestað og málinu vísað til sjútvn.