01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

5. mál, útflutningsgjald

Finnur Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til að lengja mikið umr. um þetta úr þessu. Ég vil þakka hv. þm. G.-K. fyrir bendingar hans í málinu. Ég skal fúslega taka undir það, að það væri æskilegt að geta fært útflutningsgjald af síldarmjöli til samræmis við útflutningsgjald af öðrum afurðum, en það er ekki hægt að ætlast til, að allt verði gert á einu ári. Ef nú verður lækkað útflutningsgjald af síldinni um 120 þús. kr., sem tekjur ríkissjóðs rýrna, er ekki hægt að búast við, að lengra sé hægt að ganga í einu. En þessar 120 þús. kr., sem allar eiga að ganga til sjómannanna á þessu ári, hefðu a. m. k. ekki lent þar, ef stj.flokkarnir hefðu ekki gert samning um að standa að því. Þetta er mál, sem Sjálfstæðisfl. hefir látið undir höfuð leggjast á undanförnum árum, og getur hann því ekki búizt við því af öðrum, að þeir kippi öllu í lag á einu og sama þinginu. Ég mun því láta mér nægja þessa lagfæringu nú, og vil nú ekki gera þá kröfu til hæstv. ríkisstj., að hún á einu ári geri það, sem Sjálfstæðisfl. hefir vanrækt í mörg ár, í því trausti, að hin nýja stj. sjái sér fært að ganga lengra síðar.