21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Ég hefi fáu við að bæta nál. á þskj: 520. Ég hefi þar bent á það helzta, sem ég hefi út á þetta frv. að setja. Það eru einkum þrjú atriði, sem ég vildi vekja athygli á. Fyrst og fremst er það, að hér er algerlega að óþörfu seilzt eftir valdi, sem að réttu lagi á að vera hjá bæjarfél. sjálfum, þeim rétti að setja á stofn ráðningarskrifstofur upp á eigin spýtur, ef þau telja sér það hagkvæmt. Ég sé ekki betur en að það liggi í augum uppi, að það sé einkamál bæjarfél., hvort þau setja á stofn slíkar skrifstofur og hvernig þeim er fyrir komið. Hv. frsm. meiri hl. benti á, að ríkið legði fram fé til atvinnubóta, sem kaupstaðirnir fengju. En á það má líta, að meiri hl. þess fjár, sem varið er til atvinnubóta, er frá bæjunum sjálfum, og það má skoða framlag ríkisins sem beinan styrk til kaupstaðanna og er því eðlilegt, að yfirstjórn kaupstaðanna sjálfra ráði fram úr því, hvernig farið er með þann styrk. Það geta auðvitað verið skiptar skoðanir um, hve langt eigi að ganga í því að láta einstök hagsmunasvæði hafa umráð yfir eigin málum. Það er að vísu svo, að þeir flokkar, sem nú eru ráðandi í landinu, vilja láta koncentrera allt vald hjá ríkisstj. og Alþ. En ég álít heppilegra að láta bæjar- og sýslufél. hafa óskorað vald yfir þeim málum, sem beinlínis varða þau sjálf. Það er sannfæring mín, að úti um sýslur landsins sé sú skoðun ríkjandi, án tillits til flokkaskiptingar, að það sé ekki til hins betra að draga það vald sýslu- og bæjarfél., sem þau hafa lengi haft, undir ríkið. Þetta er fyrsta ástæðan, sem ég hefi fært á móti frv. Í öðru lagi álít ég tilhögun þá á skrifstofunni, sem gert er ráð fyrir, mjög óheppilega, svo að ekki sé meira sagt. Í mínum augum er það í mesta máta broslegt að hugsa sér t. d. Seyðisfjörð og Norðfjörð, þar sem er svo fámennt, að hver þekkir annan, setja á stofn skrifstofu með 5 manna yfirstj. til þess að annast þessi mál. Vitanlega væri auðvelt að fá einn mann, sem væri nægilega kunnugur til þess að inna starfið af hendi. Hitt væri blátt áfram hjákátlegt og óverjandi meðferð á fé, að stofna þarna til stjórnarbákns að ástæðulausu. Ég skil ekki, hvernig hv. frsm. meiri hl. treystir sér til að færa rök að því, að í kaupstöðunum utan Rvíkur sé nokkur þörf á slíkri tilhögun sem frv. gerir ráð fyrir. Það liggur í augum uppi, að allmikinn kostnað mundi af þessu leiða. Það liggur ekki fyrir nein grg. um þá hlið málsins, en svona fjölskipuð stj. þyrfti víst einhver laun, og ég er hræddur um, að kostnaðurinn yrði ekki í réttu hlutfalli við verkið, sem hún leysti af hendi.

Þriðja ástæðan er sú, að ég álít, að hér sé um pólitískt ofbeldi að ræða. Ég er sannfærður um, að ekki liggur annað til grundvallar þessu frv. en það, að hér í Rvík var að tilhlutun meiri hl. bæjarstj., sem fer með völdin í bænum, sett á stofn ráðningarskrifstofa, og réð sá meiri hl. tilhögun hennar. En minnihl.flokkurinn í Rvík, sem nú er meiri hl. flokkur á Alþingi, hefir ekki getað sætt sig við þetta, og vill nú nota vald sitt hér í þinginu til þess að draga umráðin yfir þessari skrifstofu úr böndum bæjarstj. Ég hefi bent á, að þetta hlyti að hefna sín á þeim sjálfum. Það hagar svo til nú, að jafnaðarmenn eru í meiri hl. í fjórum kaupstöðum landsins. Þar eiga þeir að ráða málefnum kaupstaðanna og mundu ráða tilhögun þessarar stofnunar, ef þeir teldu ástæðu til að koma henni á fót. Það gæti nú svo farið einmitt í þessum kaupstöðum, að komið yrði á fót skrifstofum, sem yrðu í andstöðu við meiri hl. bæjarstj. Ég tel mjög óskynsamlegt að hrifsa þannig valdið úr höndum meiri hl. bæjarstj., sem hann á rétt á að hafa. Hitt vita allir, að reynslan hefir kennt, að enginn stjórnmálaflokkur í víðri veröld fer alltaf með völdin. Það gera flokkarnir til skiptis í öllum þingræðislöndum. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að drottinvaldið yfir þessum skrifstofum flyttist til með nýrri stj. En ég álít það aðeins til hins verra, að stj. geti hrifsað valdið af kaupstöðunum án tillits til flokkaskiptingar þar. Hv. frsm. talaði um, að hann áliti, að meiri hl. bæjarstj. gæti ekki upp á eigin spýtur ráðið til lykta svona málefni. Ég skil ekki, hvað fyrir honum vakir, eða hvaða lausn væri yfirleitt hægt að fá með því lýðræðisfyrirkomulagi, sem hér er, aðra en þá, að láta meiri hl. ráða. Hv. þm. mætti víst fara að leggja hendina í eigin barm og efast um að núv. þingmeirihl. hefði rétt til að valta og skralta eins og hann hefir gert, með minni hl. þjóðarinnar á bak við sig. Ég álít, að meiri hl. þings verði jafnan að stýra eftir því, sem hann telur heppilegast í hvert sinn, þó að þessi hv. þm. sé ekki ánægður með það fyrirkomulag, þegar aðrir stjórnmálaflokkar eiga í hlut. En það er ekki nema það sama og margir hafa orðið að sætta sig við, bæði fyrr og síðar, að meiri hl. réði.

Mitt álit er, að bæjarstj. eigi að ráða því, hvort þær setja þessar ráðningarskrifstofur á stofn,, og ef þær hverfa að því ráði, þá eigi þær að sjálfsögðu að ráða allri tilhögun þeirra. Það virðist ástæðulaust að velta þeim kostnaði yfir á ríkissjóð, enda í mörg horn að líta, þó að eigi sé tekið við slíkum útgjöldum, sem aðeins varða bæjarfél., ekki sízt þegar það eykur líka kostnað bæjarfél. sjálfra. Þessir 2/3 hlutar af kostnaðinum, sem þau bera, mundu án efa fara langt fram úr því, sem skrifstofan kostaði, ef bæjarfél. sjálft réði tilhögun hennar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Það er þýðingarlítið að rökræða um þetta mál. Ég efast ekki um, að margir af þeim hv. þm., sem e. t. v. greiða atkv. með frv., gera það af öðrum ástæðum en þeim, að nauðsynlegt sé að setja slíka löggjöf.

Ég hygg, að margir muni finna, að þessi till. er ekki mikið betri eða skynsamlegri, en það munn vera önnur öfl, sem gera það að verkum, að þeir eru ekki alveg sjálfráðir um það, hvernig þeir greiða atkv. í þessu máli.