14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl]:

Eins og getið var um við 2. umr., hafði n. ekki fastákveðið afstöðu sína viðvíkjandi breyt. á 3. gr., en sú gr. í frv. er mjög einstrengingslega orðuð. Eftir því orðalagi lítur helzt út fyrir, að ætlunin sé að smala öllum Færeyingum, sem stunda veiðar hér á miðunum, til hafnar til þess að setja tryggingu fyrir greiðslu á útflutningstolli. Það hefir verið íhugunarefni í n. í samráði við hæstv. stj., hvernig takast mætti að laga þetta ákvæði, svo það yrði ekki eins harkalegt í framkvæmd, og eftir nokkrar bollaleggingar hefir niðurstaðan orðið sú, sem sjá má á brtt. á þskj. 798.

Þá vildi n. ekki láta það koma fram í 3. gr., að ísl. skipum væri mismunað í samanburði við erlend skip, sem hafa rétt til að veiða í landhelgi. Ísl. skip heyra undir 1. gr. frv. Til þess að taka af öll tvímæli um þetta, flytur n. brtt. um, að til ísl. afurða teljist afli, er skip, sem skrásett eru hér á landi, veiða, þótt hann sé veiddur utan landhelgi og eigi verkaður í landi.

Um 3. gr. frv. er það að segja, að ég ætla, að hún sé þannig orðuð, að ekki hljótist vandræði af framkvæmd hennar. Aðalefni brtt. er það, að ríkisstj. sé veitt heimild til, ef hún telur það nauðsynlegt vegna gagnkvæmra viðskiptasamninga, að undanþiggja gjaldinu þau skip, sem ekki taka höfn hér á landi á því almanaksári. Að öðru leyti skýrir till. sig sjálf. Það er nú svo, að við gætum heimtað ýms fríðindi á móti frá Dönum. T. d. eru allháværar kröfur um það frá ísl. síldveiðimönnum, að kryddsíldartollurinn verði afnuminn í Danmörku, enda væri sanngjarnt, að Danir sýndu okkur þá tilhliðrunarsemi, þar sem við kaupum af þeim miklu meira heldur en við seljum þeim. Ég bendi aðeins á þetta sem eitt atriði. Það eru vafalaust tollaður fleiri vöruteg. í Danmörku, sem við gætum selt þangað. Verður auðvitað að vera á valdi ríkisstj., hvernig hún hagar þessum samningum, eftir því sem haganlegast er í hvert skipti. þannig að ekki verði af óþægilegir árekstrar.

Ég held, að ég hafi ekki fleira að segja f. h. fjhn. um þessar till., en það hefir komið hér fram brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. um útflutningsgjald af þurrkuðum beinum. N. hefir ekki talað saman um hana, en mér heyrist á mönnum, að þeir geti fallizt á, að það sé réttlátt að taka ekki hærra útfl.gjald heldur en tiltekið er í frv., samanlagt, þar sem svo stendur á, að bæjarsjóðir taka einnig útfl.gjald af þessari vöru.

Það eru náttúrlega tveir aðilar, sem togast á um þetta. Annarsvegar þeir, sem selja þessi bein, og hinsvegar þær innlendu verksmiðjur, sem vinna úr þeim. Þarf að gæta nokkuð hagsmuna beggja. Vegna smábátaútvegsmanna og annara, sem beinin selja, má ekki leggja svo hátt útflutningsgjald á þau, að þeir neyðist til að selja þau fyrir lítið innanlands. Hinsvegar mundu seljendur beinanna litlu bættari, ef ísl. verksmiðjurnar yrðu að hætta vegna samkeppninnar við þá, sem beinin kaupa utanlands, því þá mundu þeir komast að raun um, að verðið yrði ekki hátt á útfluttum beinum.

Annars gerir vitanlega hv. 1. þm. Reykv. grein fyrir þessari till. Ég hygg, að það sé engin mótstaða gegn henni af n. hálfu, þó við höfum ekki talað saman um hana.