08.12.1933
Neðri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (1909)

53. mál, skilanefnd Síldareinkasölu Íslands

Pétur Ottesen:

Það má nú segja, þegar verið er að ræða um síldareinkasöluna sálugu og svo eftirhreyturnar, að þar bjóði ein syndin annari heim. Öllum er það enn í minni, hvernig til tókst með síldareinkasöluna. Ég held, að það sé mála sannast, að sjómenn og útgerðarmenn hafi yfirleitt verið sammála um, að með því að leggja síldareinkasöluna niður hafi verið létt af síldveiðamönnum þungu fargi, því nú blandast engum lengur hugur um það, að framkvæmd og rekstur þessa fyrirtækis var þannig, að til algerðrar auðnar horfði á sviði þessa atvinnurekstrar. Þetta verðum við, sem að því stóðum að koma síldareinkasölunni á fót, að kannast við og viðurkenna, alveg eins og hinir, sem frá öndverðu vantreystu því, að í þessu fælist nein hjálp fyrir síldarútveginn, og reyndust þeir sannspárri okkur hinum. Það þarf því ekki að fara að hefja upp neinn harmagrát, eins og mér fannst koma fram hjá hv. þm. Ísaf., yfir því, að síldareinkasalan var lögð niður. Rekstur hennar hafði nú verið þannig síðasta árið, að þó hún hefði fengið alla síldina fyrir ekki neitt, þá dugði það ekki til. Það hefði hvergi nærri hrokkið til að standast kostnað og óhöpp. Síldareinkas. var orðin gjaldþrota og öllum kappsmál, að hún risi ekki upp aftur.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta, en vil aðeins út af því, sem fram hefir komið um það, að komið gæti til mála að krefja þá menn, sem lögðu síld í einkasöluna og fengu hana borgaða með 2 kr. hverja tunnu, um endurgreiðslu, segja það, að það getur ekki komið til mála að fara nú að hreyfa slíkum kröfum, og ég vil ennfremur benda á það, að á síðasta þingi lágu fyrir tvennskonar till. viðvíkjandi síldarútgerðarmönnum á Austfjörðum. Þessir menn höfðu ekki fengið neina greiðslu út á þá síld, sem þeir höfðu lagt inn í einkasöluna, og sjálfir höfðu þeir orðið að taka víxillán til þess að greiða með kostnaðinn við verkunina á síldinni, og hafði stjórn einkasölunnar skrifað upp á víxlana. Svo fór þetta þannig, að víxlarnir fellu á þessa menn, því að ábyrgðin, sem einkasalan veitti heim, var vitanlega ónýt og einskis virði. Út af þessu flýðu menn þessir til þingsins með þessi vandræðamal sín, þegar þeir til viðbótar við að tapa aflanum stóðu uppi með stórskuldir fyrir að hafa verkað þessa síld og keypt salt í hana og tunnur. Komu fram tvennskonar tillögur um afgreiðslu þessa máls í þinginu. Fyrst var borið fram frv. af þáv. hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf. um það, að þessir víxlar, 70 þús. kr., yrðu greiddir af þeirri forgangskröfu, sem ríkisstj. hafði í bú síldareinkasölunnar, og í grg. frv. komust þeir m. a. svo að orði, að stj. síldareinkasölunnar hefði dregið sjómenn þessa á tálar, segja hreint og beint, að hún hafi dregið austfirzku sjómennina á tálar.

þetta frv. þeirra hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf. náði nú ekki fram að ganga, en hinsvegar var samþ. þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj., að hún hlutist til um, að bankastofnanir þær, sem höfðu kröfu á hendur þessum mönnum, frestuðu að höfða víxilmál á hendur heim, þar til séð yrði, hvernig færi um uppgerð á búi síldareinkasölunnar. Ég vil því í sambandi við þá afstöðu, sem þingið tók gagnvart þessum mönnum í fyrra, undirstrika það, að það getur ekki undir neinum kringumstæðum komið til mála að fara að krefja menn um þessar 2 kr., sem greiddar hafa verið, og það hefir verið gert með þeim hætti, eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, að þeir hafa fengið reikninga frá síldareinkasölunni, sem sýndu, að þeir höfðu tekið út 2 kr. á hverja tunnu síldar, en reikningar þessir sýndu hinsvegar ekki, að neitt hefði verið lagt inn á móti úttektinni. Ég hafði í höndum á þinginu 1932 reikninga frá 2 mönnum í mínu kjördæmi, sem hafa haft viðskipti við síldareinkasöluna 1931, og þeir sýndu, að reikningsfærslan var á þann veg, sem ég hefi nú sagt.

Ég skal ekki ræða frekar þessa fyrirspurn, sem hér liggur fyrir. Hinsvegar vil ég beina þeim orðum til hæstv. dómsmrh., að hann stuðli að því, að n. sú, sem með þessi þrotamál fer, hagi öllu á sem praktískastan hátt eftirleiðis, svo að kostnaður verði sem allra minnstur. Ég treysti dómsmrh. fullkomlega til þess, en hinsvegar má náttúrlega ekki skera svo við neglur sér, að ekki verði hægt að halda áfram að gera þessi mál upp þar til yfir lýkur.