14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Rang. tók yfirleitt vinsamlega í þetta mál. En það er lítilsháttar ágreiningur á milli okkar út af því, hvort ákveða skuli, að ein sjóðdeild megi lána annari. Ég held, að af því mundi ekki stafa hætta fyrir sjóðinn, þegar þetta er aðeins gert, þegar næg trygging er fyrir hendi. Í þeim kringumstæðum ætti varla að geta komið fyrir, að þetta fé tapaðist, þó að það gæti vitanlega festst um stuttan tíma, á meðan verið væri að koma fyrir nýjum lánum, og svo alls ekki meira.

Það eru auðvitað skiptar skoðanir um það, hvort byggingarfélögin skuli vera fleiri en eitt í sama kaupstað. Þau rök, sem færð hafa verið gegn því að fella niður 2 mgr. 4. gr., get ég ekki séð, að séu á réttlæti byggð. Hv. þm. minntist á það m. a., að óánægja hefði komið fram um húsagerðina, þ. e. sambyggingafyrirkomulagið. Auðvitað eru til margir verkamenn, sem ekki vilja aðhyllast það, og þessi ástæða hefir líklega orðið til þess, að menn stofnuðu félagsskap um sérbyggingar. Þetta frv. girðir fyrir það, að þessar mismunandi stefnur í byggingamálum geti valdið ágreiningi. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ef samþ. sé innan deildar í byggingarfélagi og það staðfest af stj. félagsins, þá megi byggja á hvaða hátt sem er. Það er réttmætt, að menn séu ekki svo ofurliði bornir í félagsskap, að þeir geti ekki ráðið nokkru um, hvernig húsagerð þeir hafa. (MJ: En hvaða pólitískar skoðanir mega menn hafa í fél.?). Ég veit ekki til, að í þeim félögum séu neinar reglur um það, hvaða pólitíska trúarjátningu menn skuli hafa. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hræðist það kannske, að flaggað sé með einhverju sérstöku merki á verkamannabústöðunum. (MJ: Var það ekki flokksfáni?). Margir flokksmenn hv. 1. þm. Reykv. koma inn í Varðarhúsið, þó að þar sé merki, sem Sjálfstfl. hefir sett upp. (GL: Annað mál, þegar fánarnir eru 30).

Viðvíkjandi því, hvort tilgangurinn með þessu frv. sé að koma vissu byggingarfélagi fyrir kattarnef, þá vil ég segja það, að þeirrar hugsunar hefi ég ekki orðið var utan þings né innan. Enda á ekki, eins og ég hefi tekið fram, að neinu leyti að ganga á rétt þeirra manna, sem fylgja sérbyggingafyrirkomulagi.

Framkoma sjálfstæðismanna gagnvart þessu máli nú er ekkert nýtt fyrirbrigði. Ég man, þegar frv. til þessara l. var fyrst til umr. hér á Alþ. Þá fékk það ekki sérlega hlýjar undirtektir hjá þessum mönnum. Þeir töldu þá óþarfa, heimsku og bábilju, að slík lög þyrfti að samþ. En reynslan hefir hinsvegar sýnt, að þessi l. eru nauðsynleg. Verkamenn hafa ekki skilyrði til þess að byggja yfir sig góð hús, nema hið opinbera hjálpi þeim til þess með hagkvæmum lánakjörum og með því að leiðbeina þeim um húsagerðina og sjá um, að réttum reglum sé fylgt í því efni, bæði um heilnæmi húsa og annað.

Hv. 2. þm. Rang. benti á, að höfuðkostur frv. væri, að það gerði till. um að sameina sjóðina að því leyti að láta þá vera undir sameiginlegri stjórn fyrir landið allt. Þar með yrði hér um nokkurskonar byggingarbanka að ræða, fullkomna samhjálp til þess að styrkja menn og bæjarfélög til að geta fengið aðgang að hentugum lánum.

Ég býst við, að hv. 1. þm. Reykv. geti fallizt á, að þó að menn gangi í eitthvert byggingarfélag til þess að njóta þeirra fríðinda, sem það hefir upp á að bjóða, þá þurfi þeir fyrir það ekki að kasta sinni pólitísku trú. Menn geta verið góðir félagar í slíkum félögum, hvaða pólitíska skoðun sem þeir hafa, og geta auðvitað haldið skoðunum sínum eins eftir sem áður. Vitanlega verður ekki synjað fyrir það, að það getur komið fyrir, að þátttaka í slíkum félagsskap getur orðið til þess að snúa skoðunum einstakra félagsmanna, þannig að þeir sjái, að stefna sjálfstæðismanna hafi verið röng í þessum málum.

Ég held, að sundrungarandinn verði frekar kveðinn niður, ef byggingarfélagið er aðeins eitt, heldur en ef tvö félög í sama kaupstað togast á.