18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

14. mál, tolllög

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.,]:

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárl., og reyndar kemur það fram einnig nú í ræðu hans hér áðan, að ekki væri farið fram á neinar hækkanir á tollum, heldur að færa þá til. Þótti mér þetta ótrúlegt, að svo væri, nema um greiðsluhalla yrði að ræða á fjárl. Nú upplýsir hann um það, að þó gengisviðauki á kaffi- og sykurtolli héldist, vantaði samt 1,8 millj. kr. Ég get því ekki skilið, að ekki þurfi hækkanir tolla, nýjar álögur eða niðurskurð á fjárveitingum, ef greiðslujöfnuður á að nást á fjárl.

Hæstv. ráðh. er alltaf að spyrja okkur andstæðinga hans, hvað við viljum gera eða ætlum að leggja til um tekjuöflun. Ég hefi aldrei þekkt þetta fyrr á þingi, að heimta till. af nefndum áður en þær eru teknar til starfa. Hann veit ekkert nema við sjálfstæðismenn séum þegar farnir að undirbúa okkar till. Ég vil ekkert segja á þessu stigi málsins, hvaða till. fjhn. kann að gera; það er auðvitað ekki hægt að segja það fyrirfram. Þetta ætti hæstv. ráðh. að skilja, þó hann hafi ekki langa þingreynslu að baki, og því ekki að vera sífellt með áminningar við aðra. Það er mikið verk að undirbúa þessar till. Ég vil segja, að fyrsta skilyrðið til að koma fjárhagnum í lag sé að skera niður allt, sem mögulegt er að skera niður; það er langbezta ráðið á þessum tímum. Það sést nú á sínum tíma, hvað hæstv. ráðh. og flokkur hans vill gera, þegar fjárlfrv. verður til umr., og fyrr er ekki hægt að gera ákveðnar till. Þó hæstv. fjmrh. geti sagt, hvernig þetta eigi að vera samkv. sínum frv. og till., vegna þess að hann hefir undirbúið fjárlfrv., þá eigum við hinir eftir að gera okkar till. um lækkanir og hækkanir. Hæstv. ráðh. spyr, hvernig við sjálfstæðismenn viljum afla tekna. Ég hefi sagt það áður, og slegið því föstu fyrir mitt leyti í nál. á þskj. 104, að heimila megi ríkisstj. að innheimta skatta með lítilfjörlegu álagi, svo hægt sé að skila fjárl. tekjuhallalausum. Ef hæstv. ráðh. vill innleiða samninga við okkur sjálfstæðismenn um, hvernig afgr. megi tekjuhallalaus fjárl., þá erum við að sjálfsögðu tilbúnir og munum taka því tilboði fúslega.

Þá sagði hæstv. ráðh. - og það er alveg satt -, að það er ekki létt verk að lækka útgjöld fjárl., og það er þess vegna, að við sláum þennan varnagla, að ef þetta tækist ekki, þá yrði gengið inn á nokkra tekjuaukningu. En það er svo með hvern þann, sem eyðir meira en hann aflar, að annaðhvort heldur hann áfram þangað til allt brestur, eða hann verður að lækka útgjöldin, og alveg er það eins með heil ríki. Og ef þau sjá ekki að sér sjálf, þá koma aðrir og skipa þeim fyrir, hvernig þau eigi að haga sér, og það er ekki skemmtilegra.

Hv. 2. þm. Rang. benti á frv. til áfengislaga, sem mundi gefa miklar tekjur, ef samþ. yrði. Ég vil benda á annað frv., sem er nú komið inn í þingið að tilhlutun stj. Það er frv. um einkasölu á bifreiðum, mótorvélum og rafmagnsvélum. Ég þykist vita, að slík verzlun gefi mikinn arð. Væri eðlilegt, þegar slíkt frv. liggur fyrir, að því fylgdi grg. um tekjur, sem vænta mætti af slíkum l. Og þegar svona frv. koma fram, væri ekki nema eðlilegt, að draga mætti úr öðrum álögum. Ég vil því að endingu ítreka þessa fyrirspurn hv. 2. þm. Rang. og bæta þessari við, hvort ekki megi vænta tekna af svona stórfelldri einkasölu.