13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Thor Thors:

Það er nú orðið áliðið nætur, og satt að segja er ekki ánægjulegt að tala yfir tómum stólum, en þar sem hér er um stórt vandamál að ræða, þá vil ég segja nokkur orð í sambandi við það, sem ég vil taka fram og fá frekari skýringu á.

Eitt aðalatriðið í þessu frv. er verðjöfnunarsjóðsgjaldið, sem á að greiða af allri neyzlumjólk, sem seld er í Rvík. Það er sagt, að þetta gjald sé greitt af þeim, sem þessa markaðar hafa notið og eiga að njóta, til þess að kaupa sér frið til að fá að sitja að þessum markaði, eins og hv. frsm. orðaði það. Hv. frsm. sagði ennfremur að þeim, sem búa í nágrenni Rvíkur og hafa hina landfræðilegu aðstöðu til þess að njóta þessa markaðar, sé tryggð forganga að markaðinum. Það er vitanlega talsvert miklu til þess kostandi fyrir þá aðila, sem búa í nánd við Rvík, að fá að njóta þessa markaðs í friði. Þeir hafa nærri því allir ráðizt í miklar framkvæmdir með ærnum tilkostnaði, í öruggri trú þess, að hin landfræðilega aðstaða þeirra tryggi þeim þennan markað, en á því hefir orðið verulegur brestur hin síðari ár. Þess vegna verð ég að viðurkenna, að það er ástæða til fyrir þessa aðila að greiða nokkurt verðjöfnunargjald til friðarsamninga í þessu máli, til að tryggja þeim þennan markað. Mér virðist það líka hafa komið greinilega fram hjá hæstv. forsrh., að þetta sé tilætlunin.

En ég vil nú spyrja: Hvar er þetta tryggt með þessari löggjöf? Hvar er það tryggt, að mjólkurframleiðendur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur og í Gullbr.- og Kjósarsýslu fái að njóta þessa markaðs? Þrátt fyrir bezta vilja fæ ég ekki séð, að þetta sé neinstaðar tekið fram í frv. Ég fæ ekki betur séð en að það standi opið fyrir búin austan fjalls, sem ekki hafa landfræðilega aðstöðu til að sinna þessum markaði að jafnaði, eins opið og áður að flytja inn á Reykjavíkurmarkaðinn eins mikla mjólk og forráðamenn þeirra óska. Það kann að vera, að það sé tilætlunin að láta það ekki verða svo í framkvæmdinni, heldur láta þá landfræðilegu aðstöðu ráða, en ég tel rétt, að það kæmi ljóslega fram í frv. sjálfu, því að það yrði vissulega til þess að tryggja meiri frið um löggjöfina sjálfa og sætta þá aðila, sem telja sig eiga um sárast að binda út af framkvæmd þessa máls. Þeir, sem búa fjær Rvík, fá það skilmerkilega tekið fram í l., sem að þeim snýr, sem sé verðjöfnunargjaldið, sem þeir eiga að fá. Hinir, sem þessa markaðs eiga að njóta og greiða til þess sérstakan skatt, fá sitt ekki nægilega skýrt tekið fram í l.

Hv. þm. Mýr. vildi draga það í efa, að það væri rétt, sem þeir hv. 5. þm. Rvík og hv. þm. A.-Húnv. hafa haldið fram, að skattur sá, sem þessi löggjöf hefir í för með sér, gæti orðið 10 aurar á lítra, fyrir framleiðendur í nágrenni Rvíkur, þ. e. a. s., að þeir fengju 10 aurum minna fyrir hvern lítra, þegar l. væru komin í framkvæmd, en þeir fá nú. Mér er þetta mál kunnugt af umsögn manna, sem hafa haft mjög mikil viðskipti á þessu sviði, og einn þessara manna, sem hér hefir átt hlut að máli, hefir tjáð mér, að þetta munaði sig þessu, þegar athugaður er hans venjulegi dreifingarkostnaður. Hv. þm. Mýr. hristir höfuðið. Hann má hrista það svo lengi, að það hrynji af honum, sem ég raunar óska ekki. En ég trúi þessum manni betur en hv. þm., og hann verður að virða mér það til vorkunnar.

Annars er það einkennilegt, að þau fyrstu hlunnindi, sem bændur hafa notið af þessari löggjöf, er lækkun á mjólkurverðinu. Þetta mál er borið fram af hæstv. landbn. af umhyggju fyrir bændum. En fyrsta reynslan, sem þeir fá af þessari löggjöf, er mjólkurlækkun. Og það liggur svo mikið á að lækka verðið, að stj. lætur það viðgangast að brjóta ákvæði frv. til að koma lækkuninni fram. Það er nefnilega ákveðið í 2. málsgr. 4. gr., að útsöluverð mjólkur skuli á hverjum tíma reiknað, eftir því, sem við verður komið, samkvæmt vísitölu og nánari ákvæði skuli setja um þetta í reglugerð. En þegar mjólkurverðið var lækkað, var engin reglugerð komin út, svo að ákvæði l. voru að þessu leyti brotin. Vísitala var heldur engin til að fara eftir, svo að vitað sé.

Ég skýt þessu fram til þess að sýna, að það er fullkomlega ástæða fyrir einstaka bændur til að efast um, að þetta mál verði þeim til þeirra hagsbóta, sem stundum er látið í veðri vaka. Og ég get búizt við því, að framkvæmd þessa máls verði erfið hjá stjórnarflokkunum, þar sem það er vitað, að þeir hafa mjög ólíkra hagsmuna að gæta í þessu máli. Sósíalistar þurfa vitanlega að hugsa um neytendurna í Rvík, og Framsfl. mun samkv. fyrri yfirlýsingum sínum vilja hugsa um hagsmuni bændanna. Það er því mjög líklegt, að framkvæmd þessa máls í höndum þessara tveggja aðilja verði næsta erfið.

Það hefir líka komið greinilega fram í blöðum sósíalista, að það sé þeirra krafa, að mjólkurverðið verði lækkað mjög mikið frá því, sem nú er, og einn hv. þm., sem að vísu er nú ekki viðstaddur, hv. 9. landsk., hefir meira að segja skrifað grein um málið í annað aðalblað stj. og sagt þar, að sjálfsagt væri að lækka mjólkurverðið þegar í stað um 4 aura — greinin er skrifuð í septemberbyrjun — og niður í 35 aura um áramót. Þessi lækkun er ekki ennþá komin fram, enda þótt hv. þm., sem því miður er nú fjarverandi, léti svo ummælt, að stj. ætti formælendur fáa, þegar til þings kæmi, ef þessi lækkun yrði ekki framkvæmd. Ég bendi á þetta til þess að sýna, hversu líklegt það er, að erfið verði framkvæmd þessa máls fyrir þessa aðila.

Annars er það svo með jafnviðkvæmt mál og þetta, að mjög mikið er komið undir því, hvernig fer um framkvæmdina, og það er vissulega erfitt verk, sem þeir takast á hendur, sem þessu máli ætla að veita forstöðu í framtíðinni. Það veltur allt á því um það, hversu langlíft málið verður, hvernig þeim tekst að halda á því.

Ég hefði nú talið rétt, út frá því sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að nýju ákvæði væri bætt inn í 7. gr. frv., og vil ég leyfa mér að skjóta því til landbn., hvort hún vilji ekki athuga þetta til 3. umr. — 7. gr. fjallar um störf mjólkursölun. Ég tel heppilegt, að á eftir síðustu málsgr. þeirrar gr. komi nýr liður, þar sem það yrði gert eitt af störfum mjólkursölun. að gæta þess, að eigi verði meiri mjólk flutt inn á sama markað en nægir þörf hans, þannig, eins og ég tók fram, að þess yrði gætt, að þeir, sem borga gjaldið, hafi nokkra tryggingu fyrir því, að þeir fái að njóta þess markaðs, sem þeir samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh. eru að kaupa sér frið til að fá að njóta einir.

Þá er eitt atriði, sem ég vildi mega fá upplýsingar um. Það er nefnilega ákvæði 7. gr., að mjólkursölun. skuli hafa eftirlit með vöruvöndun mjólkur og gefa fyrirskipanir þar að lútandi. Í sambandi við þetta vildi ég spyrja, hvort það væri tilgangur þeirra, sem mestu ráða um þetta mál, að sérhvert mjólkurbú héldi sínu sérmerki, þannig, að það fengist eðlilegur og nauðsynlegur metnaður milli búanna um það, að hafa sem mesta vöruvöndun. Þessa er mjög víða gætt, t. d. við útflutning á saltfiski. Þar hefir hver framleiðandi sitt sérmerki á öllum þeim fiski, sem út er fluttur í gegnum sölusambandið, og það merki er látið halda sér til þess að tryggja vöruvöndun, svo að það geti einnig orðið bert, ef verkun á fiskinum er ekki nógu vönduð, hvar það hefir átt sér stað. Ég tel heppilegt, að slíkt yrði einnig í þessu máli, ef það á að verða tilgangurinn að vinna að vöruvöndun.

Ég held, að það séu þá ekki fleiri atriði, sem ég þarf að taka fram að sinni, en hv. þm. G.-K. bað mig, til þess að spara tímann, að skjóta því til hæstv. forsrh., að hann hefði í upphafi ræðu sinnar sagt, að þeir sem kynnu að hafa tilhneigingu til þess að beita rangsleitni við framkvæmd mjólkurl., hefðu ekki fundið nauðsynlegt aðhald hjá forsrh. Annað eða meira sagði hann ekki. En í síðari hluta ræðu sinnar sagði hann, að hann vildi ekki að fyrra bragði beinlínis væna forsrh. um það, að hann beitti beinlínis rangsleitni um framkvæmd þessa máls að því er snertir einn aðila þess. Annað og meira sagði hann ekki. Mér þykir þetta nokkuð mikil viðkvæmni hjá hæstv. forsrh., ef hann telur slíkt oflof, og ég vona, að reynslan skeri úr, að hér sé ekki um það að ræða.