06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

2. mál, kosningar til Alþingis

Vilmundur. Jónsson:

Ég þakka hv. frsm. fyrir það, að hann hefir játað greiðlega, að þeir gallar séu á till. þeirri á þskj. 322, sem hann er meðflm. að, að nauðsynlegt sé að lagfæra hana að einhverju leyti. En þar sem nú liggur fyrir að afgr. málið endanlega frá þessari hv. deild, skilst mér, að vissara sé að taka þessa till. aftur og athuga heldur málið því betur í hv. Ed. Hv. Ed. hefir það samband við okkur stjskrn.menn í Nd., að það er alls ekki ómögulegt fyrir hana að lagfæra þetta í samráði við okkur, og þá er hæstv. forseti Nd. leystur úr þeim vanda að fella úrskurð um þetta deilumál. Þetta gæti líka flýtt fyrir afgreiðslu málsins, því að svo getur farið, að hæstv. forseti verði að geyma atkvgr., ef hann á að fella úrskurð í málinu, svo sem óskað hefir verið frá báðum aðilum.

Ég vil nú minnast á örfá atriði þessa máls til frekari skýringar og til að svara því, sem ég til þessa hefi látið ósvarað af því, sem fram hefir komið.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi það fjarstæðu, að flokkur, sem hefði 8 þús. atkv., fengi aðeins 4 þm. Þetta er þó ekki meiri fjarstæða en svo, að ef Alþfl. hefði við síðustu kosningar fengið 50 atkv. færra en hann fékk, þ. e. a. s. 6814 atkv., þá hefði hann aðeins fengið 2 þm. kosna. Hefði hann fengið 12 atkv. færra í Norður-Ísafjarðarsýslu og 38 atkv. færra á Seyðisfirði, hefði reyndin orðið þessi, að hann hefði aðeins fengið 2 þm. kosna.

Hæstv. forseti vil ég biðja að íhuga það áður en úrskurður fellur, að hv. flm. brtt. á þskj. 322 vilja úthluta uppbótarsætum í sem nánustu hlutfalli við afgangsatkv., sem þeir kalla. Hvar stendur þetta í stjskr.? Þar er alls ekki um það rætt, að uppbótarþingsætin eigi að vera í sem réttustu hlutfalli við nein afgangsatkv., heldur að tala þm. hvers þingflokks, að viðbættum uppbótarþm., verði í sem fyllstu samræmi við kjósendatölu flokkanna.

Hv. þm. Snæf. talaði um, að eftir aðferð þeirra hefði ekki orðið mikill munur á meðalatkv.tölum flokkanna við tvennar síðustu kosningar. Það má vel vera, að svo hefði viljað til í þau tvö skipti, en hann hefði orðið enn minni eftir „minni aðferð“. Og það er það sem stjskr. krefst — ekki, að munurinn verði nokkuð lítill, heldur að hann verði svo lítill sem unnt er, með þeirri uppbótarsætatölu, sem fyrir hendi er.

Ég hefi því miður ekki reiknað út atkvæðatölurnar frá síðustu kosningum, en þess þarf reyndar ekki, því að þetta reikningsdæmi er þannig, að ef það er rétt sett upp og rétt reiknað, þá verður niðurstaðan rétt, hvaða tölur sem eru teknar.

Ég vil spyrja hæstv. forseta: Finnst honum vafi á því, hvora aðferðina eigi að nota við úthlutun uppbótarsæta, til þess að fullnægja sem bezt ákvæðum stjskr., þegar atkvæðatölur bak við hvern þm. verða t. d. samkv. annari aðferðinni 1143, 750 og 441, en eftir hinni 800, 783 og 500? Er í því tilfelli nokkur vafi á því, hvor aðferðin nær tilganginum betur? Eða svo að annað dæmi sé tekið: Hvort er nær fullu samræmi, að atkvæðatölur bak við hvern þm. séu 1200, 720 og 1450 eða 947, 900 og 967? Eða tölurnar 741, 1000 og 500 eða 880, 800 og 500? Þessu líkar eru niðurstöðurnar, hvaða dæmi sem eru tekin. Önnur aðferðin, „mín aðferð“, jafnar á milli flokkanna í hverju tilfelli, eftir því sem unnt er, en hin fer fjarri því.

Ég býst ekki við, að ég tali svo lengi, að hv. 1. þm. Reykv. játi, að hann hafi sannfærzt af því, sem ég segi, enda hygg ég, að honum sé ekki mikið áhugamál að láta sannfærast. Ég verð því miður að vera svo tortrygginn að álíta, að hv. sjálfstæðismenn beri þessa till. fram til að reyna að ásælast tvö uppbótarþingsæti, sem Alþfl. ber með réttu, miðað við það fylgi, er þeir hafa haft við undanfarnar kosningar. Þar endurtekur sig gamla sagan um að ágirnast lamb fátæka mannsins. Ég verð að segja, að það eru mjög óviðeigandi lyktir á samvinnu þessara tveggja flokka um þetta réttlætismál, stjskr.málið, sem nú er verið að leiða til lykta í þinginu. Verðum við Alþfl.menn þar að taka okkur í munn hið fornkveðna: „Guð varðveiti okkur fyrir vinum okkar“.