14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

5. mál, útflutningsgjald

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér heyrðist af ræðu hv. 2. þm. S.-M., að hann hafa ofurlítið misskilið brtt. mína. Ég hefi a. m. k. ætlazt til, að með henni væri aðeins átt við útflutningsgjald af þessari vöru, þannig að ef á hana er lagt útflutningsgjald, hvort sem heldur er af hafnar- eða bæjarsjóði, þá komi það til frádráttar. Frv. er allt um útflutningsgjald, og útflutningskjald greiða ekki aðrir en þeir, sem kaupa vöruna til útflutnings. Þótt einhver önnur gjöld séu lögð á þessa vöru innanlands, verða allir að greiða þau, án frádráttar á útflutningsgjaldi, hvort sem varan er seld utanlands eða innan, þannig að útflutningsgjaldið sé ávallt 30 kr. Ég vil láta koma skýrt fram, að við þetta er átt, þó það sé ekki beinlínis sagt í brtt.

Með brtt. hv. 2. þm. S.-M. finnst mér mín brtt. gerð svo að segja að engu. Ef hafnarsjóðsgjöld eru tekin undan, getur hver bæjarstj. farið í kringum þetta ákvæði með því að leggja hafnarsjóðsgjald og bæjarsjóðsgjald saman, kalla það allt saman hafnarsjóðsgjald og láta svo hafnarsjóð á einhvern hátt hlaupa undir bagga með bæjarsjóði. Þess vegna held ég, að sú vernd, sem till. mín á að veita beinaeigendum, verði að engu ef brtt. hv. 2. þm. S.-M. verður samþ.