30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í D-deild Alþingistíðinda. (1989)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Hannes Jónsson:

Hv. þm. Borgf. var mjög þrunginn af hryggð yfir samþingismönnum sínum, sem höfðu talað á móti hans skoðunum. Má vera, að það, sem hann sagði, hafi líka haft nokkur áhrif á hv. þm. A. m. k. var hæstv. forseti klökkur út af ræðunni, og það svo, að hann gáði ekki að sér og lýsti því yfir, að umr. væri slitið, en síðan hafa talað tveir, og ég nú sá þriðji. Ég skal ekki undrast yfir því, að sumir hafi fundið til hryggðar undir ræðunni, ekki af þeirri sömu ástæðu sem hv. þm. Borgf., heldur af hvi, að hv. þm. er langt leiddur í ofsa og ofstæki í þessum málum, eins og segja má um ýmsa aðra hv. þm. þessarar d. Það er eins og það sé komið við einhverjar heilagar spjarir, eins og aldrei hafi fallið neinn blettur á þessar flíkur, sem gengið hafa í hin argvitugustu skítverk. þessir menn, sem ég á við, hafa borið út óhróður um þingfulltrúa. (JakM: Sannanlegan óhróður). Nei, ekki sannanlegan. Alþ. hefir einnig lýst því yfir, að það vilji ekki láta af hendi þessa lóð, og er það auðvitað hið rétta. Það mætti alveg eins taka alþingishússgarðinn hérna og byggja í honum hús eða gera þar drykkjuskála fyrir góðtemplara og skemmtistað, svo að þeir gætu setið þar undir iðgrænu laufi trjánna. Það mætti líka alveg eins hugsa sér, að góðtemplarar fengju löngun til að byggja yfir sig glerhús á Austurvelli, þar sem kannske mætti sjá endurreisn þeirra í fyrsta og annað sinn eða jafnvel í fyrsta, annað og þriðja sinn. Hv. 1. þm. Reykv. hefði kannske gaman af að sjá þetta glerhús.

Nei, ég sé ekki annað en að við verðum að halda fast við þá stefnu að láta ekki þessa lóð af höndum. Og fyrir þá aðstöðu, sem ég hefi haft og hefi, mun ég greiða atkv. á móti till., hvaða afleiðingar sem það kann að hafa í för með sér, öðru viðkomandi.