21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

2. mál, kosningar til Alþingis

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi nú vitað, að hv. þm. N.-Ísf. var götóttur, en að hann væri svona götóttur í rökréttri hugsun, hafði mér ekki komið til hugar. Hv. þm. heldur hér langa ræðu um það, að ég hafi ekki skilið þessa gr., og bendir til þess, að í 1. málsgr. frv. séu ákvæði um þetta, sem séu fullnægjandi, ef aðeins eru jafnmargir í kjöri og kjósa á. Það vill svo til, að við gerum heldur ekki neina brtt. við þetta, heldur við aukagr., þar sem fleiri eru í kjöri en kjósa á. Ég sagði áðan, að samkv. þessum síðustu kosningum, þá hefði getað farið svona, eins og ég gat um.

Úr því að hv. þm. tók dæmið, að ég hefði verið í kjöri í V.-Húnv. og fengi kosningu fyrir persónulegt fylgi, þá fengi ég öll landslistaatkv., þá ætla ég að halda dæminu áfram þannig, að ef hv. þm. N.-Ísf. hefði verið með mér í kjöri fyrir sama flokk í V.-Húnv. og ekkert atkv. fengið, af því að hann á ekkert persónulegt fylgi þar, þá hefði ég fengið tvöföld atkv. þeirra, sem á landslistann greiddu atkv. Þannig hefðu þeir kjósendur okkar getað tvöfaldað sitt atkvæðamagn yfir á okkur. Í þessu liggur hinn stóri munur. Hv. þm. hefir verið svo blindur í þessu, ef hann hefir ekki verið að leika einhvern skollaleik, að hann er ekki ennþá farinn að sjá.

Hv. 1. þm. S.-M. hélt því fram, að með brtt. okkar væri verið að gera landslistaákvæðin að engu. Þetta er alveg þveröfugt við það, sem þessar brtt. okkar bera með sér, því ef svo færi, að einhver þingflokkur hefði ekki nægilega marga menn í kjöri til þess að fullskipaður yrði landslistinn, þá eru einmitt ákvæði í 6. brtt., sem segja skýrt um það, hvernig flokkarnir geti fengið listann fullskipaðan. Þá kemur til kasta miðstjórnarinnar að skipa listann svo, að fullskipaður verði, því þar segir: „Skorti nú á, að eftir séu á lista þingflokks tvöfalt fleiri nöfn en listanum hafa hlotnazt uppbótarþingsæti, nefnir hlutaðeigandi flokksstjórn til menn, sem koma neðst á listann, eftir því sem til þarf til viðbótar á listann, og skal veita henni hæfilegan frest til þess“. Ég veit ekki, hvernig í ósköpunum þessir hv. þm., sem að þessu hafa starfað, geta enn barið höfðinu við steininn og sagt, að þetta geri landslistafyrirkomulagið að engu. Þá er því haldið fram af báðum þessum hv. þm., að það hafi verið fast samkomulag um þetta á síðasta þingi. Samkomulagið náði ekki til annars en ákvæða stjórnarskrárinnar. Það voru margir af þm., sem tóku það fram, að þetta væri hægt að setja í kosningalögin, en við, sem fluttum málið þá, héldum því fram, að það vari betra að setja þetta inn í stjórnarskrána. Með því að setja þetta inn í kosningalögin væri þessu takmarki að vísu náð í bili, en það væri ótryggt, af því að það er hægt hvenær sem er að breyta kosningalögunum. Því skyldi ekki halda, að nokkur maður væri bundinn við þetta samkomulag. Þm. eru ekkert bundnir við það við atkvgr. um þetta atriði kosningalaganna.

Þá hélt hv. 1. þm. S.-M. því fram, að ákvæðið um að nema burt umsögn flokksstjórnar gæti orðið til þess, að menn kæmu fram í kjördæmunum undir fölsku flokksnafni. Ef hætta er á þessu, þá hefir sú hætta alltaf verið til. Það er alls ekki breytt neinu frá því, sem verið hefir í þessu efni. Ég veit ekki til, að frambjóðendur hafi leitað til miðstjórnarinnar um leyfi til þess að vera í framboði í sínu kjördæmi. Það getur skeð, að jafnaðarmenn geri það. (VJ: Við höfum fastar reglur um það). En yfirleitt hefi ég ekki vitað til þess, að menn, sem vildu bjóða sig fram til þings, hafi leitað leyfis hjá miðstjórn flokkanna í Rvík, hvort þeir mættu vera fulltrúar fyrir kjósendur sína. Menn ganga ekki undir neitt próf um það, hvort þeir eru flokkstækir eða ekki. Hv. 1. þm. S.-M. hélt því fram, að þetta væri trygging fyrir því, að miðstjórnir flokkanna misbeittu ekki valdi sínu. Hv. þm. finnst þá möguleikar vera til fyrir því, að svo geti farið, að miðstjórnirnar misbeiti valdi sínu. Ég vil ekki láta sveitakjördæmin þurfa að sækja neitt til miðstjórna flokkanna í Rvík, sem eru meira og minna sýrðir af því lífi, sem hér er. Við kærum okkur ekki um að þurfa að sækja okkar mál til slíkra sambanda, sem eru meira og minna byggð upp af hagsmunamálum bæjarins hér. Ég er ekki með þessu að segja, að þetta sé svo sérstaklega hættulegt. En það eru að mörgu leyti annarskonar áhugamál, sem menn hafa, hér, en kjördæmin úti um land, og við kærum okkur ekki um að vera svo sérstaklega háðir þeim straumum, sem hér eru ríkjandi.

Ég get því ekki séð, að þeir, sem vilja halda sem óskiptustum rétti héraðanna í þessu máli, geti undir nokkrum kringumstæðum greitt atkv. móti till. okkar á þskj. 86. En það er eðlilegt, að þeir geri það, sem vilja láta allt stjórnast af miðstjórnum flokkanna, fáum mönnum í Rvík. Ef til vill liggur leið þeirra að því marki, að miðstjórnirnar ákveði, hverjir skuli vera þm. á þingi þjóðarinnar. Þá gæti farið svo, að það þyrfti ekki að vera að ómaka sig með neinar kosningar, og væri þá hægt að komast hjá ýmsum erfiðleikum, sem af þeim stafa. En þetta er bara atriði, sem við viljum ekki stefna að, sem erum fulltrúar fyrir kjördæmin úti um landið. Við viljum ekki losna við þá erfiðleika, sem af kosningunum stafa, af því að við viljum sjálfir ráða, hverjir eru fulltrúar í kjördæmunum, en ekki sækja um það sem neitt náðarbrauð til flokksstjórnanna hér í Rvík.

Þá vildi ég aðeins geta þess út af brtt. á þskj. 69, að ég hafði hugsað mér að koma með brtt. um það, að fyrsti málsl. 2. málsgr. falli burt. Ég álít þetta ákvæði í gr. muni verða erfitt í framkvæmdinni og að sumu leyti óréttlátt, að sýslumaður, sem tekur við bæjarfógetaembætti, þurfi ekki að segja af sér vegna þessara ákvæða. Ég sé ekkert samræmi i, að ef fulltrúi bæjarfógeta á Akureyri verður sýslumaður, þá þurfi hann að segja af sér, en ef sýslumaður á Blönduósi verður bæjarfógeti á Akureyri, þá þurfi hann ekki að segja af sér. Og ég hefi litla trú á því, að hægt sé að dæma með nokkrum sanni um það, hvort þm. fyrir sérþekkingu sína hafi sérstaka hæfileika fram yfir alla aðra og að hann þeirra hluta vegna þurfi ekki að beygja sig fyrir þessu ákvæði. Ég hygg, að það geti verið mjög mikill ágreiningur um þetta atriði. Ef á að bægja mönnum frá þingmennsku fyrir þessar sakir, þá finnst mér það verða að ganga jafnt yfir alla, en ekki veita embættismönnum nein forréttindi fram yfir aðra. Ég vil ekki segja, að í sjálfu sér sé þetta óréttlátt. Það mun tíðkast hjá Englendingum, að þegar menn taka við embætti, þá verði þeir að leggja niður þingmennsku. En sá ljóður er á þessu, að samkv. ákvæðum stjskr. geta sumir af þessum mönnum, sem verða að leggja niður þingmennsku, ekki sótt aftur til kjósenda sinna um það, hvort þeir eigi að vera þm. áfram eða ekki. Þeir, sem hafa orðið þm. vegna uppbótarsætanna, geta það ekki; þeir verða að leggja niður þingmennsku. Þetta getur frekar gengið hjá litlum þjóðum, en hjá stærri þjóðum gæti það orðið erfitt í framkvæmdinni.