06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (1563)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Halldór Stefánsson:

Ég hefði fylgt þessari till. eins og hún var borin fram, þó að ekki hefði verið þetta skilyrði, sem var í niðurlagi till., og sömuleiðis mun ég, ef till. verður borin upp í tvennu lagi, greiða fyrri hl. hennar atkv., en vera á móti seinni hlutanum. Mér skilst, að ástæðan fyrir seinni hluta till. vera það, að fá samþ. sama hlutfall um framlag til sundhallarinnar og gilt hefir um sundlaugar annarsstaðar, en ég tel þar ekki rétt að farið. Víðast á landinu er það svo, að menn geta ekki byggt hallir, en í Rvík er fjárhagur það góður, að þar geta menn leyft sér það, en þá eiga Reykvíkingar að gera það á sinn kostnað að meira leyti en aðrir landsbúar kosta byggingu á sínum fátæklegu sundlaugum. Ég álít, að þar sem fjárhagslegar ástæður í Rvík eru svo góðar, þá eigi bæjarbúar að kosta sína sundhöll hlutfallslega meira en aðrir landsbúar leggja fram til sinna sundlauga, því að þar sem efnahagur manna er svo góður hér, þá er engin ástæða til, að ríkið leggi fram eins mikið hlutfallslega eins og til hinna fátækari héraða, enda hefði líka mátt við þessa sundhöll sýna meiri hagsýni en gert hefir verið.