10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

26. mál, vinnumiðlun

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. hefði ekki þurft að hneykslast svo mjög yfir því, þó að ég við þessa 1. umr. minntist á einstakar gr. frv., því að bæði þessi hv. þm. og hæstv. atvmrh. gáfu tilefni til þess, þar sem þeir héldu því fram, að í frv. fælust engin þau ákvæði, sem myndu auka bæjarfél. útgjöld, enda þótt þar sé hrúgað saman fjölda af skrifstofustörfum, sem bæjarfél. sé gert að greiða. Þá hélt hann því fram, hv. þm., að það hefði þegar verið vakin tortryggni gegn atvinnuskrifstofu bæjarins, áður en hún tók til starfa. Sé þetta rétt, þá hefir sú tortryggni verið vakin fyrir atbeina þessa hv. þm. og flokksmanna hans, því að ekki hefir sú tortryggni verið vakin af sjálfstæðismönnum eða skrifstofunni sjálfri, þar sem hún er ekki tekin til starfa ennþá.

Um það veit ég ekkert, hvort menn hafa verið sendir út í vinnuflokkana í atvinnubótavinnunni til þess að vera þar með pólitískan undirróður. Ég geri bara ráð fyrir, að það séu staðlausir stafir, eins og flest annað hjá þessum herrum, því að það er alkunna, að blað hv. 2. þm. Reykv. og flokksmenn láta aldrei líða vart eina stund, án þess að rægja þá, sem standa fyrir málefnum Rvíkur.

Það virðist vera mesti þyrnirinn í augum þessa hv. þm., að það skyldi vera formaður Varðarfél„ sem valinn var til þess að veita atvinnuskrifstofu bæjarins forstöðu. Út af þeim ummælum, sem hv. þm. hafði um þann mann, þá get ég ekki annað en mótmælt þeim sem algerlega óviðeigandi, því að mér finnst það jafnan ódrengskapur í hæsta lagi að ráðast á menn, sem ekki hafa tækifæri til þess að svara fyrir sig á þeim vettvangi, sem á þá er ráðizt, og það því fremur þegar verið er að brigzla þeim um vanrækslu og hlutdrægni í starfi, sem þeir eru ekki farnir að inna af hendi, eins og hér á sér stað. Annars virðist mér það liggja beint við, að úr því að hv. 2. þm. Reykv., sem jafnframt er formaður í hinu ópólitíska verkamannafél. Dagsbrún, getur fyrirfram verið að væna formann Varðarfél. um hlutdrægni, þá hljóti það að vera af því, að hann finni það með sjálfum sér, að hann í sömu sporum myndi ekki geta verið óhlutdrægur.