15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

35. mál, Kreppulánasjóður

Ólafur Thors:

Ég vil sérstaklega beina því til hv. þm. N.-Þ., þegar hann í fyrramálið skrifar í blað sitt um málþóf það, sem við sjálfstæðismenn höfum haldið uppi í þessu máli eins og öðrum, að minnast þess um leið, að hv. þm. A.-Sk. stóð upp til að tala, án þess að hafa ætlað sér það, og sannaði svo með ræðu sinni, að hann hafði ekkert að segja. Ég treysti honum til að geta þess vel og rækilega, svo alkunn er tilhneiging hans til að segja sannleikann á sinn hátt. Það var ástæðulaust fyrir hann að snúa út úr þeim orðum mínum, að annaðhvort yrði stjórnarskráin að gilda eða þá eitthvað annað, t. d. hnefarétturinn. Hann kemur enn með þá firru, að Sjálfstæðisfl. hafi legið svo eftirminnilega í kosningunum. Sannleikurinn er sá, að Sjálfstæðisfl. fékk fleiri atkv. en nokkur annar flokkur á Íslandi hefir nokkru sinni fengið. En flokkur þessa hv. þm., Framsóknarfl., fékk til muna færri atkv. nú en t. d. 1931. Það er hans flokki, sem hefir hrakað, og því sanni næst, að það sé hann, sem ljúgi, ef heimfæra á orðtakið: „Sá lýgur, sem liggur“.

Meðan hv. þm. hélt þessa ræðu sína, sat ég hér inni í ráðherraherberginu milli tveggja ágætra manna, þeirra séra Sveinbjarnar Högnasonar, frambjóðanda Framsóknarfl. í Rangárvallasýslu, og Þóris Steinþórssonar, frambjóðanda sama flokks í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Ég fann það, að þeim þótti það óviðfelldið að vera þannig borið á brýn, að þeir hefðu logið, fyrst þeir lágu.

Hv. 9. uppbótarþm. var með gleiðgosalegar skattyrðingar í minn garð og Sjálfstæðisfl. Ég verð að þakka honum fyrir að játa nauðsyn þess, að ég héldi uppi ráðherraupplýsingaskóla. - Ég verð að upplýsa hann um það, að Sjálfstæðisfl. þarf ekki að kvarta yfir því, að þjóðin hafi frábeðið sér afskipti hans af málum þjóðarinnar, en þjóðin hefir frábeðið sér afskiptasemi þessa hv. þm. af málefnum sínum. Sjálfstæðisfl. frábað sér hann, jafnvel eftir að hann hafði veitt mér liðsinni til kosninga í G.-K., móti þeim mæta manni, Har. Guðmundssyni. Framsóknarfl. frábað sér hann, eftir að hafa haft hann í kjöri í Barð. Alþýðufl. frábað sér hann eftir að hafa haft hann í kjöri í Ísf., og nú loksins flaut hann inn á þingið eftir andlát Vilmundar Jónssonar, og hefir nú hlotið þá upphefð að vera kallaður þm. Bolvíkinga.