16.11.1934
Efri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hefi fáu einu við að bæta það, sem ég hefi áður sagt í þessu máli, og skal ekki lengja mikið umr. En að því er snertir það, sem hv. 5. landsk. sagði um brtt. sína við 9. gr. frv., þá held ég, að því verði bezt svarað á þann hátt að lesa kafla úr grg. frv., dálítið fyllra en hv. 2. þm. S.-M. gerði. Það skýrir þetta bezt, sem ágreiningi veldur. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimild sú, sem hér er veitt til fóstureyðingar, er bundin við heilbrigðislega nauðsyn konunnar, og verður í hverju tilfelli að meta hana og nauðsyn aðgerðarinnar í samræmi við viðurkenndar reglur læknisfræðinnar um aðrar læknisaðgerðir“.

Það er þess vegna alveg rangt hjá hv. 5. landsk., að með frv. sé ætlazt til þess, að fóstri verði eytt án þess að heilbrigðisástæður konunnar séu lagðar til grundvallar. (GL: Ég hefi aldrei sagt það). Það er gott að heyra. Þetta vildi ég fá viðurkennt.

Hér segir ennfremur:

„Enginn heiðvirður læknir tekur lim af manni einungis fyrir það, að þess sé óskað, ekki heldur, þó að einhverjar ástæður séu greindar, og ekki þó að þær kynnu að bera það með sér, að það væri raunar gustuk - nema hann sannfæri sig um, að það séu sjúkdómsástæður, og sé aðgerðin, læknisfræðislega séð, viðeigandi og eftir atvikum nauðsynleg aðgerð við þeim sjúkdómi. Annað mál er það, að félagsleg aðstaða sjúklings getur réttilega haft áhrif á, hver aðgerð er valin við sjúkdómi hans. Sjúkling með magasár, sem stundar þessa atvinnu og býr við þessi kjör, getur verið rétt að ráðleggja skurðaðgerð, en ef hann stundaði aðra atvinnu og byggi við önnur kjör, gæti verið réttara að reyna fyrst lyflækningar. Læknar verða sem sé jafnan að líta á hvert mál eins og það liggur fyrir, en ekki eins og æskilegt væri, að það lægi fyrir. Það er aftur á móti umbótamanna þjóðfélagsins að sjá fyrir því, að læknarnir verði sem fyrst losaðir við að þurfa að hafa þessi tvöföldu sjónarmið. Á sama hátt getur það ekki einungis verið fyllilega réttmætt, heldur óhjákvæmilegt, að taka svipað tillit til kjara og kringumstæðna þegar úr því er skorið í hverju einstöku tilfelli, hvort fóstureyðing sé viðeigandi og nauðsynleg aðgerð eða ekki (sbr. 3. málsgr. 4. greinar). Gerum ráð fyrir, að kona með hjartabilun sé vanfær og leiti læknis. Ef hún þarf ekkert á sig að reyna, hefir þjónustufólk á hverjum fingri og getur notið fullkomnustu umönnunar og aðbúðar, er ef til vill engin ástæða til að eyða fóstri hennar, og þá óheimilt samkv. ákvæðum þessa frv. Öðru máli er að gegna, ef hún baslar ein við bágan hag og erfiðar kringumstæður, í hverju sem þær kunna að vera fólgnar (mikil ómegð, veikindi á heimilinu, drykkjuskapur heimilisföðurins, fyrirvinnuleysi), svo að það út af fyrir sig er fyllsta raun biluðu hjarta. Þá er sennilega ekki á erfiði þess bætandi og aðgerðin heimil. Berklaveikri konu, sem vel þolir að eiga eitt barn og jafnvel fleiri börn með viðunandi millibili, getur orðið það ofraun að ná ekki hala sínum, og einkum ef það kemur fyrir ár eftir ár. Fleiri dæmi mætti nefna þessu lík“.

Ég hugsa, að með þessu, ásamt því, er hv. 2. þm. S.-M. las úr grg., sé allt sagt, sem um þetta þarf að segja. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði í gær, að það er skýlaust framtekið í frv., að fóstureyðing er því aðeins heimiluð, að sjúkdómsástæður viðkomandi konu krefjist þess. En svo má ekki loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að samskonar sjúkdómur hefir misjöfn áhrif og afleiðingar fyrir konuna, eftir því við hvaða skilyrði hún hefir að búa. Það, sem einni konu stafar engin hætta af, getur orðið lífshættulegt fyrir aðra þungaða konu. Það er að blekkja bæði sjálfan sig og aðra, að ganga framhjá þessu. Auðvitað segir hv. 5. landsk., að þjóðfélagið eigi að bæta úr þessum aðstöðumun kvenna á annan hátt. En slíkt er ekki unnt að framkvæma eftir núv. þjóðfélagsháttum, og hv. 5. landsk. virðist alveg loka augunum fyrir því.

Þá vil ég víkja að þeirri sögu, sem við hv. 5. landsk. höfum rakið hér í umr., sem dæmi út af fyrirmælum 9. gr. frv. Ég held, að ég hafi sagt það greinilega, að konan hafði 29% blóð, en hafi mér orðið mismæli, þá skiptir það ekki ákaflega miklu máli; dæmið sannar fullkomlega það, sem ég ætlaðist til. Hv. 5. landsk. sagði, að ég hefði sleppt að skýra frá sögulokum, en ég get ekki fallizt á að um sögulok konunnar sé að ræða, því að hún lifir enn og á sennilega eftir að eiga fleiri börn. En hv. 5. landsk. gleymdi átakanlegasta kaflanum úr sögunni, sem ég skýrði frá, að barnið, sem konan ól, dó tveggja mánaða gamalt, sökum þess, að það var vanhaldið vegna veikinda móðurinnar. En setjum nú svo, að 2 læknar hefðu athugað ástand konunnar og komizt að þeirri niðurstöðu, að henni mundi stafa hætta af því að ala barnið, og úrskurðað fóstureyðingu. Ég er ekki þar með að segja, að læknarnir hefðu gert það, en hitt má fullyrða, að þeir hefðu ekki gert það, nema þeir teldu það lífsnauðsyn. En hver var þá munurinn? Nákvæmlega sama niðurstaða að því er barnið snerti, það dó hvort sem var, en fyrir konuna var áhættan minni, ef fóstrinu hefði verið eytt samkv. úrskurði lækna. Söguviðbót hv. 5. landsk. sannar þetta. Í fyrra tilfellinu deyr barnið, af því að svo stutt var liðið frá því að konan átti barn áður. En af því að í síðara skiptið leið nógu langt á milli fæðinga, ca. 2 ár, þá var konan orðin heilsuhraust aftur og elur heilbrigt barn. Ég hygg, að sá, sem sagði hv. 5. landsk. þessa viðbót við sögu konunnar, hafi með því sannað, að það er óhjákvæmilegt, að heimilis- og hagsmunaástæður hafi mjög mikil áhrif á heilsufar móður og barna.

Hitt atriðið, sem hv. a. landsk. gerði að umtalsefni, þar sem hún hélt því fram, að harðsvíraðar sveitar- og bæjarstjórnir mundu nota sér ákvæði 9. gr. frv. og misbeita valdi sínu til þess, að eytt yrði fóstri fátækra mæðra, er ekkert annað en ósæmileg aðdróttun bæði í garð sveitarstjórna og hlutaðeigandi 1ækna.

Ég verð að endurtaka það, að hv. 5. landsk. drap aldrei á það í sinni ræðu, hver skilyrði eru fyrir því sett, að þessi aðgerð megi fara fram, en þau eru býsna rík. Fóstureyðingu má einungis framkvæma á viðurkenndu sjúkrahúsi með samþykki hlutaðeiganda sjálfs, og fyrir verður að liggja rökstudd greinargerð tveggja lækna um nauðsyn aðgerðarinnar. Frekari tryggingu gegn misnotkun er naumast hægt að setja, og það er a. m. k. alveg víst, að þessi trygging er margfalt meiri en sú trygging, eða réttara sagt tryggingarleysi, sem við búum nú við í þessum efnum. Hv. 3. landsk. drap á það, að í skýrslum frá Ulleval-sjúkrahúsinu í Noregi kæmi í ljós, að það væru ekki fátæku barnamæðurnar, sem helzt létu eyða fóstrum, heldur aðallega konur úr þeim stéttum þjóðfélagsins, sem byggju við góðar efnalegar aðstæður. Ég hygg þetta muni vera alveg rétt, og alveg hið sama sé uppi á teningnum hér. En einmitt það er líka ástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram. Það er vitað, að svo og svo mikill hluti af fóstureyðingum er framkvæmdur, ekki af heilbrigðisástæðum, heldur af því, að viðkomandi konur óska ekki eftir að eignast börn. Þetta er framkvæmt í hinu mesta pukri, og fyrir gjald, sem ekki er nema á efnaðra manna færi að greiða. Ég hefi hent á þá hættu, að einhverjir svo og svo óprúttnir náungar geri sér það að atvinnu að hjálpa konum í þessum efnum, ef þær af einhverjum ástæðum óska ekki eftir að eignast börn, meðan löggjöfin er þannig, að enginn munur er á því gerður, af hvað orsökum fóstureyðingarinnar er óskað. Hvort sem fóstureyðing er framkvæmd af heilbrigðisástæðum eða vegna þess, að konan vill ekki eiga barn, er við því lagt 8 ára tugthús. Allir eru á einn máli um það, að fóstureyðingar eigi að verða leyfðar í vissum tilfellum; meira að segja hv. 5. landsk. er þeirrar skoðunar, en okkur greinir einungis á um, hvar eigi að draga markalínuna milli hins leyfilega og hins óleyfilega. Það er því nauðsynlegt að kveða skýrt á um það, hvað skuli lyft og hvað bannað, svo að hægt sé að koma fram tilhlýðilegri refsingu og ábyrgð gagnvart hlutaðeigendum. - Ég held svo, að ekki sé ástæða til að taka fleira fram hvað snertir umr. okkar hv. 5. landsk. um jafnrétti karla og kvenna í þessum efnum. Finnst mér þær umr. geta fallið niður eftir framkomna brtt. hv. þm., og mun því ekki bæta þar neinu við. - Um það, að það sé fallega sagt, að konur eigi að ráða því sjálfar, hvort þær verði mæður eða ekki, en að þann rétt hafi konur nú, þá er þetta viðkvæmt efni um að tala, en ég þykist hafa reynt að tala svo hispurslaust um þessi mál sem hver annar. En ég hygg það ofmælt, að konur ráði því yfirleitt sjálfar fullkomlega, hvort þær verða mæður eða ekki. Og mér þykir sennilegt, að hv. 5. landsk. geti við nánari athugun einnig fallizt á það n. m. k., að í sumum tilfellum sé mín skoðun rétt. Mér fannst hálfpartinn hjá hv. 5. landsk., sem annars er ekki venja þess hv. þm., að hún vildi færa til annars vegar það, sem ég sagði hér um lausung í sambandi við áfengisnautn. Það, sem ég sagði, og skal endurtaka, var einungis það, að ég tók undir það með hv. 5. landsk., að því miður væru líkindi til þess, ef drykkjuskapur stórykist í landinu, þá yrði því samfara meiri lausung á öðrum sviðum. En það, sem ég sagði um það, og hv. 5. landsk. sagði í því sambandi, að ætla mátti, að hún óttaðist að yrði, ef þetta frv. yrði að l. að lauslætið ykist þá enn stórlega í sambandi við áfengi, þá álít ég, að ef svo færi, þá væri mönnum meiri þörf á að kunna þessar varnir, því að það ber öllum saman um, að ekki sé heppilegt kynslóðinni, að börn komi undir þegar báðir partar eru ölvaðir, og því betra að geta fyrirbyggt slíkt. Þetta var hið eina, sem ég benti á, og ég hefði kosið, að hv. 5. landsk. hefði viljað hafa það rétt eftir, úr því að hún tók það upp. - Ég vil svo að lokum endurtaka það, sem er meginefni frv. og tilgangur, því að hann er engan veginn sá, eins og hv. 5. landsk. gaf í skyn í sinni ræðu, að gera mönnum léttara fyrir með fóstureyðingar, eins og hún urðaði það, heldur þvert á móti, eins og berlega kemur fram í grg., að reyna að draga úr fóstureyðingabölinu, og það á tvennan hátt: Fyrst og fremst með því að kveða skýrt á um, hvenær fóstureyðing skuli heimil og hvenær ekki. En það er vitað, að fóstureyðingar eru nú framkvæmdar af öðrum ástæðum en taldar eru fullgildar í frv. Og í öðru lagi með því að veita tilhlýðilega fræðslu frá réttum aðilum, þ. e. a. s. læknunum, sem vit hafa og þekkingu á þessum málum og vita um varnir og hindranir til þess, að barngetnaður eigi sér ekki stað að óvilja manns og konu, sem ella myndu e. t. v. freista þeirra til að fá fóstrinu eytt. Því betur sem fólk kann að verjast þessu, því minni fóstureyðingahætta, og verkar frv. þannig á tvennan hátt.