07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Ég býst við, að þessar umr. verði nú ekki lengri, og skal því eigi deila sérstaklega á neinn. En ég vil benda hv. þm. N.-Ísf. á það, að dæmið, sem hann tók um það, að hlutfallstalan gæti orðið 387, getur vart komið til greina samkv. viðbótarbrtt. okkar sjálfstæðismanna, því þar er ákveðið, að hlutfallstalan skuli aldrei vera lægri en eitt prócent af öllum greiddum atkv. á öllu landinu, og þegar hinir nýju kjósendur bætast í hópinn, er mjög líklegt, að kjósendatalan verði a. m. k. 45 til 50 þús. (VJ: Þá hækka um leið allar tölurnar).

Hv. þm. var að sletta því í okkur sjálfstæðismenn, að hann grunaði okkur um græsku í þessu máli. Ég vil benda honum á, að um leið og við bárum fram till. okkar í n. lögðum við til, að þær væru sendar stærðfræðingi til sérstakrar athugunar, og bendir það ekki á, að við höfum ætlað að koma þeim fram samnefndarmönnum okkar að óvörum um hið raunverulega efni þeirra.

Þá hefir hv. þm. leyft sér — ég segi leyft sér, og nota eigi sterkari orð, af því ég ætla, að hv. þm. sé dauður — að halda fram, að okkar till. séu brot á stjskr., og er hann byrjaður að láta blöð sín halda því á lofti. Út af því vil ég víkja því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki athuga það, að í stjskr. stendur, að þingflokkar skuli hafa þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína. Og ég vil spyrja hæstv. forseta að því, og miða við síðustu kosningar, hvort hann telur t. d., að Sjálfstfl. hefði haft þingsæti í fyllra samræmi við atkvæðatölu sína, ef hann hefði fengið 24 þm. af 49, þar sem flokkurinn fékk um 52% af þeim atkv., sem féllu á þingflokkana í kosningunum, en þau atkv. ein koma til greina við ákvörðun þingsæta samkv. stjskr. og kosningalögunum. Samkv. reglu hv. þm. N.-Ísf., sem er eins og ég hefi getið um mikið til hin sama og var upphaflega í frv., hefði í mesta lagi komið 24 þingsæti í hlut Sjálfstfl., en eftir okkar reglu 25, eða meiri hluti þings, hafandi á bak við sig meiri hluta þeirra atkv., sem skipun Alþ. ráða. Hvort telur hæstv. forseti réttara, hvort telur hann samrýmast betur anda stjskr.?