30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Um brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 234 vil ég taka það fram, að ég álít það mjög varhugavert mál að innleiða slíkt undirskriftafargan, sem þar er gert ráð fyrir, með hækkun á tölu meðmælenda til framboðs. Það er ekkert vafamál, að einkum í fámennum kjördæmum getur verið auðvelt að safna undirskriftum til kjörfylgis hjá tiltölulega miklum hluta kjósenda. En það stríðir algerlega á móti því frjálsræðisfyrirkomulagi, sem stjskr. veitir kjósendum og ekki má takmarka með kúgunarákvæðum í kosningalögum. Það er mjög óheppilegt að veita stórum atvinnurekendum í þorpum og kaupstöðum, og þeim, sem hafa mest ráð á viðskiptasviðinu, aðstöðu til að binda fyrirfram atkv. ýmsra kjósenda með undirskriftasmölun til einstakra frambjóðenda. Það er einmitt gegn þessu, sem á að reisa skorður í kosningalögum, að einstakir menn geti misnotað aðstöðu sína gagnvart kjósendum. En nú vill hv. 3. landsk. með brtt. sinni opna dyr til kúgunar í þessu efni, þar sem hann fer fram á, að hverju framboði í kjördæmum utan Rvíkur fylgi undirskriftir eigi færri en 50 kjósenda, en í frv. er aðeins gert ráð fyrir 12–24 meðmælendum, og að í Rvík verði meðmælendur lista eigi færri en 200, en í frv. er gert ráð fyrir 100–200. Ennfremur ber hv. þm. fram brtt. um, að felld verði úr frv. sektarákvæði gegn því, ef safnað er undirskriftum um áskoranir og framboð til þingmennsku fram yfir það, sem heimilað er í frv. Mér finnst, að þessar till. hv. 3. landsk. séu ákaflega varhugaverðar, og vona, að hv. þd. fallist ekki á þær. Það er varhugavert, ef þær eiga að útiloka það, að lítill flokkur í fámennu kjördæmi geti haft þar frambjóðanda, ef hann fær ekki 50 meðmælendur. Það er hin mesta ósanngirni að leyfa ekki flokki að hafa þar mann í kjöri, þó hann hafi ekki svo háa tölu meðmælenda. Sú meðmælendatala, sem nú er í frv., hefir lengi verið í gildi og er einkum miðuð við mannfá kjördæmi. Brtt. hv. 3. landsk. er varhugaverð, og ætti hv. þd. að stytta henni aldur sem fyrst.

Þá vil ég ekki láta því ómótmælt, sem hæstv. dómsmrh. talaði um, að hefði komið greinilega í ljós í umr. um stjskr. hér í þessari hv. þd. í fyrra, að menn hefðu viljað með nánari reglum og fyrirmælum í kosningalögum þrengja nokkuð að sumum ákvæðum stjskr. Þetta er alls ekki rétt, sem sést bezt á því, að brtt., sem hv. 3. landsk. flutti um þetta efni, sem nú er komið inn í kosningalagafrv. í Nd., og sem hann vildi þá koma inn í stjskr.frv. sjálft, voru felldar, og greiddu fáir þdm. atkv. með þeim. Ég minnist þess, að sá, sem talaði á móti brtt., hv. 2. þm. S.-M., mótmælti á þeim grundvelli, að þau atriði, sem fælust í brtt. hv. 3. landsk., væru beinlínis brot á því samkomulagi, sem orðið hefði milli flokkanna í þinginu, um að stjórnmálaflokkunum væri heimilt að bera fram landslista, þar sem frambjóðendum væri fyrirfram raðað og að annaðhvert sæti væri skipað frambjóðendum utan Rvíkur. Þá kom einnig fram brtt. á Alþingi til tryggingar því, að menn þyrftu ekki að vera frambjóðendur í kjördæmum til þess að komast að á landslista. En í samkomulagsskilmálum Sjálfstfl. og Framsfl., sem þeir stóðu fyrir hv. þm. Str. og hv. þm. G.-K., var samið um þetta á þann hátt, sem ég gat um. Og það var niðurstaða þeirra samninga, sem hv. 2. þm. S.-M. vildi ekki hrófla við. Þess vegna vildi hann ekki samþ. brtt. hv. 3. landsk., sem hlutu að gera landskjörsákvæðin í stjskr. stórum óaðgengilegri fyrir einn af þeim flokkum, er stóðu að samkomulaginu, og spilla aðstöðu hans, en það var Alþfl.

Mér finnst vera óhæfilega langt gengið nú, þegar á að fara að setja inn í kosningalögin ákvæði svipuð þeim, sem felld voru þegar stjskr.frv. var afgr. á síðasta þingi, og sniðganga þannig ótvíræð ákvæði hinnar nýju stjskr. Ég vil eindregið mótmæla því, sem þeir hafa sagt um þetta hv. 3. landsk. og hæstv. dómsmrh., að það hafi verið vísað til þess á síðasta þingi, að frekari ákvarðanir um fyrirkomulag á landslistum, sem þá komust ekki inn í stjskr., mætti setja í kosningalög. Þessu var þá mótmælt af ýmsum hv. þdm., og m. a. á þann eftirminnilega hátt, að brtt. hv. 3. landsk. voru felldar hér í þd.