03.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 2. kjördeildar (Bergur Jónsson):

Í framsöguræðu minni í gær skýrði ég frá því, að meiri hl. kjördeildarinnar gerði þá till., að þingið frestaði að taka gilda kosningu Bjarna Snæbjörnssonar, en kærunni yfir kosningunni yrði vísað til kjörbréfan. til rannsóknar og ályktunar. Ég býst við, að menn hafi ef til vill skilið þetta svo, að hér væri um eina till. að ræða, en svo er þó ekki, heldur um tvær algerlega sjálfstæðar till., annarsvegar till. um að fresta að taka gilda kosninguna, hinsvegar till. um að vísa kosningunni til kjörbréfan., sem hægt er að gera engu síður fyrir það, þótt kosningin sé tekin gild. Ég vil því beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann beri fyrst upp till. meiri hl. um að fresta að taka ákvörðun um kosninguna. Verði sú till. felld, kemur till. minni hl., um að taka gilda kosninguna, að sjálfsögðu til atkv., og þá þar á eftir hin till. meiri hl., um að vísa málinu til kjörbréfan. Geri ég ráð fyrir, að sú till. verði a. m. k. samþ., hvernig sem málið veltur að öðru leyti. Eru fordæmi fyrir því, að kosning hefir verið tekin gild, en kærum út af henni jafnframt vísað til kjörbréfan. Svo var t. d. um 2 kærur á þinginu 1931. Ef þingið álítur, að ekki sé um veigameiri atriði að ræða en svo, að ekki sé ástæða til að fresta að taka ákvörðun um kosninguna, býst ég þó við, að þm. muni því geta gengið inn á þessa leið í málinu, og með því að ég geri ráð fyrir, að svo fari, sé ég ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði kærunnar, frekar en ég gerði í framsöguræðu minni, en þá hélt ég mér við það eingöngu að skýra frá staðreyndum málsins, án þess að leggja nokkurn dóm á málið sjálft.