25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (1223)

37. mál, talstöðvar

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég vil aðeins ítreka það, sem ég hefi áður tekið fram í grg. fyrir hinni upphaflegu till. í þessu máli, og ber það vott um, hvað við flm. höfum aðallega haft fyrir augum, að slíkar talstöðvar, sem hér er gert ráð fyrir, geta verið til ómetanlegs öryggis fyrir sjómennina. Og þetta er í raun og veru ekki nýtt mál fyrir vestan, á Ísafirði. Við höfum í nokkur ár haft þetta mál á dagskrá, og í eitt skipti var komin fjárveiting í fjárlögum, mig minnir það væri 1931, til byggingar talstöðva á Horni og Ísafirði. Því miður var þessi fjárveiting aldrei notuð og stöðvarnar ekki reistar.

Ég gat vel gengið inn á það í n. að taka ákvörðunina um stöðvarbyggingu á Ísafirði út úr þáltill., vegna þess að ég hygg, að ég geti sannfært stj. um það, að þörfin fyrir talstöð sé langbrýnust á Ísafirði. Og ástæðan fyrir því er sú, að frá Ísafjarðardjúpi og í grennd við það sækja um 500 manns á sjó í nóv.- og desembermánuðum, þegar við er að etja skammdegismyrkur og misjöfn veður. Þessi þörf er ekki sérstaklega brýn vegna stærri bátanna, þeir hafa nú talstöðvar, heldur vegna smábátanna, svo að unnt sé að koma út fregnum um þá og láta stóru bátana hefja leit, þegar eitthvað ber út af fyrir þeim. Enda komu þessi talskeyti stóru bátanna að góðu gagni þar vestra fyrir skömmu, er mótorbáturinn Andvari týndist. Einn af bátum Samvinnufélags Ísfirðinga kallaði þá á annan bát með talstöð sér til hjálpar við að draga mótorbátinn til hafnar, eftir að togarinn, sem fann bátinn upphaflega, hafði skilað honum af sér.

Allar líkur eru til þess, að ef talstöð hefði þá verið á Ísafirði, hefði mátt ná strax til stóru bátanna og láta þá hefja leit sama kvöldið, þannig að búast má við, að mótorbáturinn hefði þá fundizt fyrr en ella.