24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

14. mál, tolllög

Hannes Jónsson:

Það er aðeins fyrir það, að ég hefi enga aðstöðu til þess að hafa áhrif á þetta mál, að ég hefi beðið um orðið. Það, sem ég sérstaklega vil vekja athygli hv. n. á, þegar hún afgreiðir þetta mál, er, hvort ekki sé ástæða að breyta nokkuð frá því, sem hér er farið fram á um tollahækkun. Ég á þar sérstaklega við hækkun á tolli á nettóbaki og munntóbaki, sem mun vera hlutfallslega meiri en á sígarettum og vindlingum samkv. frv. Tollur á þessum tóbakstegundum hefir verið lægri, og ég álít, að sú hækkun, sem gerð er á þeim tolli, eigi að vera hlutfallsleg hækkun við það, sem nú er. Annars er tollmismunurinn minnkaður frá því, sem verið hefir.

Menn munu kannske segja, að neftóbak og munntóbak sé jafnónauðynlegt og sígarettur, en það er nú einusinni svo, þegar menn eru búnir að venja sig á neyzlu þessarar vöru, þá er ekki gott fyrir þá að láta það ógert, og ég veit, að mörgum tóbaksmanninum þykja mikil útgjöld stafa af þessari nautn sinni, en þeir geta ekki án þess verið, og þess vegna, tel ég ekki rétt að ganga harðara að þessum mönnum, sem flestir eru fátækari heldur en sígarettu- og vindlingafólkið, sem hefir frekar möguleika til þess að standast útgjöld af þessari nautn sinni.