30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

22. mál, lögreglustjóri í Bolungarvík

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að hann hafði fyrirvara um þetta mál, og einnig um frv. um lögreglustjóra í Keflavík, sem allshn. afgr. í dag. En mér skildist það á honum, að hann neitaði ekki þörfinni fyrir þessa starfsmenn. Enda er þessi þörf mjög brýn í fjölmennum kauptúnum og sveitarfélögum, ekki sízt vegna fjárhagsmálanna. Það er víða þörf á óskiptum starfsmanni, sem gæti gefið sig að þeim, og það er þessi brýna þörf, sem kemur fram í ósk kauptúnanna um lögreglustjóra hjá sér. Og það, sem áður hefir gilt fyrir Akranes og Norðfjörð, gildir nú alveg eins fyrir Keflavík og Bolungavík. Ég tel, að þingið geti ekki daufheyrzt við þessum óskum, fyrst það á annað borð er gengið inn á þessa braut. — Mér þykir það ekkert óeðlilegt, þótt gera megi ráð fyrir því, að laun þessara manna fari hækkandi; það er eðlileg afleiðing þess, að þorpin vaxa og störf lögreglustjóranna verða umfangsmeiri. Ennfremur má athuga það, að ekki er ólíklegt, að ríkissjóður geti haft hag af þessum ráðstöfunum, þar sem tolleftirlit með innfluttum vörum verður miklu betra. Slíkt eftirlit er mjög ófullnægjandi, nema þá helzt í Reykjavík og stærstu kaupstöðunum. Og því neitar enginn, að víða muni fljóta í land vörur, sem ekki er greiddur tollur af. Og þetta er víða aðeins vegna eftirlitsleysis, en ekki beint vegna þess, að menn af ráðnum huga brjóti ákvæði tolll. Það eru því öll líkindi til þess, að þessi embætti leiði ekki einungis af sér útgjöld, heldur færi ríkissjóði einnig tekjuauka. Ég vil því eindregið skora á hv. þdm.samþ. frv.