09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

14. mál, tolllög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta er eitt af þeim tekjuöflunarfrv., sem stj. ber fram, og fer það fram á hækkun á tolli af tóbaki, súkkulaði og brjóstsykri. Hækkun tóbakstollsins á að nema 2 kr. af kg. af rjóli og vindlingum, en 4 kr. af kg. af vindlum.

Eins og getið hefir verið um áður við umr. fjármála hér á þingi, er það stefna stj. að afla sem mest tekna handa ríkinu með álagningu beinna skatta og svo tolla af vörum, sem ekki geta talizt nauðsynlegar. Það er nú svo, að þó tóbakstollurinn hafi ekki verið lágur undanfarið, þá hefir hann ekki verið mjög hár á þeim tegundum, sem hér er um að ræða, og fannst stj. því gerlegt að fara fram á dálitla hækkun, með tilliti til tekjuþarfa ríkissjóðs.

Þá er farið fram á nokkra hækkun á tolli af innlendum framleiðsluvörum, sælgæti og þessháttar. Mun engum blandast hugur um, að það sé eðlileg tekjuöflunarleið, þegar um slíkar vörur er að ræða.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en óska, að frv. verði vísað til fjhn. að lokinni umr.