14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Ólafur Thors:

Eins og hv. þm. Ísaf. gat um og tekið er fram í grg. þessa frv., hefir hin ríka þörf sjávarútvegsins sagt til sín mjög greinilega á síðustu missirum og krafizt þess, að eitthvað væri að gert. Raddirnar, sem borið hafa fram óskir um, að bætt væri aðstaða síldveiðiskipanna til aflasölu, hafa að undanförnu orðið æ fleiri og fleiri og háværari og háværari. Af þeirri ástæðu tók Sjálfstfl. þetta mál til athugunar þegar í byrjun þessa þings. Svo var það á einum af fyrri fundum sjútvn. þessarar hv. d., að hv. þm. Ísaf. lagði fram bréf frá verksmiðjustjóra síldarbræðsluverksmiðju ríkisins á Siglufirði til eins af stjórnarnefndarmönnum verksmiðjunnar, þar sem rætt er um stækkun síldarbræðslustöðvar ríkisins á Siglufirði með líkum hætti og hv. þm. Ísaf. hefir gert grein fyrir. Við sjálfstæðismennirnir í sjútvn. tjáðum okkur þá þegar samþykka, að hafizt yrði handa í þessu efni á einhvern hátt, og höfum við þar að baki okkar þann flokksvilja, sem fram kom þegar málið var til umr. innan flokksins í þingbyrjun. Ágreiningur reis þó innan n. út af öðru, nefnil. á hvern hátt ætti að bæta úr þeirri miklu þörf, sem allir viðurkenndu, að væri fyrir hendi. Hv. þm. Ísaf. hafði hugsað sér, að úr þörfinni yrði bætt með því að auka við síldarbræðslustöð ríkisins á Siglufirði, og því voru framsóknarmennirnir í n., hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Barð., samþykkir. En við sjálfstæðismenn álitum ekki rétt á þessu stigi málsins að binda hendur okkar eða ríkisstj. um það, hvort þessi leið skyldi farin eða einhver önnur. Okkur er það að vísu ljóst, að ódýrast yrði að koma upp slíkri verksmiðju, sem hér er um að ræða, bræðslustöð, sem brætt getur 2000 til 2500 mál síldar á sólarhring, með því að reisa hana í sambandi við síldarbræðslustöðina á Siglufirði. Við játum, að allar líkur benda til, að bryggjur ríkisins á Siglufirði mundu nægja, þó verksmiðjan væri stækkuð og eins þrærnar, sem byggðar hafa verið til afnota fyrir hana. Annað verður og að játa, sem ég tel ekki síður skipta máli, og það er, að líkurnar fyrir því, að mjög bráðlega verði leyst úr þörf síldarútvegsins, þær yrðu sennilega mestar með því að ákveða þegar, að það skuli gert á þann hátt að auka við þá starfrækslu, sem fyrir er á Siglufirði. En þá er líka að minni hyggju upptalið allt það, sem mælir með því, að þetta mál sé leyst á þann hátt, sem hv. þm. Ísaf. og fulltrúar Framsfl. í sjútvn. virðast hallast að. Það eru ýmsir gallar á því að reisa þessa verksmiðju á Siglufirði. M. a. sá, að kaupgjald er hvergi hærra en einmitt þar. Og óvissan um rekstur slíkrar stöðvar er heldur hvergi meiri. Hvergi á landinu er meiri hætta á, að skellt sé á verkföllum að ófyrirsynju, heldur en á þessum stað; það vitum við af reynslunni. Ég er ekki í neinum efa um, að hver okkar sjútvnm., sem staddur væri í sporum ríkisins, sem ætti síldarbræðsluverksmiðju á Siglufirði og hefði í hyggju að bæta við sig, hann mundi hugsa sig tvisvar um áður en hann reisti viðbótarstöð á Siglufirði; e. t. v. mundi hann ekki þurfa að hugsa sig nema einu sinni um til þess að ákveða að gera það ekki þar. Ríkið á að hugsa eins og aðili, sem sjálfur á bæði skipin, sem síldina veiða, og bræðslustöðvarnar, og ef við værum í sporum þess, er ég ekki í vafa um, að við mundum af ýmsum ástæðum vilja reisa þessa verksmiðju annarsstaðar en á Siglufirði. Og þá dettur mér í hug, að heppilegt mundi vera að reisa hana við Húnaflóa. Eins og hv. frsm. gat um. verður það æ ljósara og ljósara, að Húnaflói er eitthvert bezta fiskimiðið yfir síldarvertíðina. Og það liggur í augum uppi, að það er mikið hagræði fyrir þau skip, sem hafa sölusamning við ríkisverksmiðjurnar, að geta ráðið því, hvort þau landsetja aflann á Siglufirði eða við Húnaflóa, og haft það eftir því, hvar veiðin er í hvert skipti. Sérstaklega skiptir þetta miklu máli fyrir minni veiðiskipin, eins og t. d. þau, sem hv. þm. Ísaf. er framkvæmdarstjóri fyrir. Ég er því á þeirri skoðun, að hyggilegast væri að reisa þessa fyrirhuguðu verksmiðju við Húnaflóa, þó ég jafnframt játi, að ódýrast mundi verða að koma henni upp á Siglufirði, og að líkur benda til, að hún kæmist fljótara upp, ef undið væri að því ráði. Ég er í litlum vafa um, að þó nú væri reist viðbót við síldarbræðslustöð ríkisins á Siglufirði, þá mundi ekki líða á löngu þangað til önnur yrði reist við Húnaflóa, ef öllu fer fram eins og nú horfir. Og ef sú spá mín og margra annara er rétt, þá hygg ég, að allir geti verið sammála um, að mikið heppilegra væri að byrja á því að reisa síldlarbræðslustöð við Húnaflóa, til þess að geta svo, að fenginni reynslu, aukið við á þeim staðnum, sem hentara þykir.

Það er rétt, sem hv. frsm. gat um, að sjútvn. hefir í hyggju að reyna — ég vil ekki kveða sterkara að orði — að komast, áður en þingi lýkur, að fastri niðurstöðu um það, hvar heppilegast sé að reisa þessa verksmiðju. Mun hún þá að sjálfsögðu bera sig saman við útgerðarmenn og sjómenn um þetta mál. Er það spá mín, að flestir þeirra manna muni mæla með því, að verksmiðjan verði reist við Húnaflóa. Þeir menn, sem framarlega standa í útgerðarmálunum og látið hafa til sín heyra opinberlega um þetta efni til þessa, hafa einmitt hallazt að skoðun okkar sjálfstæðismanna í n., sem leggjum áherzlu á, að það komi að minnsta kosti til athugunar að hafa verksmiðjuna einhversstaðar annarsstaðar en á Siglufirði.

Till., sem upphaflega var lögð fyrir n., var miðuð við það, að verksmiðjan væri reist á Siglufirði, og lánsheimildin miðuð við ½ millj. kr. N. færði lánsheimildina upp í 1 millj. og hafði staðinn óákveðinn, því við teljum nauðsynlegt, að við ákvörðun staðarins komi til álit reyndari manna og dómbærari á þetta mál.

Ég skal játa það fyllilega fyrir hv. þdm., áður en ég lýk máli mínu, að þótt við sjálfstæðismenn aðhyllumst, að ríkið leggi fé til stofnunar og starfrækslu þessarar síldarbræðsluverksmiðju, þá hefðum við eðlilega miklu fremur kosið, að þetta hlutverk væri leyst af hendi af einstaklingum. En að við leggjum því lið, að ríkið geri þetta, kemur til af því, að eins og hag útgerðarinnar er nú komið, virðast ekki líkur til, að útgerðarmenn reynist færir til að koma upp síldarbræðslustöð sjálfir. Og þó við leggjum til, að ríkið taki á sig þetta fjárframlag, þá er okkur ljóst, að ekki er hægt með sanni að segja, að það sé með öllu áhættulaust. Það þarf ekki að rekja sögu fiskveiðanna lengra en til ársins 1926, til þess að við manni blasi sú staðreynd, að mikil áhætta fylgir starfrækslu slíkra stöðva, sem hér er um að ræða. Þrjár síldarbræðsluverksmiðjur við Siglufjörð og Eyjafjörð fengu þá ekki nema 60 þús. mál síldar vegna aflaleysis, en næsta ár fengu sömu verksmiðjur 260 þús. mál til vinnslu og gátu afkastað því. Það liggur í augum uppi, að þegar verksmiðja fær ekki nema svo lítinn hluta af hráefnismagni því, sem hún getur afkastað að vinna úr, þá hlýtur hún að færa eigendunum mikið tap. Ég játa líka, að nokkur hætta á áframhaldandi verðfalli á vörum síldarverksmiðjanna vofir yfir. Við eigum í keppni við þjóðir, sem hafa lægra kaupgjald en við og standa því betur að vígi. En ég álít þessa hættu eigi svo mikla, að hún eigi að ráða úrslitum málsins. Og loks vil ég benda á, að meiri hætta stafar af innilokunarstefnunni í verzlunar- og viðskiptamálum þjóða á milli, sem sífellt er að færast í aukana.

En þrátt fyrir þetta tel ég rétt að ráðast í nýbyggingu, því þarfir sjávarútvegsins á þessu sviði hafa gert svo greinilega vart við sig, að fremur ber að tefla í nokkra tvísýnu heldur en að láta vandræðin óleyst.

Hv. frsm. gat um, að ef síldarbræðsluverksmiðjan væri reist á Siglufirði, gæti hún verið undir sömu stjórn og ríkisverksmiðjan, sem þar er fyrir. Þetta er rétt.

En það er heldur ekkert því til fyrirstöðu, að verksmiðjurnar væru starfræktar undir sömu stjórn, þó að þær væru ekki á sama stað. Yfirstjórnin gæti verið hin sama, þó e. t. v. yrði eitthvað meiri kostnaður við verkstjórn og þessháttar.

Ég vil svo að endingu taka undir það, að þó ég fyrir mitt leyti áliti, að það verði a. m. k. að athuga málið mjög gaumgæfilega áður en ákveðið er, að þessar framkvæmdir verði á Siglufirði, þá legg ég mikla áherzlu á, að staðarvalið valdi ekki þeim drætti, að bræðslustöðin verði ekki reist á næsta sumri, sé þess á annað borð nokkur kostur, sem ég nú efa. Hér er um svo mikla nauðsyn að ræða, að það má alls ekki dragast, að úr henni sé leyst.