06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (2005)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Pétur Magnússon:

Þótt ég segði, að málið lægi ekki ljóst fyrir, var ég ekki með því að ásaka hv. 2. þm. S.-M. Honum ber engin skylda til að kynna sér málið sérstaklega. Slíkt er auðvitað næst hæstv. fjmrh., og svo þeim, sem málið báru fram í Nd.

Annars voru það ekki kvaðirnar á lóðinni, sem mér var ekki kunnugt um, heldur hitt, hve mikils virði lóðin væri og hve millj þörf væri á nýbyggingu Hv. 2. þm. S.-M sagði, að hver maður í bænum vissi, að húsakynni reglunnar væru orðin allt of lítil, svo mjög, að þau hömluðu starfsemi hennar. Mér er nú ekki kunnugt um þetta. Ég veit að vísu, að góðtemplarahúsið er orðið nokkuð úr sér gengið, en það á ekki að þurfa að hamla starfsemi reglunnar, ef það er nógu stórt.

Hv. þm. sagði, að Alþingi hefði valdið templurum tjóni með aðgerðum sínum í málinu. Þarna er öllu hreint og beint snúið öfugt. Ekki er það Alþingi að kenna, hótt reglan byggi á lóð, sem hún hefir takmörkuð réttindi til. Reglan hefir aldrei borgað einn eyri fyrir lóðina. Og hvað það snertir, að Alþingi hafi tafið fyrir nýbyggingu, þá fæ ég ekki séð, að það geti staðizt, nema hv. 2. þm. S.-M. ætlist til, að húsið hefði verið reist fyrir ríkisfé. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að ef félagið hefði átt að leggja fram féð frá sjálfu sér, hefði það orðið að greiða hærri vexti en það geldur nú í húsaleigu, því að vafalaust hefði þetta orðið stórhýsi. Allar líkur benda á þetta, þótt ekki sé hægt að tilgreina tölur.

Þessar kröfur til ríkissjóðs er því ekki hægt að byggja á því, að Alþingi hafi bakað reglunni tjón. Þær verða eingöngu að byggjast á hinu, að reglan sé þjóðþrifafyrirtæki.

Hv. þm. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að reglan hefði aldrei gert neitt án þess að hlaupa í ríkissjóðinn. Þetta sagði ég ekki, en ég sagði hitt, að ég kynni illa við það, að félög, sem látið væri í veðri vaka um, að stofnuð væru af miklum fornaranda, í hverjum tilgangi sem það nú er, sæki jafnan í ríkissjóðinn meiri hlutann af því fé, sem þau verja eftir sínum lofsverða tilgangi. Ríkissjóðnum hefir venjulega tekizt að koma út án þess að skipulagður félagsskapur þyrfti að beita sér fyrir því.

Um góðtemplarafélagið er það að segja, að það hefir starfað í áratugi og fengið mikinn styrk úr ríkissjóði, og líka varið miklu fé til starfsemi sinnar, en ýmsum sýnist þó, að þessi fjölmenni félagsskapur ætti eins og margur annar að vera þess umkominn að koma sér upp húsi. Ég er ekki að efast um fornfýsi einstaklinganna, þó að reglan telji sig ekki þessa megnuga eftir öll þessi ár. En annars er því ekki að leyna, að nokkuð eru skiptar skoðanir um gagnsemi þessa félagsskapar. Það mun margra mál, að starfsemi reglunnar hafi beinzt í aðra átt en tilgangurinn var upphaflega. Hún hafi orðið pólitískur félagsskapur, þótt ekki hafi hann verið flokkspólitískur, sem unnið hafi að ákveðinni löggjöf án þess að taka tillit til afleiðinga þeirrar löggjafar. Reglan hefir í þeim efnum aðeins barið höfðinu við steininn.

Hv. þm. hafði það eftir mér og hv. 3. þm. Reykv., að ekki skyldi standa á þessum 75 þús. kr., þegar nóg væri komið af brennivíni inn í landið. Þetta höfum við aldrei sagt. Ég benti aðeins á það, að möguleikar til að styrkja regluna yrðu betri, þegar áfengislöggjöfin væri komin í skynsamlegra horf. Og ég get bætt því við, að ég geri mér frekari von um, að starfsemi reglunnar beri árangur, ef hún hættir að verja kröftum og fé til að viðhalda vitlausri áfengislöggjöf.

Hv. 5. landsk. vildi sannfæra hv. hdm. um húsnæðisleysi templara, en ekki get ég sagt, að upplýsingar hennar sannfærðu mig. Hv. þm. sagði, að í Reykjavík væru 10 stúkur, sem þyrftu að halda fundi vikulega. Ég get nú enga knýjandi þörf séð á svo tíðum fundahöldum, né búizt við, að ofdrykkja í landinu ykist stórlega, þótt fundir væru ekki nema tíunda hvern dag. Auk þess ættu félögin að geta komið saman á danssamkomur á milli, þótt þau yrðu að leigja sér húsnæði, eins og flest önnur félög. Hv. þm. talaði um það, að stúkurnar hefðu orðið að leigja sér húsnæði. Ég hefi áður bent á, að miklar líkur séu til þess, að slíkt sé ódýrara en ef reglan hefði byggt á þeim tíma, er til stóð, og skrifstofupláss álít ég stúkunum alveg vorkunnarlaust að taka sér á leigu utan góðtemplarahússins.

Mér finnst ekki hægt að loka augunum fyrir því, að nú eru erfiðir tímar og fjárhagsvandræði steðja víðast að, og ekki sízt hjá ríkissjóðnum. Hinsvegar mun vera hægt að notast við það húsnæði, sem reglan hefir hér í Reykjavík, þó það skuli fyllilega játað, að húsnæðið sé hvergi nærri fullnægjandi eða hentugt. En það verður líka erfitt fyrir regluna að byggja stórhýsi á þessum tímum. Og á það vil ég minna, að ríkissjóður hefir í fleiri horn að líta, og margt af því er meira aðkallandi fyrir þjóðina heldur en að byggja stórhýsi yfir góðtemplararegluna hér í bænum.