18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (1541)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Ég sé ekki, að það sé ástæða til þess, að þetta þurfi að bíða næsta þings, eins og hæstv. ráðh. fer fram á.

Hæstv. ráðh. sá við fyrri umr. till. fært að taka til athugunar að greiða þá fjárhæð, sem þá var farið fram á, 100 þús. kr. En nú geri ég ekki ráð fyrir, að það komi til meiri útborgun en 100 þús. kr. þangað til næsta þing kemur saman, því í brtt. n. er því slegið föstu, að bygging sundhallarinnar skuli ekki vera lokið l. okt. 1934, eins og þál. fer fram á, heldur verði verkinu haldið áfram með hæfilegum hraða og því lokið svo fljótt sem unnt er. Það er nú þegar komið svo mikið fé í þessa byggingu, að þetta 100 þús. kr. framlag ríkissjóðs mætti vel koma á árinu 1934, þó byggingunni væri þá ekki lokið til fullnustu. N. gerir ráð fyrir, að verkinu verði haldið áfram með hæfilegum hraða, og má því telja vist, að verkinu verði ekki lokið á árinu 1934. Þá kemur því ekki til meiri greiðsla en sem hæstv. ráðh. lofaði við fyrri umr. till. að greiða, ef till. yrði samþ. Það er því nægilegur tími til þess að taka það til athugunar, hvaða tekjustofna eigi að skapa til að standa á móti þeim útgjöldum, sem af þessu munu verða á árinu 1930, eða jafnvel 1936, því í niðurlagi brtt. er gert ráð fyrir, að síðari greiðsla fari fram eigi síðar en ári eftir að verkinu er lokið. Það getur því orðið eftir 2–3 ár, sem síðari greiðsla fer fram, og á þeim tíma kemur þingið væntanlega 2–3 sinnum saman.

Ég sé því ekki ástæðu til frá n. hálfu að breyta um afstöðu til till., því þetta fer allt saman, sem hæstv. forsrh. hefir lofað og það, sem n. leggur til, þegar það er skoðað niður í kjölinn.