13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Ak. lagði mikla áherzlu á orð sín þegar hann minntist á þetta gífurlega ranglæti, sem í till. minni fælist. Og hann sagði jafnframt, að hann ætti erfitt með að greiða þessu máli atkv. út úr d., ef till. yrði samþ., og mundi á hverju einasta þingi bera fram brtt. til þess að fá þessu ranglæti hrundið. Það eru engar smáræðis fullyrðingar, sem hv. þm. hefir í sambandi við þetta „ranglæti“. En það má segja, að málflutningur sé orðinn nokkuð erfiður í sambandi við þetta mál vegna fulltrúa einstakra kaupstaða, þegar svona er til máls tekið. Ég vil benda á það í sambandi við þessa 3 þús. lítra, að það var flutt fram í mjólkurnefndinni af þeim manni, sem fyrst og fremst er umboðsmaður Reykvíkinga, Guðmundi Ásbjörnssyni, að miða við þá tölu fyrir þá, sem selja í gegnum mjólkurmiðstöð. Það er upplýst, að meðalnyt í Rvík er 3300 lítrar, og þess vegna fékk þessi umboðsmaður Rvíkur, Guðm. Ásbjörnsson, því til leiðar komið í n., að setja skyldi inn í l. að miða við 3 þús. lítra. Að vera á móti þessari till. er sama sem að leyfa mönnum að vera fyrir utan samtökin. Það liggja fyrir margar áskoranir um það frá ýmsum mönnum, og svo aftur áskoranir um að leyfa ekki óbeina sölu. Svo kemur hv. þm. Ak. og telur þetta ranglæti, — þetta sama og sá maður, sem sérstaklega á að gæta hagsmuna Rvíkur, heimtar að fá sett inn í lögin. Þannig er málflutningurinn um þetta atriði, og hann stafar af því, að þeir menn sumir hverjir, sem flytja þetta mál, eru ekki inni í því yfirleitt, sem þeir eru að fara með. Ársnytin er samkv. fengnum skýrslum 3300 lítrar að meðaltali, svo að þessir menn hafa til eigin neyzlu og meira en það. En á annað er að líta, sem þessi hv. þm. minntist alls ekki á, að jafnframt og þetta ákvæði er tekið úr l., þá er líka fellt burt það ákvæði í þeim till., sem fyrir liggja, að leggja nokkurt verðjöfnunurgjald á þá, sem ganga inn í sölumiðstöðina, sem á að vera 3% eftir till. minni hl. landbn. Með þessu er öllum opnuð leið til þess að ganga inn í sölumiðstöðina og greiða aldrei af meiru en þeir selja í gegnum sölumiðstöðina, án þess að greiða nokkurt verðjöfnunargjald. Svo að jafnhliða því, að þetta ákvæði er tekið burt, þá opnast leiðin til þess að ganga inn í sölumiðstöðina og greiða ekkert verðjöfnunargjald nema af því, sem þeir sannanlega selja á markaðinn. — Ef hinsvegar yrði farið að leyfa, eins og hv. þm. Ak. vildi, 2 þús. lítra undanskilda verðjöfnunarsjóðsgjaldi til eigin nota hvers framleiðanda, þá mundi sennilega fjölga nokkuð mikið framleiðendunum næstu dagana eftir að mjólkurl. gengju í gildi. (PHalld: Því mótmælti form.). Því þýðir ekkert að mótmæla, því að hvað myndi það standast fyrir dómstólunum? Ef einhverjir menn kaupa kýr og eiga í fóðrum, hver getur þá neitað því, að þeir séu framleiðendur? Þess vegna er augljóst, að með því að hafa 2 þús. lítra undanskilda fyrir hvern framleiðanda er verið að opna leið til misnotkunar á mjólkurl. Það er verið að eyðileggja þau. Og það er það, sem ég vil fyrirbyggja, án þess að nokkrum manni sé sýnt ranglæti. — Ég get ekkert um það sagt, hvað muni vera ársnyt á Akureyri, en finnst þó í mesta máta vafasamur vitnisburður hv. þm. Ak. um það, að í kaupstað, þar sem farið er vel með kýr, skuli nytin ekki komast til jafns við það, sem hún er hér. Ég efast um, að Akureyringar séu þakklátir þm. fyrir þennan vitnishurð. Ég held, að það sé heppilegra fyrir þennan hv. þm., þegar hann fer að bera fram „réttlætismál“, að fá þá ekki á móti sér þann manninn, sem sérstaklega á að gæta hagsmunanna í þessu efni, Guðm. Ásbjörnsson.

Af því að ég er byrjaður að svara þessum ræðum, sem hér hafa farið fram síðan ég tók síðast til máls, vil ég fara örfáum orðum um það, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um málið. Hann minntist á það, og lagði á það nokkuð mikla áherzlu, að það væri ranglæti að haga skipun n. þannig, að „samtakamáttur samvinnufélaganna“. eins og hann orðaði það, væri lamaður eða tekinn af þeim með valdi. Ég skal upplýsa það í þessu sambandi, að svo var til ætlazt, að félög, sem hér eiga hlut að máli, kæmu sér saman um, hvernig fyrirkomulagi samsölunnar yrði hagið eftir áramótin. En það sýndi sig, eins og það hafði sýnt sig um mjólkursamtökin áður, að það varð erfitt um samkomulag, og ef það hefði svo ekki komizt á hjá félögunum, þá hefði framkvæmd l. strandað um áramótin, en það kæri ég mig ekki um að eiga á hættu eftir allt það, sem ég er búinn á mig að leggja fyrir þetta mál. Ég valdi því þá leið, að mjólkursölunefndin skyldi fara með þessi mál þangað til í maí í vor, en þegar félögin koma sér saman, þá taka þau við samsölunni og ráða henni. Það er ekki skertur þeirra réttur, ef þau koma sér saman og sýna, að þau hafa möguleika til þess að stjórna málinu. Það er ekki verið með þessu að ráðast á samvinnufélögin, heldur er verið að gera það, sem nauðsynlegt er, til þess að gera l. framkvæmanleg.

Þá minntist hv. þm. á, að verðjöfnunarsjóðsgjaldið væri of hátt. Ég vil ekki fara að endurtaka það, sem ég áður sagði um það atriði, en einungis láta þess getið, að hann kom að því og talaði alllengi um, að með þessu háa verðjöfnunargjaldi væri verið að koma hagsmunum gegn hagsmunum, og jafnvel stétt gegn stétt. Hér er ekki um annað að ræða en verðjöfnunargjald milli framleiðendanna, sjálfra bændanna. Það er eitt, sem þessi hv. þm. tekur aldrei með í alla sína útreikninga og gerir ómögulegt út í þá að fara eða fá vit úr þeim, og það er það, að búin fyrir austan fjall hafa mikinn hluta sinnar mjólkur, og nú meiri hlutann, í vinnslu. Vinna úr þeim vörur, sem seljast langt fyrir neðan það verð, sem fæst fyrir neyzlumjólk hér á markaðinum. En þessi félög og einstaklingar austanfjalls geta samt sent sína mjólk á Rvíkurmarkaðinn, ef þeim er ekki haldið til baka með verðjöfnunarsjóðsgjaldinn. Og þess vegna þarf verðjöfnunargjaldið að vera nokkuð hátt, að þessir menn setja sína mjólk í verðminni vörur en mjólkin sjálf er seld til neyzlu. Annars er rétt að benda á það í þessu máli, að t. d. þegar þessi hv. þm. reiknar út, hvað bændur austanfjalls fái í uppbót á hverja kú, þá reiknar hann út frá því, sem bændur austanfjalls selja mjólk sína til neyzlu hér í bænum, án þess að taka minnsta tillit til þess, hvað unnið er úr mjólkinni í búunum austanfjalls. En að þræta um það aftur og fram, hvað gjaldið eigi að vera hátt, hefir út af fyrir sig ekki neina þýðingu. Menn komast ekki með því að neinni niðurstöðu. En á það má benda, að þeir menn, sem nú selja mjólk á Rvíkurmarkað, fá eftir því, sem ég bezt veit, 20 —24 aura fyrir lítrann hjá Mjólkurfélagi Rvíkur. Ef mjólkin er seld á 10 aura og verðjöfnunargjaldið er 3 aurar, og þótt kostnaður við gerilsneyðingu og dreifingu sé 8 —9 aur., þá fengju þessir menn í lögsagnarumdæminu og nágrenninu a. m. k. 28 aura pr. lítra. Þrátt fyrir það, að verðjöfnunarsjóðsgjaldið sé 3 aurar, getur svo farið, að hagnaður þeirra, sem búa utan lögsagnarumdæmisins, verði meiri tiltölulega en þeir fá, sem búa fyrir austan fjall og er haldið til baka af markaðinum.

Þá er enn eitt, sem hv. þm. lagði mikla áherzlu á og byggt var á algerðum misskilningi, og um þetta talaði hv. þm. alllangan tíma, og það eru þessi ákvæði í d-lið 3. brtt. á þskj. 749, um það, að „enda sé bændum frjálst að flytja mjólk sína og rjóma til hvers þess mjólkurbús, sem þeir óska á sama verðjöfnunarsvæði“. Um þetta fórust hv. þm. svo orð, að e. t. v. mætti ákveða um það í reglugerð, að banna þennan flutning nema til einstakra búa. Ég get ómögulega séð, að það sé nokkur grundvöllur til slíks í l., enda alls ekki til þess ætlazt, og ég er viss um, að hv. þm. veit, að ekki er hægt að setja reglugerð án þess að hún sé í samræmi við ákvæði l. Þetta er því allt út í bláinn hjá þm. Jafnframt minntist hann á það þessu til sönnunar, að mönnum austan úr sveitum hefði verið bannað að flytja rjóma í Mjólkurfél. Rvíkur. Þetta er bara tóm vitleysa og ekkert annað. Þetta er hvergi bannað í l. og heimilt samkv. l. Ég spurði lögreglustjórann, sem var staddur hér frammi, um, hvort þetta hefði komið til mála og hvernig myndi á þessu standa. Hann kvað þetta allt ósatt og tilhæfulaust, sem ég vissi raunar. Hitt er annað mál, að mjólkurbúin hafa haft samninga sín á milli um það, að hvert búið sé ekki að seilast eftir mjólk frá öðrum, en það kemur l. ekkert við, og því eru þessar brtt. hans út í bláinn.