10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

26. mál, vinnumiðlun

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Íhaldsmennirnir hér í d. taka upp harðvítuga andstöðu gegn frv. þessu og flytja hér ræður, sem miklu fremur heyra undir 2.-3. umr. samkv. öllum þingvenjum. Munu það vera samantekin ráð þeirra, til að tefja afgreiðslu mála með málþófi.

Með frv. þessu er ekki gengið inn á aðrar brautir en þegar hefir verið gert í nágrannaríkjum okkar. Slíkar skrifstofur sem þessar eru nokkuð gamlar erlendis. Byrjunin var þar sú, að atvinnurekendurnir stofnuðu skrifstofur til að ráða, hverja þeir fengju í vinnuna. Var þá miðað við þæga verkamenn, þá sem ekki voru í verkalýðsfélögum o. s. frv. Þetta varð til þess, að verkalýðsfélögin settu upp sínar eigin skrifstofur t. d. í Þýzkalandi, til að keppa við hinar. Urðu því harðar deilur og jafnvel bardagar í keppninni um, hverjir ættu að úthluta vinnunni. Nú er það svo í þeim löndum, þar sem bezt skipun er á um þessi mál, eins og t. d. á Norðurlöndum, að starfræktar eru skrifstofur á sama grundvelli og þetta frv. felur í sér, þar sem báðir aðilar hafa íhlutun um vinnuúthlutun og ríkisstj. skipa oddamann.

Eins og hv. 1. landsk. skýrði frá, var úthlutun atvinnubótavinnunnar þannig háttað, að við það unnu 2 menn, hvor frá sínum flokki, virtist þá sem allt gengi þolanlega, þó nokkur óánægja ríkti meðal verkamanna um úthlutunina, og þá sérstaklega vegna þess, að einn starfsmaður á skrifstofum bæjarins tók nokkuð fram fyrir hendur þessara manna um vinnuúthlutunina. En nú hefir íhaldið hér í Rvík, sem sennilega er illvígasta íhaldið, sem til er á Norðurlöndum, ákveðið að stofna skrifstofu til vinnumiðlunar hér í bænum og var svo ósvífið að skipa sem forstöðumann formann Varðarfél., sem er alókunnur þessum málum. Á hann nú að úthluta atvinnunni meðal sjómanna og verkamanna hér í bænum, en því er svo háttað, að þessir menn eru flestir í Sjómannafél. Rvíkur eða Verkamannafél. Dagsbrún. En þessi félög, sem hafa um 3 þús. verkamenn hér í bæ innan sinna vébanda, eiga ekki að geta fylgzt með úthlutuninni eða hafa neina íhlutun þar um, heldur á formaður Varðarfél. að hafa það algerlega á sínum höndum. Þegar svo var komið ákváðu verkalýðsfél. hér í bænum að stofnsetja sína eigin skrifstofu, og ef þingmenn og ríkisstj. taka ekki í taumana og hafa afskipti af þessum málum í samræmi við þetta frv., þá munu verklýðsfél. taka til sinna ráða og hefja baráttu gegn allri einokun íhaldsins á atvinnuúthlutun.

Við Alþýðuflokksmenn viljum nú ganga sömu braut og nágrannar okkar. Okkur er fullkomlega ljóst, að stjórn landsins getur breytzt, og við eigum síður en svo víst að eiga jafnan atvmrh., er skipar oddamann í stjórnir þessara stofnana, en við eigum þó tryggt samkv. frv. þessu, að verkamennirnir eigi sinn íhlutunarrétt um starf sitt og geti fylgzt með því að öllu leyti. Ég hygg, að það verði aðrir en sjálfstæðis- eða íhaldsþingmennirnir, sem sjá þá hættu, er yfir vofir, ef verkföll verða út af sjálfri vinnuúthlutuninni, og muni því ljá frv. þessu sitt liðsinni.