23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

26. mál, vinnumiðlun

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Ræða hv. þm. V.-Sk. hefir gefið mér umræðuefni.

Ég vil biðja hæstv. forseta að afsaka, þótt ég minnist lítið á frv. í þeim hluta ræðu minnar, því að hv. þm. var svo heimspekilegur í tali, að erfitt er að finna götu að málinu. Hann fór mörgum orðum um það, sem helzt einkenndi framkomu jafnaðarmanna hér á Alþ. Ef lýsing hans væri sönn, þá væri hún eftirtektarverð.

Þessi hv. þm., sem er all skörulegur í tali úr ræðustól og minnir einna helzt á rómverskan „senator“, sem hann vill líkjast, er áberandi fyrir það, hvernig hann fer með rök í sjálfsblekkingu sinni. Önnur orð lýsa sem sé betur vinnubrögðum jafnaðarmanna á þessu þingi. Þeir hafa unnið að því að hrinda burt árásum á kjör hinna vinnandi stétta, og þeir hafa hér á þessu þingi barizt fyrir viðunanlegum lífskjörum manna yfirleitt. Þetta er rétt lýsing á vinnubrögðum jafnaðarmanna hér á Alþ. og annarsstaðar, þar sem þeir vinna.

Hv. þm. V.-Sk. talaði um atvinnufrelsisskerðingu í sambandi við vinnumiðlunarfrv. Það er blátt áfram afkáralegt að tala um, að frv. sé tilraun til þess að skerða atvinnufrelsi manna. Hvert er atvinnufrelsi fátækra og atvinnulítilla verkamanna? Þeir hafa engin tæki til þess að skapa sér atvinnu.

Hv. þm. talaði um það, í sambandi við þetta frv., að enginn hefði leyft sér að fara út á þessa braut fyrir tuttugu árum síðan, að nauðsynjalausu.

Um nauðsyn er ekki vert að ræða við hv. þm. V.-Sk. Um það atriði verðum við aldrei sammála. - Það er margt, eins og hv. þm. veit, sem orðið hefir að gera á síðustu árum, sem engum hefði dottið í hug að gera fyrir tuttugu árum síðan. Tökum dæmi. Það hefir jafnan þótt gott að minnast á Roosewelt forseta í þessum efnum. Bæði hann, og eins líka Stanley Baldwin, telja, að ýmislegt sé nauðsynlegt að gera nú, sem engum hefðu komið til hugar að gera fyrir tíu árum. Ástæðan fyrir því, að þeir töldu sér skylt að gera það, sem rétt var, var sú, að þeir eru ekki sýslumenn í V.-Sk.

Lögreglan á að vera til þess að halda þjóðfélögunum uppi, sem er frumskylda, segir hv. þm. Hann segir ennfremur, að ætlazt sé til, að frv. um vinnumiðlun sé til þess að uppihalda þjóðfélaginu. Þetta er eftirtektarvert. Orð hans verða ekki skilin á annan hátt en þann, að það sé jafnmikil frumskylda, að frv. um vinnumiðlun verði drepið, og að komið sé á lögreglu.

Hv. þm. kvað atvinnuleysi minna hér en annarsstaðar. Og þó leyfðu jafnaðarmenn sér að nota lagaheimildina til þess að safna atvinnuleysisskýrslum í júní og júlí. Kvað hv. þm., að við værum óvanir að heyra atvinnuleysi nefnt á þeim tíma. Sem betur fer eru menn hér á landi óvanir því.

Ég vil minna hv. þm. á fræga bók eftir skáldið Kielland. Ég býst ekki við, að hann hafi lesið bókina, því að hún heitir „Vinnumenn“.

Sagan fjallar um ungan lækni, son efnaðrar hefðarkonu, og vinnukonu, sem frúin var búin að gera að sjúkling. Þegar sonur hennar hefir orð á þessu við frúna, ber hún ekki á móti því, en segir aðeins: „Þannig er ekki talað í húsum betra fólks“.

Við erum ekki heldur vanir að heyra atvinnuleysi nefnt í júní og júlí. Það er einmitt þetta, sem hér er um að ræða. Hér er sýnishorn af því, hvernig sjálfstæðismenn beita málþófi. Þeir eru hræddir um, að þetta frv. verði gert að l.

Til þess að ganga ekki alveg fram hjá brtt. þeim, sem hér liggja fyrir, vil ég minnast lítið eitt á þær. (GSv: Hvað er langt síðan hv. þm. var íhaldsmaður?) Ég var íhaldsmaður þegar ég var smábarn. Þeir, sem þekkja eitthvað til barnasálarfræði, vita, að börn eru venjulega íhaldsmenn, á meðan þau eru undir áhrifum venzlamanna í heimahúsum.

Meiri hl. hv. allshn. hefir mælt með því, að frv. verði samþ. Hv. þm. V.-Ísf. ber fram brtt. við þskj. 165. Eru allar, nema ein, heldur til bóta. 2. brtt. hans, um að skipa stj. fyrir þessar vinnumiðlunarskrifstofur, er, frá mínu sjónarmið séð, óþörf, vafasöm og ástæðulaus.

Þetta er óþarft, þegar oddamennska stj.skrifstofunnar er í höndum meiri hl. bæjarstj. Þessi l. eiga að gilda fyrir allt landið í hinum mismunandi bæjum. Mér skilst, að hér sé um málamiðlun að ræða, sem ekki á rétt á sér, þótt meiri hl. bæjarstj. Rvíkur hafi komið upp vinnumiðlunarskrifstofu, sem er illa séð meðal allra verkamanna í þessum bæ. Það er ekki rétt, að höfð sé gát á löggjöf fyrir allt landið þess vegna. Sjálfstæðismenn vilja undantekningar á löggjöfinni, vegna Rvíkur. Þeir vilja, að gerðar séu undantekningar á löggjöfinni um verkamannabústaði, til þess að þeir geti haldið í sín l. Það horfir vel við frá sjónarmiði þeirra sjálfra. En frá sjónarmiði hinna horfir þetta allt öðruvísi við. Það er reynsla fyrir því, að betri ráðstafanir komi úr annari átt.