29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (1395)

57. mál, varalögregla

Eysteinn Jónsson:

Ég skal halda mér alveg við síðari hluta þessarar till., því að ég lít svo á, að fyrri hluti hennar sé að nokkru leyti afgreiddur með þeirri yfirlýsingu, sem komið hefir fram frá hæstv. dómsmrh. Eins og þeir kannast við, sem fylgzt hafa með í þessu máli, kom í fyrra fram frv. um varalögreglu ríkisins, og gerði það ráð fyrir, að kostnaðurinn við varalögregluna yrði að langmestu leyti greiddur af ríkinu. Þessi tilraun var hin fyrsta, sem gerð hefir verið til þess að færa kostnaðinn við löggæzlu af bæjunum og yfir á ríkið, m. ö. o. að í stað þeirrar algildu reglu, að bæirnir skuli fyrst og fremst sjá um að halda uppi lögum og reglu innan sinna vébanda, skuli því skotið yfir á ríkissjóðinn. Nú er það svo, að bæði varalögregla og önnur lögregla er fyrst og fremst fyrir bæinn, sem hún starfar i. Þess vegna var það, að Framsfl. beitti sér fyrir því að færa þetta yfir í annan farveg en það upphaflega var í, nefnil. að áður en ríkið skipti sér af þessum málum hefði viðkomandi bæjarfélag gert sína skyldu, og í lögunum er ákveðið, hver sé skylda bæjarfélaga í þessu efni. Þar með er því slegið föstu, að ólöglegt sé, að ríkið skipti sér af þessum malum fyrr en bæjarfélagið hefði innt af hendi sínar kvaðir. Þetta var aðalatriðið í afgreiðslu málsins. Það var viðurkennt, að þörf gæti verið á aukinni löggæzlu, en því slegið föstu, að ríkið skyldi ekki taka þetta í sínar hendur fyrr en þeir, sem næst stæðu, hefðu tekið sinn skerf. Löggjöfin er því miðuð við það, að undir venjulegum kringumstæðum sé ekki varalögregla, eins og nafnið bendir til. En mér finnst menn gera ráð fyrir, að sjálfsagt sé, að alltaf sé hér varalögregla, en svo er ekki. Það á að vera undantekning. Það er sagt, að „megi“, en ekki að eigi að setja upp varalögreglu. Löggjöfin ætlast til, að þetta sé undantekningarráðstöfun, þegar sérstaklega stendur a. Í fyrsta lagi verður að liggja fyrir, að þörf sé fyrir hendi um aukna löggæzlu, og í öðru lagi, að hlutaðeigandi bæjarfélag hafi innt af hendi sína skyldu.

Ég álít, að ef Rvíkurbær uppfyllir allar sínar skyldur í lögreglumalunum eftir lögunum um lögreglumenn, þá sé orðinn svo mikill styrkur í hinni föstu lögreglu, að engin þörf sé á varalögreglu til viðbótar. Ég vil benda á, að það er hiklaust gert ráð fyrir því í lögunum frá síðasta þingi, að áður en ráðh. er leyfilegt að stofna til varalögreglu, þá þarf bæjarfélagið að hafa fullskipað fast lögreglulið, sem svarar til þess, að 2 lögregluþjónar séu fyrir hvert þúsund íbúa í bænum, og yrðu þá 60 fastir lögregluþjónar í Rvík. Auk þess á svo að bæta við skipshöfnum varðskipanna, þannig að varalögregla getur þess vegna ekki komið hér til greina fyrr en 60 lögregluþjónar, að viðbættum skipverjum varðskipanna, álítast ónóg til þess að forða frá óspektum í bænum. Ennfremur vil ég benda á þá sjálfsögðu skyldu bæjarins að afla lögreglunni þeirra taekja, sem þykja við eiga í menningarlandi, en það hefir ekki verið gert hér, þess vegna lít ég svo á, að þegar Rvíkurbær væri búinn að uppfylla allar þær skyldur í þessu efni, sem lögin ætlast til og venjulegar eru annarstaðar að því er tæki snertir, þá sé bókstaflega engin þörf á varalögreglu. Auk þess er það með öllu óheimilt að stofna til hennar nema að uppfylltum áðurtöldum skilyrðum um 60 manna fastan lögregluflokk o. fl. Það væri skýlaust lagabrot og sérstakt brot gagnvart þeim, sem eiga að greiða gjöld til ríkissjóðs, að stofna varalögreglu fyrr, því bæjarfelögin eiga fyrst að leggja fram sinn lögmælta skerf.

Ef þetta mál er skoðað í ljósi gildandi laga frá síðasta þingi, þá held ég, að síðari hluti till., sem fyrir liggur, þó samþ. verði, geti ekki í neinu tilfelli rýrt þá heimild, sem í lögunum felst til stofnunar varalögreglu. Og verði till. samþ., þá hefir það þá þýðingu, að þingvilji er fenginn fyrir því, að skilyrði laganna skuli uppfyllt áður en stofnað sé til varalögreglu í bæjunum. Ég greiði atkv. með þessari till., af því ég tei ekki forsvaranlegt að leggja gjaldabyrðar á fólk til uppihalds varalögreglu í Rvík, sem er algerlega óþörf, ef öll hin skilyrði laganna, sem eiga að ganga fyrir, eru uppfyllt af hlutaðeigandi bæjarfélagi. Það er talsverð ástæða til að ætla, að einstök bæjarfélög vilji misnota þessa heimild í lögum um lögreglumenn frá síðasta þingi. Bending í þá átt hefir komið fram hér í umr., þó það hafi ekki verið sagt með berum orðum, og í bæjarstj. Rvíkur hefir því verið haldið fram, að hægt væri að stofna til varalögreglu í bænum á grundvelli laganna, þó að hinu fasta lögregluliði væri ekki fjölgað upp í 60 menn. Þessar raddir gefa einmitt tilefni til þess, að svona till. kemur fram á Alþingi, og á hún því fullkomið erindi. Ég álít, að sjálfsagt sé að samþ. till., af því að ýmsir ráðandi menn virðast ekki telja það skýlaust ákveðið í lögum, að bæjarfélaginu beri fyrst að fjölga föstum lögregluþjónum upp í 60, áður en stofnað sé til varalögreglu. Ég álít lögin alveg skýlaus í þessu efni. En ef þetta verður gert af meiri hl. bæjarstj. með samþykki dómsmrh., þá er það vitanlega gert í því skyni, að velta yfir á ríkissjóð og landsfólkið í heild þeim kostnaði við lögregluaukninguna, sem Reykjavíkurbær á að bera.