23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (881)

51. mál, strandferðir

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Ég geri nú ekki ráð fyrir, að þetta mál fái framgang á þessu þingi, en þótti þó rétt að koma fram með það nú þegar, mönnum til athugunar. Og vegna þess að sú n., sem ég ætlast til, að frv. gangi til, mun hafa fá mál til meðferðar, þá finnst mér mega vænta, að hún taki það til nákvæmrar athugunar.

Menn hafa litið hornauga til þess, að útlend skip hafa siglt hér hvarvetna, þegar skip ríkissjóðs hafa legið aðgerðarlaus. Erlendu skipin hafa hagað ferðum sínum þannig, að koma á þá staði, sem arðvænlegastir eru. En af því leiðir, að afskekktar hafnir hafa orðið afskiptar. Ennfremur, að íslenzku skipin hafa haft lítið að gera og strandferðir því lagzt niður að nokkru leyti. Þannig hefir annað skip ríkissjóðs legið að miklu leyti kyrrt undanfarið og strandferðirnar orðið minni en nauðsyn ber til.

Nú finnst mér komin ástæða til að athuga, hvort ekki sé réttlátt að fara að dæmi annara þjóða, og leyfa ekki erlendum skipum að flytja farþega milli íslenzkra hafna, og nota til hlítar þann skipastól, sem við Íslendingar eigum, til að flytja fólk og farm. Með því að skipin fengju góðu hafnirnar, þá mundi fast afgangur, sem gæti gengið til að jafna halla viðkomanna á lélegu höfnunum.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en mælist til, að það verði látið ganga til samgmn. að lokinni þessari umr. Vænti ég, að n. sinni máli þessu eins og það á skilið.