18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (1536)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Stjórninni hefir borizt erindi frá borgarstjóra um sundlaugarframlagið. En bæði var þá lítið um fé og í mörg horn að líta, og gömul fjárveiting fallin úr gildi. Svo að á því stigi málsins gat stj. ekki svarað öðru en því, að hún teldi ekki rétt að greiða þetta fé af hendi, en stakk hinsvegar upp á, að endurveiting væri fengin, sem nota mætti, þegar betur stæði á. Það er mjög æskilegt, að ekki þurfi að neita um framlagið, því að bæði hefir Rvík ekki hlotið svo miklar fjárveitingar í sinn hlut, og auk þess er Rvík svo illa sett um möguleika til íþróttaiðkana og útivistar, og þá einkum á vetrum, að engin önnur höfuðborg á Norðurlöndum þarf meiri umbætur til að skapa íþróttalíf og hollar skemmtanir. Þegar sundhöllin kemst upp, mun hún eiga mikinn þátt í því að bæta möguleika unga fólksins til þess að skemmta sér á heilbrigðan og hollan hátt. Sú stjórn, sem nú situr, mun gera sitt til, að hægt verði að greiða þessar 100 þús. kr. á sínum tíma.