14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1220)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Flm. (Magnús Jónsson):

Hæstv. ráðh. sagði, að báðir flokkarnir hafi staðið saman í haftaspursmálinu 1924. Það getur verið rétt. En 14. marz 1924 gaf ráðh. Framsfl. út einhverja þá ströngustu haftareglugerð, sem nokkurntíma hefir þekkzt hér. Þessu var breytt seinna, og síðan kom Íhaldsfl. verðtollsl. á.

Þá vil ég gera aths. við þau orð hæstv. ráðh., að við mættum ekki halda, að kaupmönnum veittist eitthvert ótakmarkað frelsi með samþykkt frv. Ég ber það ekki fram af umhyggju fyrir kaupmönnum, heldur af því, að höftin valda hærra vöruverði og minnkandi vörugæðum. Auk þess vil ég afnám þeirra af heim sökum, að þau krefjast meira gjaldeyris. Ég viðurkenni það fúslega, að við lifum í syndugri veröld. En ég vil þó minna hæstv. forsrh. á það, að einmitt sú þjóðin, sem bezt hefir lifað eftir hans reglum, nefnilega Bandaríkin í Ameríku, sem lokuðu sig gersamlega inni með ógurlegum verndartollum, hafa farið langverst út úr kreppunni allra þeirra landa, sem slíkum ráðstöfunum hafa beitt, og mest atvinnuleysi hefir þar líka verið af sömu ástæðum. — Þetta er nú dómur reynslunnar um alla þessa tolla- og haftastefnu, sem hæstv. ráðh. lætur svo mikið af.

Þá vildi hv. 3. landsk. segja það, að af misskilningi hafi ég sagt, að nú á þessu ári hafi fram að þessum tíma verið flutt eins mikið inn eins og áður en höftin voru sett. Hann meinti árið 1930. En þá voru ekki nein innflutningshöft; þau voru ekki sett fyrr en árið 1931. Ég get ekki hugsað mér að bera þetta ár saman við árið 1930, sem var eitt með mestu innflutningsárum.

En ef bornar eru saman bráðabirgðatölur frá þessu ári við innflutning á árinu 1931, þá er það sýnt, að innflutningur er kominn fullt svo hátt nú og þá var á sama tíma ársins, og miklu hærri er hann nú orðinn á þessu ári en á sama tíma í fyrra, eftir bráðabirgðatölum að dæma; þá var hann orðinn 25 millj., en nú er hann orðinn 33,6 millj.