18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég finn ástæðu til að taka það greinilega fram út af ummælum í ræðum einstakra þdm., að þegar sjútvn. orðaði frvgr. þannig, að verksmiðjan skyldi reist á Norðurlandi, þá átti hún einnig við strandlengjuna vestanvert við Húnaflóa.

Í dag átti sjútvn. tal við formenn skipstjórafélaganna í Reykjavík og Hafnarfirði, og gáfu þeir n. þær bendingar, að erfitt væri að rata í þoku inn á Ingólfsfjörð, af því að við innsiglinguna þyrfti að taka fimm stefnubreytingar. En við innsiglingu á Reykjarfjörð og Siglufjörð væru ekki nema tvær stefnubreytingar. Ingólfsfjörður getur því tæplega komið til greina. Þegar athugaður er uppdráttur að höfninni á Skagaströnd, kemur það í ljós, að þó að byrjað verði á hafnargerð á Skagaströnd næsta sumar, þá sýnir uppdrátturinn það og sannar, að það er ekki hægt að reisa þar síldarbræðslustöð, jafnvel þó að hafnargarður sé byggður út í eyjuna. Því að eftir upplýsingum frá vitamálastjóra er ekki nema 2—3 metra dýpi í höfninni, og það er vitanlega allt of lítið fyrir venjuleg síldarskip. Að vísu er þar sandbotn, en höfnin er misdjúp og víða steinnybbur í botni, sem þarf að sprengja. — Þrátt fyrir það, þó að Skagaströnd verði að ýmsu leyti að teljast ákjósanlegasti staðurinn fyrir síldarverksmiðjuna, að Siglufirði frátöldum, vegna legu og afstöðu til síldveiðistöðvanna, þá virðist mér, að það geti ekki komið til mála að reisa hana þar að svo stöddu, nema hafnarmannvirkin verði fullgerð hið fyrsta.

Nú þurfa hv. þdm. að gera sér ljóst, hvort á þeim stað, þar sem verksmiðjan verður reist, skuli eingöngu gert ráð fyrir bræðslu eða að síldarsöltun fari þar einnig fram. Ef þar verður aðeins rekin síldarbræðsla, þá verður mjög lítil þörf fyrir uppland í sambandi við verksmiðjuna; en sé gert ráð fyrir, að síldarsöltun komi jafnfram til greina, sem æskilegast væri, þá er miklu meiri þörf fyrir landrými, og þó einkum fyrir góðar samgöngur. Ég vil beina því til hv. þdm. til athugunar, hvernig á því stendur, að mestallur síldarútvegur og sérstaklega síldarsöltun hefir safnazt saman á Siglufirði. Það er af því, að þar er miðstöð allra síldveiða fyrir Norðurlandi. Þangað safnast kaupendur að síldinni, af því að þeir vita, að þar geta þeir valið úr þá síld, sem er hæfust til söltunar. Ég skal geta þess, að á söltunarstöðvum við Eyjafjörð, þar sem eru góð skilyrði að því er snertir hafnir og landrými, er víða farið að leggja niður síldarsöltun, af því að þar eru engir kaupendur að síldinni um leið og hún er söltuð, en þeir eru aðallega á Siglufirði.

Ef hv. þdm. ætlast til þess, að með stofnun síldarverksmiðjunnar sé aðeins hugsað um bræðslu, án þess að nokkur síldarsöltun fari þar fram á sama stað, þá er það vitanlegt, að Reykjarfjörður er sá staðurinn, þar sem fljótlegast er að koma verksmiðjunni upp — að frátöldum Siglufirði. En ef á að bíða með síldarverksmiðjuna þangað til búið er að hyggja höfn á Skagaströnd, þá er ég hræddur um, að málinu verði slegið á frest um óákveðinn tíma. Hinsvegar skal ég segja hv. þm. A.-Húnv. það til huggunar, að þegar búið verður að gera fullkomnar hafnarbætur á Skagaströnd, þá koma þar fljótlega bryggjur til síldarsöltunar og síldabræðsluverksmiðja. Nú er það svo, að frá Reykjavík ganga ekki nema 5—6 togarar á síldveiðar um vertíðina. Hinir togararnir eru ónotaðir. Það eru því nægilega mörg skip í landinu til síldveiða, þó að síldarverksmiðjunum verði fjölgað frá því, sem nú er.

Ég þykist nú hafa fært fullkomin rök fyrir því, að það eigi að reisa síldarverksmiðjuna á næsta sumri, ef það er mögulegt. En hinsvegar hefir stj. heimildina áfram, sé þess enginn kostur.

Út af því, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Eyf., hvernig skilja beri þau fyrirmæli í brtt., að stj. fari eftir upplýsingum og till. frá síldarútgerðarmönnum um val á staðnum, vil ég taka það fram, að ég skil þetta svo, að fyrir stj. sé ekki um annað að ræða en að ákveða þann stað, sem meiri hl. síldarútgerðarmanna álítur heppilegastan. En þeir hljóta að skera úr því með atkvgr.

Ég vil svo að lokum mæla hið bezta með því, að brtt. hv. þm. Borgf. verði samþ., með brtt. hv. sjútvn.