30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

Kosningar

Ólafur Thors:

Ég vil endurtaka það, að hæstv. ráðh. þarf ekki að bera kvíðboga fyrir því, að ég hafi ekki haft umboð flokksmanna minna til að gefa þessa yfirlýsingu.

Eins og menn vita, þá sitja þm. fundi dag eftir dag og eru þreyttir af fundasetu, og er því eðlilegt, að þeir séu tregir til að sitja óþarfa fundi. Ég hefði satt að segja haldið, að hægt væri að komast af án þess að kjósa í lögjafnaðarnefndina einn eða tvo sólarhringa. Ég á ekki von á, að neitt það komi fyrir, er þurfi að gera sættir um milli ríkjanna, svo að ekki þoli bið, t. d. að fyrirbyggja þurfi ófrið milli ríkjanna. Ég ætlaði aðeins að fá ráðh. í lið með mér til að fá frestun á kosningunni, svo hún fari ekki fram fyrr en eftir mánaðamót. En ég veit, að hæstv. forseti lætur eftir ósk okkar um frestun, svo að hæstv. ráðh. þarf ekki að fresta eða aflýsa fundinum á morgun.