25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Héðinn Valdimarsson:

Það er fjarri því, að ég sé samþykkur þessu frv. Ég vil þvert á móti leggja gegn því af þeirri ástæðu, að þetta er einkafyrirtæki, sem í hlut á. Og ef farið er inn á þá braut að veita auknar ábyrgðir, þá getur farið svo, að mörg önnur einkafyrirtæki gangi á sama lagið og krefjist ábyrgðar. Það er hægt að segja um mörg einkafyrirtæki eins og hv. þm. G.-K. sagði, að þau eru í sjálfu sér þörf og auka atvinnu í landinu, og eigendur skipanna eru kannske ánægðir að skipta við þetta fyrirtæki, en önnur rök færði hann ekki fyrir þessu máli. Hagur þessa fyrirtækis er þannig, að það er skuldum hlaðið og hefir því verið gefið eftir útsvar af bæjarins hálfu. Hafnarsjóður á mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta fyrirtæki, og álít ég heppilegast að fara þá leið, sem hefði átt að fara í fyrstu, að hafnarsjóður eignist fyrirtækið og ekki sé verið að hlaða undir einkarekstur þess.

Enda þótt ég álíti það ekki neina hættu fyrir ríkissjóð að ganga í þessa ábyrgð, þar sem ábyrgð Rvíkurbæjar stendur á bak við, þá vil ég eindregið leggja á móti því, að það sé gert.