13.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2013)

15. mál, Kreppulánasjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Þótt þessi lagabálkur, sem hér er verið að flytja brtt. við, hafi hlotið meiri og rækilegri undirbúning á sínum tíma en flest önnur lög, munu margir hafa litið svo á, að tæplega yrði hjá því komizt að endurskoða l. bráðlega, þegar farið væri að starfrækja þau og reynsla væri fengin um ýmis atriði, og sérstaklega bjóst ég við, að eftir þá eldraun, sem lagabálkur þessi varð að fara í gegnum í vor við kosningarnar, eins og reynt var að „krítisera“ þau og tortryggja, að ekki þyrfti lengi að biða eftir tillögum til breytinga á honum frá þeim mönnum, sem inn í þingið flutu með aðalaðfinnslurnar á vörunum. Þær brtt., sem fyrir liggja, bæði hér og í hv. Ed., sýna hinsvegar hve undursamlega vel hefir tekizt að ganga frá lögunum. Í Ed. eru smábreyt. frá 2 mönnum úr sjóðstjórninni. Hefir n. þar skilað áliti í málinu, og allir eru sammála um að samþ. þessar breyt.

Ég skal ekki fara mikið út í þær brtt., sem fyrir liggja hér, því að hv. þm. Str. hefir tekið þær svo rækilega í gegn, að ég þarf þar ekki mörgu við að bæta. Það, sem sérstaklega hneykslar hv. flm., eru auglýsingarnar: að birta skuli nöfn þeirra manna, sem sækja um lán úr Kreppulánasjóðnum. Þetta var eitt viðkvæmasta atriði í frv. frá upphafi, og mjög mikill kurr varð til af þessu ákvæði. En er menn höfðu velt þessu fyrir sér, þá hefir flestum farið svo, að þeir ekki einungis hafa sætt sig við það, heldur sannfærzt um, að fram hjá þessu yrði ekki komizt, og fyrir því eru þau rök, sem hv. þm. Str. bar fram og ég ætla ekki að endurtaka. En þó vil ég aðeins drepa á það, að nú þegar þessar auglýsingar eru byrjaðar og margir eru bunir að sækja um lán úr sjóðnum, fleiri hundruð manna, sem verða auglýstir næstu daga, og ef svo ætti að fara að grauta í þessu nú, yrði það einungis til að stórseinka framkvæmd laganna. Flutningsmenn ætlast til þess að þeir einir verði auglýstir, sem ekki eiga fyrir skuldum. En er nokkur vissa fyrir því, að sjóðstj. sjái undir eins og umsóknir koma, hvoru megin þessi eða hinn er við línuna?

Svo vil ég aðeins benda á eitt, og það er það, að þótt þeirra uppgerð liggi fyrir og til dæmis samkvæmt fasteignamati því, sem nú er á jörðum, og mati á öðrum eignum, sýni, að fjárhagur þeirra sé svo, að þeir eigi fyrir skuldum, þá er yfirleitt ekki neitt vit í fasteignamatinu, svo að þótt hægt væri að sýna fram á, að menn eigi fyrir skuldum samkv. fasteignamati, þá er það engin sönnun fyrr en farið hefir fram endurmat á jörðunum og sannazt hefir, hvers virði þær eru. Ég býst við, að sjóðstj. muni notfæra sér heimild í l. til þess að færa niður fasteignamat á jörðum bænda, svo að það liggur ekki fyrir í upphafi, hvort þeir eigi fyrir skuldum eða ekki. Hv. aðalflm. frv. gat þess til, að meiningin með auglýsingunum myndi vera sú, að sjá, hversu rangt menn hefðu sagt til um sínar skuldir, þegar sótt var um lánið, og það finnst honum goðgá, að ætla mönnum slíka hluti. Nú hefir hv. þm. Str. sýnt fram á, að þótt menn vilji, þá er engan veginn víst, að þeir geti alltaf sagt upp á þar um allar skuldir sínar, og þó allra sízt ábyrgðir, sem oft eru engu betri en beinar skuldir. Þetta er því alls ekki rétt hjá hv. flm., að ástæðan fyrir þessu ákvæði sé það, að bændur séu yfirleitt vændir um svik í framtali sínu. En ef þetta væri nú svo, því bera hv. flm. frv. ekki fram till. um að sleppa auglýsingum hjá öllum lántakendum sjóðsins, líka þeim, sem ekki eru taldir eiga fyrir skuldum? Ég hefi aldrei heyrt því slegið föstu fyrr, að sannleiksást manna fari eftir því, hvort þeir eiga fyrir skuldum eða ekki. Ég hygg, að sannsöglin skiptist ekki eftir þeim línum. Ef á nokkurn hátt er hægt að gera þetta mál viðkvæmt fyrir bændurna, þá er það á hann hátt að skipta þeim þannig í tvo flokka, þá, sem ekki eiga fyrir skuldum, og þá, sem eiga fyrir skuldum. Ef á að fara að velja úr hina fátækari og auglýsa, en sleppa hinum efnaðri, þá fyrst er bændum orðið málið viðkvæmt og óvinsælst. Eins og nú sakir standa hafa menn gert sér ljóst, að erfiðleikarnir eru yfirleitt ekki sjálfskaparvíti, heldur sameiginlegir, áfall af orsökum, sem þeir hafa ekki ráðið yfir. Peningarnir, sem þeir tóku fyrir 3–5 árum að láni, eiga nú að greiðast með tvöföldu verði. Það er fjármálapólitík landsins, og fjármálapólitík heimsins, sem hefir orðið þessa valdandi, að koma nú öllum þorra bænda á kaldan klaka. Ríkið hefir gert sitt til þess að halda verðgildi peninganna uppi. Þrátt fyrir það að öll framleiðsla og eignir, sem á henni byggjast, hafi stórlækkað. En sú verðröskun, sem orðið hefir á milli peninganna og afurðanna, er orsök þess, að bændur geta nú ekki staðið í skilum. Þess vegna bera þeir það kinnroðalaust, þótt þeir þurfi að sækja um lán úr þessum sjóði, sem er réttlát tilraun af ríkisvaldsins hálfu til að færa aftur til nokkurs samræmis verðgildi fjármagnsins og framleiðslutækjanna. Þetta gengur svo að segja yfir allan þorra bænda og má segja, að sætt sé sameiginlegt skipbrot. En ef á að fara að flokka menn í fátæka og efnaðri og auglýsa hann fátæka, en sleppa hinum, þá er málið orðið sárt. Ég hefði getað skilið, að hv. þm. hefði komið með till. um að sleppa alveg auglýsingunum. Slíkt lá fyrir á seinasta þingi, en ég bjóst aldrei við, að hann vildi gera þetta að verulegu sársaukamáli fyrir hlutaðeigendur. Hv. þm. V.-Sk. talaði um, að verið væri að útata bændur landsins með heim auglýsingum og lítillækka þá siðferðislega og andlega. Eftir þessu hefði mátt vænta, að hann hefði viljað sleppa auglýsingum, en svo er ekki. Að hans dómi má lítillækka hina fátækari bændur bæði andlega og siðferðislega.

Um stjórn Kreppulánasjóðs skal ég lítið segja. Ég vil einungis taka það fram, að allir hljóta að gera sér það ljóst, að ef á að afgr. þetta á einu ári eins og l. gera ráð fyrir, þá hafa 3 menn, þótt svo þeir hefðu ekkert annað með höndum, nóg með að ganga frá uppgerðum þeirra mörg þúsund bænda, sem sækja um lánin, og af þeim ástæðum sé ég ekki annað en að það yrði stór styrkur fyrir stofnunina að fá einn mann, sem engum öðrum störfum hefði að sinna en vinna að þessu, því að hinir 2, sem í stj. eru, hafa öðrum störfum að gegna, sem hljóta að tefja þá. Það, sem stuðlaði að því, að stj. var skipuð eins og hún varð, er, að það var talinn bændum styrkur að hafa þar a. m. k. einn bónda, sem ekki væri háður neinni stofnun í landinu, sem kröfur hefir annars almennt á bændur landsins, mann, sem getur komið þarna fram einungis sem fulltrúi bændastéttarinnar með hennar hagsmuni eina fyrir augum. Bjóst ég satt að segja síðast við, að krafa um að ryðja þessum bónda úr stjórninni kæmi frá bónda og bændafulltrúa, fyrr en hann hefði þá brotið eitthvað af sér.

Ég skal lítið fara út í hina löngu ræðu hv. þm. V.-Sk. mér fannst hún vera einskonar námskeið fyrir sjóðstjórnina, sýna henni, hvernig hún ætti að haga sér eftir l. o. s. frv. Ætla ég að játa stj. eftir að dæma um það, hve miklu meira hún þykist hafa til brunns að bera eftir „námskeiðið“ en áður en það hófst.