09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi segja nokkur orð út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. Þessi hv. þm. sá engin ráð til þess að ná hagstæðum greiðslujöfnuði í viðskiptum við útlönd nema gegnum lækkaða kaupgetu í landinu. Ég skal taka undir það með honum, að það sé alger „hrossalækning“, sem ég mun hreint ekki fallast á. Eftir hans kenningu á, þegar greiðslujöfnuður er óhagstæður, að varast að dreifa kaupgetunni innanlands, af því að það geti haft ill áhrif á greiðslujöfnuðinn. Þetta nálgast að vera kenningar um það, að það eigi að halda verulegum hluta þjóðarinnar í sveltu. Það minnsta, sem sagt verður um þessa aðferð, er það, að hún sé mjög ranglát. Ég ætlast til, að hlutverk gjaldeyrisn. sé í stuttu máli það, að beina hæfilega miklu af kaupgetu þjóðarinnar að útlendum vörum og hæfilegum hluta hennar að innlendum markaðsvörum. Ef við höfum skynsamleg innflutningshöft og gjaldeyrisverzlun, þá þýðir það það, að kaupgetunni er hæfilega skipt milli erlendra og innlendra vara. Ef kaupgetan vex, þá verður meira keypt af erlendri vöru, og einnig þeim vörutegundum, sem framleiddar eru í landinu. Kenningar hv. þm. um það, hvernig eigi að ná hagstæðum greiðslujöfnuði við útlönd, eru mjög gamaldags. Hann segir, að það megi ekki auka fjárframlög til verklegra framkvæmda, af því það leiði til aukinnar eftirspurnar um erlendar vörur. Þetta þýðir, að það eigi að svelta þá, sem njóta mundu atvinnu við þær verklegu framkvæmdir, svo þeir geti ekki spurt eftir þeim nauðsynjum, sem þeir þarfnast. Ég segi, að þetta sé ekki hin rétt leið, heldur eigi að reyna að sjá um það, að kaupgetan í landinu verði almennari. Síðan eigi að beina kaupgetunni í hæfilegum hlutföllum að erlendum og innlendum markaði.

Mér finnst alveg ómögulegt að halda greiðslujöfnuðinum í lagi með því að láta kaupgetuna ráða, vegna þess hve hún er misjöfn hjá borgurunum. Þeir, sem hafa mikla kaupgetu, t. d. 30 þús. kr., þeir spyrja um margt það, sem ekki er hægt að kaupa þegar greiðslujöfnuður er óhagstæður, af því þjóðin þarfnast annara hluta, sem eru nauðsynlegri; þessvegna er ekki hægt að láta kaupgetuna ráða. Það er alls ekki hægt að vinna það til, til þess að takmarka innflutning á vörum frá útlöndum, að halda mönnum í sveltu. Auk þess má benda á, að það brýtur algerlega í bág við þær kenningar, sem allir viðurkenna að séu réttar, að það, sem það opinbera á að gera eins og nú standa sakir, er að reyna að auka atvinnuna í landinu með auknum framkvæmdum, eftir því sem tekjumöguleikur ríkissjóðs leyfa, og að hafa jafnhliða svo miklar gætur á verzluninni við útlönd, að þetta komi ekki að sök. Þá myndast kaupgeta til þess að kaupa vörur, sem framleiddar eru í landinu sjálfu. En með leið hv. 1. þm. Reykv. á að halda kaupgetu manna svo niðri, að flestir hafi ekki nema sæmilega til hnífs og skeiðar.

Hvað viðvíkur því atriði, að innflutningshöftin auki dýrtíðina í landinu, þá má vel vera, að eitthvað sé til í því, ef engar ráðstafanir eru gerðar því til varnar. Ef t. d. minna flyzt inn af vöru frá útlöndum en kaupgeta mann, segir, að hægt sé að kaupa, þá er hugsanlegt, að það lúti lögmálinu um framboð og eftirspurn og hækki vöruverðið. En það eru til úrræði að því er þetta snertir, og það er að hafa neytendafélög og taka vöruna í gegnum þau. Með því móti er hægt að vernda sig gegn öllu okri, sem hugsanlegt er að fram gæti komið.

Viðvíkjandi því, að við getum ekki fyllilega ráðið yfir því, hvað, vörur við flytjum til landsins, þá er það rétt hjá hv. þm., að það hefir komið fram í viðskiptum okkar við Spán, en sú undanþága, sem þar var gerð, er engin röksemd á móti því, að við eigum að haga þessum málum þannig, að við ráðum sem bezt við innflutninginn, eins og allar ástæður frekast leyfa. Það er engin röksemd fyrir því, að það eigi að brjóta múrinn niður, þó að skarð hafi verið brotið í hann.

Það er misskilningur hjá hv. þm., ef ég hefi skilið hann rétt og það hefir verið meining hans að halda því fram, að þessi krafa Spánverja um rýmkun innflutningshaftanna sé til orðin vegna þessara innflutningshamla, því að þær kröfur, sem þessi þjóð gerir til sinna viðskiptaþjóða, eru alls ekki sprottnar af innflutningshömlum, heldur vegna þeirrar viðskiptapólitíkur, sem þessi þjóð telur sér nauðsynlegt að reka.

Ég býst ekki við að taka til máls aftur nema sérstök nauðsyn beri til, því að ég vil flýta fyrir, að þetta mál komist í nefnd. Út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði um skipun n., skal ég athuga það, hvort hugsanlegt er að breyta nefndarskipuninni, en þó hygg ég, að ekki sé hægt að skipa n. á þann hátt, sem hv. þm. talaði um, en það getur verið athugandi, og býst ég við, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki til athugunar einstök atriði þess.