24.11.1933
Neðri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

14. mál, ríkisborgararéttur

Guðbrandur Ísberg:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 149, þess efnis, að auk Valtýs Valtýssonar verði ríkisborgararéttur einnig veittur Knut Otterstedt, rafveitustjóra á Akureyri. Þessi umsókn hans kom ekki fyrr en í gær, en hann bað mig um það þegar í þingbyrjun, að hafa sig í hyggju, ef slíkt frv. sem þetta kæmi fram í þinginu. Ég gat útvegað honum umsóknareyðublöð í tíma, og liggja nú fyrir öll nauðsynleg skilríki. Maður þessi er fæddur í Svíþjóð árið 1891, fluttist hingað til lands 1922, og var þá ráðinn af bæjarstjórn Akureyrar sem sérfræðingur við rafveituna þar, og hefir hann verið rafveitustjóri þar síðan. Hann talar og ritar íslenzku lýtalaust, og er kvæntur íslenzkri konu. Annars vil ég vísa til vottorða þeirra, er frammi liggja, bæði frá bæjarstjóranum og lögreglustjóranum á Akureyri, en þeir mæla báðir eindregið með því, að þessum manni verði veitt ríkisborgararéttindi. Ég talaði við hv. allshn. um þessa brtt. mína í morgun, og vona, að einhver hv. nm. láti álit sitt í ljós, enda þótt till. hafi ekki verið lögð formlega fyrir n.