17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (982)

29. mál, verslunarskudir og vaxtataka af verslunarskuldum

Eysteinn Jónsson:

Ég dreg ekkert í efa, að það hafi vakað fyrir flm., að gott væri að geta stemmt stigu fyrir verzlunarskuldasöfnun, eins og svo mjög hefir verið talað um í þessu landi, að væri mönnum til ófarnaðar. En það, sem ég rek fyrst augun í, er, að í 1. gr. frv. stendur, að „verzlunarskuldir“, þ. e. skuldir, sem stafa af úttekt í búðum og verzlunum, fyrnast á einu ári“. Þetta út af fyrir sig tel ég ekki nægilegt til að ná því marki, sem flm. ætlast til. Mér virðist, að halda mætti áfram þrátt fyrir þetta svipað og gengið hefir, einungis með því að breyta lánunum í víxillán, því að með þessu er víxilrétturinn ekkert skertur, því væri hægt að láta úttakanda samþ. víxil fyrir úttektinni og þannig að komast í kringum ákvæði laganna. Nú gæti verið, að leiðrétta mætti þetta atriði, og ætla ég að gera ráð fyrir, að svo sé og frv. næði þannig tilgangi sínum, sem í raun og veru er sá, að öll lánsverzlun falli niður. Hv. 2. þm. Reykv. hefir nokkuð farið inn á það, sem ég ætlaði að taka fram í því sambandi. Ef lánsverzlun felli niður, þá verða einhverjar stofnanir að taka upp þá lánastarfsemi, og verður þá að gera þær þess megnugar. Ég vænti, að hv. flm. hafi reynt að gera sér það ljóst, hve mikið fé er þarna um að ræða og ekki nærri allt upphaflega komið frá okkar bönkum, heldur frá erlendum bönkum í gegnum verzlunarfyrirtæki. Og þessa lánastarfsemi þyrftu því okkar bankar að geta tekið upp jafnskjótt og frv. öðlast lagagildi. T. d. fá sjávarútvegsmenn akaflega mikið af sínu veltufé frá verzlunum með vörulánum. Það hefir verið svo, að þeir, sem sjávarútveginn stunda, hafa stundum orðið að snúa sér til verzlana með öll lán, til þess að geta haldið útgerðinni gangandi. Og það hefir verið svo oft og tíðum, að þau lán, sem bankarnir hafa veitt, hafa ekki verið veitt fyrr en búið var að veðsetja þeim veiddan fisk. En verzlanirnar hafa orðið að lana áður en fiskurinn var veiddur. Ég bendi einungis á það, að um leið og þessari leið er lokað, sem hefir orðið til þess, að margir hafa getað stundað atvinnu, sem ella myndi ómögulegt, þarf að opna aðra leið, svo að af þessu hljótist ekki atvinnustöðvun. Ég get einnig tekið undir það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um aðra en sjávarútvegsmenn, nefnilega bændur. Þeir þurfa líka á lánum að halda. Þeirra framleiðsla kemst ekki í verð fyrr en seint og um síðir. Þeir þurfa lán bæði til framleiðsluvörukaupa og neyzluvörukaupa, þangað til vörur þeirra komast á markað. Og meðan ekki eru gerðar aðrar ráðstafanir til þess að þeir geti fengið þau, er ég algerlega mótfallinn þessu frv. Ég skal ekki segja, hvað ég gerði, ef ég sæi fram á, að jafnhliða kæmi fyrirkomulag, sem gæti tekið að sér það hlutverk, sem verzlanirnar hafa haft hingað til. Menn hafa hér á landi notað orðið „verzlunarskuldir“ mjög sem slagorð, og því hefir verið haldið fram, að menn hafi gengið lengra í stofnun verzlunarskulda en ástæða væri til. Nú hafa kaupmenn og kaupfélög haft þá reglu, að láta sem allra minnst safnast af þessum skuldum, því að það er stofnununum til óhagnaðar, þar eð mikið af skuldunum tapast eins og afkomumöguleikum er háttað. Það er því ekki vafi á því, að orsök verzlunarskulda er fyrst og fremst getuleysi manna og fátækt, og þá einkum bænda og annara vinnandi manna hér á landi. Og það er sennilega alveg sama, þótt lokað væri fyrir það, að menn gætu stofnað til verzlunarskulda. Ef mönnum eykst ekki geta frá því, sem nú er, mundi skuldasöfnunin auðvitað endurtaka sig, en þá bara hjá öðrum aðilum. Aðalatriðið í þessu verzlunarskuldamáli er að vinna að því sem djarflegast að auka tekjur þeirra manna, sem vegna tekjuleysis og slæmrar afkomu hafa neyðzt til að stofna til verzlunarskulda. Ég hika ekki við að fullyrða, að meginþorri verzlunarskulda er stofnaður vegna getuleysis, en ekki vegna eyðslusemi eða löngunar til að skulda. Það er vitanlegt, að bændur þessa lands eru yfirleitt ákaflega sparsamir menn og hafa lagt mikið að sér til þess að spara, og þeirra verzlunarskuldir eru af þessum rótum runnar. Ég skal ekki fara út í það að dæma um, hvort heppilegra sé, að menn safni verzlunarskuldum eða víxilskuldum og lausaskuldum, hvort sérstök stofnun eigi að annast þessi lán eða sitja við hið sama. En ef þetta frv. fer til nefndar, þá vil ég mælast til, að sú n. taki til athugunar þær afleiðingar, sem þetta hlyti að hafa í för með sér á atvinnustarfsemi manna, og athugi þá eins möguleikana fyrir því, að hægt sé að láta lánastarfsemina fara fram í öðrum stofnunum. Ef afgr. ætti svona mál út af fyrir sig, þá er ég því algerlega mótfallinn. Ef hinsvegar jafnhliða kæmu till. um lánastarfsemi, sem ég gæti fellt mig við, mundi ekki loku fyrir það skotið, að ég fylgdi þeirri hugmynd, sem í frv. felst.