21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. l. þm. Eyf. stóð upp til að verja reikninga Mjólkursamlags Eyfirðinga og talaði af slíkum móði, að hann krafðist þess, að ég endurtæki það utan þinghelginnar, sem ég hefði sagt um reikninga þessa fyrirtækis. Ég held, að það yrði nú varla mikill vábrestur þótt ég endurtæki utan þ. það, sem ég hefi um þetta sagt. Mér finnst það engin goðgá út af fyrir sig, þótt fél. legði einni d. sinni til framkvæmdastjórn frá sér, eða styrkti hana beint eða óbeint á annan hátt. (BSt: En það gerir félagið ekki). Nei, mér er óhætt að endurtaka ummæli mín hvar sem er, þau voru ekki nærgöngulli en svo. En ég vil skora á hv. 1. þm. Eyf. að endurtaka þau ummæli sín um mig utan þings, að ég hafi sagt, að kaupfélagið falsaði reikninga sína. Það var svo fjarri því, að ég segði nokkuð í þessa átt, eins og sjást mun hjá skrifurunum.

En svo að ég snúi mér nú að því máli, sem fyrir liggur, þá verð ég að segja, að mér finnst meðferð n. á málinu ákaflega einkennileg. T. d. það, að n. skuli ekki minnast á þær brtt., sem fyrir liggja, þótt þær bryti málinu stórkostlega, eins og brtt. mínar við 2. umr. Svo koma brtt. frá n. sjálfri, sem ómögulegt reynist að fella inn í frv., svo að þær verður að prenta upp aftur. Og loks þegar þær koma til umr., er ein brtt., sem áður var sögð vera flutt af n. allri, sögð vera flutt aðeins af meiri hl. hennar, og gegn einni brtt., sem öll n. er skrifuð fyrir, rís nú einn nm., hv. 4. landsk. Það lítur langhelzt út fyrir eftir öllum frágangi og hugsanagraut þeim, sem svo mjög ber á í öllu þessu, að hv. frsm. meiri hl. hafi einn hripað þetta niður, enda eru fingraför hans víða auðsæ.

Þannig hefir hv. frsm. ekki tekizt að gefa nokkra skýringu á þeim lið 3. brtt. á þskj. 553, þar sem sagt er, að mjólkursölunefnd geti, ef ástæða þyki til, ákveðið, að vissar sveitir, hluti úr sveitum eða kauptún skuli tekin undir sölu- og dreifingarrétt mjólkurbúa og sölumiðstöðva þeirra með þessar afurðir. Þetta er alveg óskiljanlegt þeim, sem ekki hafa neina skýringu á þessu annarsstaðar að.

Í l. gr. frv. er tekið fram, hvað verðjöfnunarsvæði er. Þetta er að vísu ekki alveg ljóst, en þó má skilja það. En svo kemur þetta: að draga megi vissar sveitir, hluta úr sveitum eða kauptún inn undir — ja, hvað? Hvernig á að skilja „þeirra“? Á það við mjólkurbúin eða við „vissar sveitir“ o. s. frv.? Líklega væri helzt eitthvert vit í því að skilja þetta þannig, að ef sett eru upp ný mjólkurbú, megi líka ákveða ný verðjöfnunarsvæði kring um þau. Annars er brtt. óskiljanleg.

Hæstv. forsrh. ræddi brtt. mína, og var það auðvitað góðra gjalda vert, að hann minntist á hana, en ræða hans bar öll vott um, að hann líti fremur á flutningsmenn brtt. en brtt. sjálfar. Hann tók öllum brtt. landbn. með ljúfu brosi, og aðfinnslum hv. 4. landsk. við þær með hinni mestu blíðu. En mínum brtt. mótmælti hann auðvitað harðlega.

Út af brtt. minni á þskj. 492 vitnaði hann í sérákvæði um barnamjólk í 5. gr. En í minni brtt. er ætlazt til, að salan á ógerilsneyddri mjólk geti orðið miklu víðtækari en þar er gert ráð fyrir. Þannig megi öll brauðgerðarhús kaupa slíka mjólk, þar sem hún gerilsneyðist auðvitað algerlega við bökunina. Eins fer brtt. mín fram á, að vissar stofnanir geti keypt mjólk milliliðalaust af heimilum, eins og gert hefir verið frá aldaöðli, og fá þannig mörg þús. kr. sparaðar.

Hæstv. ráðh. sagði, að margir framleiðendur hér í Rvík vildu heldur selja mjólk sína gegnum sölumiðstöð en milliliðalaust, vegna dreifingarkostnaðar. Þetta getur ef til vill átt við einstaka stórframleiðaneta. En ég skil ekki, hvaða skaði er skeður, þótt heimild væri til að selja þessa mjólk án milliliða, ef það er rétt, að þessir framleiðendur leiti af fúsum vilja til samtakanna. En sannleikurinn er sá, að öllum þeim framleiðendum, sem litla framleiðslu hafa, verður dreifingar- og innheimtukostnaður mjög ódýr eða enginn. Búskapur þeirra getur alveg oltið á því, hvort þeir fá sjálfir að halda verzlunararðinum af mjólk sinni eða ekki. Það er alveg vafasamt, hvort það borgar sig að neyða þessa menn til að ganga inn í félögin, en það er vitanlega tilgangurinn, þar sem enginn er skyldugur til þess samkv. mjólkurlögunum að gerilsneyða mjólkina fyrir þá, og ef til vill fæst enginn til þess. Ef mjólkursölufyrirtækin annast einhver önnur áhættusöm viðskipti, þá treysti ég mér ekki til að neyða þessum viðskiptum upp á þau. En ef þessir menn geta ekki fengið gerilsneyðingu á mjólk sinni, þá verða þeir að neyðast til að leita til félagsins.

Ég skil það vel, að tilgangur hæstv. ráðh. er sá, að fjötra þetta allt; honum finnst, að lögin geri ekkert gagn, ef ekki er hægt að neyða alla mjólkurframleiðendur til þess að vera með, þó að einungis sé um að ræða fáeina smáframleiðendur, sem hafa örfáa lítra af mjólk á dag. Hæstv. ráðh. tók til samanburðar dæmi af kjötframleiðendum hér í bænum, og sagði, að þá væri eins eðlilegt að undanþiggja þá, sem framleiddu kjöt hér í lögsagnarumdæmi bæjarins. En þetta er mjög óheppilegt dæmi, þar sem enginn kjötframleiðandi er innan lögsagnarumdæmis Rvíkur. Þetta væri því aðeins sambærilegt, að enginn mjólkurframleiðandi væri á þessu svæði heldur.

Það hefir verið algerlega rangt eftir mér haft, að ég væri mótfallinn mjólkurlögunum; ég er því fylgjandi, að skipulögð verði sala á þeirri mjólk, sem flutt er til bæjarins, en fer aðeins fram á það, að mjólkurframleiðendur hér í bænum séu ekki neyddir til að hlíta þessum lögum, og skora á hv. þd. að heimila þeim undanþágu frá þeim. Dæmið, sem hæstv. ráðh. tók um kjötframleiðendurna, á hér ekki við. Ég hefði hreyft samskonar andmælum við kjötlögin, ef svo hefði staðið á, að búið hefði verið að leggja fram milljón kr. til fjárbúa hér í bænum, sem lögð hefðu verið niður vegna þeirrar lagasetningar.

Hæstv. ráðh. tók það réttilega fram, eins og við næstu umr. á undan, að gagnsemi þessara laga væri undir því komin, að allir stæðu saman um framkvæmd þeirra. Ég er honum sammála um það. Þess vegna skil ég ekki í því, að Alþingi afgreiði þessi lög þannig, að svona ósanngjörn ákvæði verði keyrð fram. Með því er stofnað til ófriðar við mjólkurframleiðendur í kaupstöðunum. Af því ég veit, að þessi lög standa eða falla með því, að fullt samkomulag verði um framkvæmd þeirra, þá skora ég á hv. þdm. að sýna öllum aðilum sanngirni í þessu máli. Ef þessi lög verða knúð fram af meiri hl. Alþingis, þá verður með því stofnað til ófriðar, sem upphefur lögin. — Það dugir ekki í svona máli að segja eins og hæstv. ráðh. komst að orði við 2. umr., að þessum lögum skuli verða framfylgt, hvað sem hver segi. Hitt var miklu viturlegra, sem hæstv. ráðh. sagði nú í ræðu sinni, að framkvæmd þessara laga yrði að byggjast á góðum samhug allra þeirra aðila, sem við þau eiga að búa. Það er hægt að tryggja þennan samhug með því að sýna bæjarbúum þá sanngirni, sem felst í brtt. minni. Ég veit ekki, hvort það verður hægt í þessari hv. þd., en vænti þess, að hæstv. ráðh. fylgist svo vel með gangi málsins í hv. Nd., að hann geti fengið lögunum breytt þar á þann veg, að allir megi vel við una. Þannig verður tryggður beztur árangur af þessari löggjöf.