05.12.1933
Neðri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (1883)

53. mál, skilanefnd Síldareinkasölu Íslands

Finnur Jónsson:

Það má segja, að það sé ekkert undarlegt, þó að fram komi fyrirspurn um starf þessarar skilanefndar, sem þegar er búin að starfa nokkuð lengi og búin að kosta jafnvel meira en hún hefði þurft að kosta.

Úr því að farið er að gera fyrirspurnir um þetta mál, þá vildi ég mega beina einni fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., og hún er sú, hvort stj. hafi tekið ákvarðanir um það, að innheimta skuli hjá sjómönnum og síldarútvegsmönnum upp í tap einkasölunnar það, sem þeir höfðu fengið greitt upp í síld þá, er þeir seldu henni síðasta árið. Þetta vildi ég fá upplýst, og þá jafnframt, hvort lög einkasölunnar heimiluðu slíkt. Hverfi stj. að þessu ráði, getur hér orðið um að ræða æfistarf fyrir skilanefndarmennina. Ég fyrir mitt leyti tel með öllu óhæfilegt, ef krefja á þetta inn hjá sjómönnunum, þegar þess er líka gætt, að þeir voru í engu að spurðir, þegar einkasalan var lögð niður, né heldur, hvernig hún var gerð upp.

Það hefir verið upplýst, að lagt hefir verið í allmikil málaferli út af þessu, og sum þeirra mjög vafasöm. Þó verð ég að telja hitt vafasamara fyrir hv. þm., að taka alveg málstað hinna erlendu manna, sem höfðuð hafa verið mál gegn, eins og hv. þm. Vestm. gerði. Firma það, sem hv. þm. nefndi t. d., rak hér áður fyrr leppmennsku í stórum stíl, og mun vera það eina erlenda firma, sem lagt hefir út á þá braut eftir að síldareinkasalan hætti. Vitni það, sem hv. þm. nefndi, þekki ég vel, það er persónulegur kunningi minn og nákominn þessu útlenda firma.

Þegar einkasalan var lögð niður, voru sjómenn og útgerðarmenn stórskaðaðir með því, hvernig það var gert. Þeir fengu þar engu um að ráða. Þessu til sönnunar má geta þess, að síld, sem borgað var hér út á kr. 23.00 pr. tunnu fyrirfram í umboðssölu, var seld á uppboði í Stokkhólmi fyrir 7–8 kr. tunnan skömmu eftir að einkasalan var lögð á skurðarborðið. Það verður því vart með tölum talið það tap, sem beinlínis stafar af því, hve hatramlega einkasalan var lögð niður, og það tap verður að meira og minna leyti að skrifast á reikning fyrrv. stjórnar.