16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Herra forseti! Sjálfstæðisflokkurinn hefir óskað þess, að þjóðinni væri gefinn kostur á að fylgjast með og hlýða á, hvað fram fer nú á tímum á hinn háa Alþingi. Þetta er þeim mun nauðsynlegra nú en áður, þar sem það er bersýnilegt, að stórkostleg stefnubreyting er að fara fram um alla stjórnarhætti og um aðstöðu ríkisvaldsins til atvinnulífsins í landinu. Þykir því rétt, að þjóðin sé aðvöruð um það, hvert stefnir nú í þessum málum, svo að hún sjái, á hvern veg fulltrúar hennar hyggjast að framkvæma vilja hennar. Frv. það, sem hér er til umr., nefnist frv. til l. um heimild handa skipulagsnefnd atvinnumála til að krefjast skýrslna o. fl. Í 1. gr. þessa frv. er hinni svokölluðu „skipulagsnefnd“ gefin heimild til þess „að heimta skýrslur munnlegar eða bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum, stjórnendum félaga og stofnana, um þau atriði, sem hún telur þörf á í starfi sínu“. Til þess að gera sér grein fyrir réttmæti eða nauðsyn þessa ákvæðis, verður að athuga, hverskonar nefnd þessi svokallaða „skipulagsnefnd“ er, hvert er tilefni hennar og upphaf og hver er tilgangur hennar.

Í kosningaávarpi Alþýðuflokksins fyrir síðustu kosningar, hinni svokölluðu 4 ára áætlun, sem að loknum kosningum varð stefnuskrá og starfsskrá núv. hæstv. ríkisstj., segir svo:

„Stofnuð sé ráðgefandi nefnd sérfróðra manna, þingi og stjórn til aðstoðar, er geri nákvæmar áætlanir um allar opinberar framkvæmdir á tímabilinu og stjórni vísindalegum rannsóknum til undirbúnings þeim og geri jafnframt tillögur um, hvernig komið verði fastri stjórn og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga, svo að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum (Planökonomi)“.

Samkv. þessu skipaði svo hæstv. atvmrh. n. þessa og í skipunarbréfi hennar, dags. 29. ágúst síðastl., er henni fengið þetta verkefni:

„Að hafa með höndum rannsókn á fjármálum ríkis og þjóðar og á hverskonar atvinnurekstri í landinu, framkvæmdum og framleiðslu, svo og á sölu og dreifingu afurða innanlands og utan og verzlun með aðfluttar vörur. Rannsókn þessi skal jafnt ná til framkvæmda og atvinnureksturs ríkis og bæja sem einstakra manna og félagsfyrirtækja“.

Þá er n. falið að koma með till. og áætlanir um aukin atvinnurekstur, framkvæmdir og framleiðslu í landinu. Í till. beri að leggja áherzlu á, að efldur verði sá atvinnurekstur, sem fyrir er og rekinn er á heilbrigðum grundvelli. Loks er nefndinni fyrirskipað að hafa það markmið fyrir augum í öllum tillögum sínum. „að útrýma atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar, svo að nýtt fjör megi færast í alla atvinnuvegi þjóðarinnar og kaupgeta hinna vinnandi stétta aukist“. Þannig er þetta orðrétt tilgreint í skipunarbréfinu.

Margt af þessum fyrirmælum og boðorðum n. er aðeins almennt orðagjálfur. Eins og t. d. þetta síðast talda „að útrýma atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar“. Annað er að mestu leyti þess efnis, að allir stjórnmálaflokkar gætu tekið undir það. Hver gæti t. d. haft á móti því, að sérfræðingar framkvæmi vísindalegar rannsóknir á opinberum framkvæmdum og geri till. um fasta stjórn og skipulag á þjóðarbúskapnum? Eða að rannsökuð séu fjármál þjóðarinnar og atvinnurekstur, í þeim tilgangi að efla þann heilbrigða atvinnurekstur, sem fyrir er, og færa nýtt fjör í atvinnulífið, svo að hagur þeirra, sem atvinnuna stunda, megi batna? Vissulega geta allir verið sammála um þetta.

En hefði nú þetta, að ráða bót á hinum geigvænlegu erfiðleikum atvinnulífsins í landinu bæði til lands og sjávar og finna nýjar leiðir út úr ógöngunum, verið hin raunverulegi og sanni tilgangur hæstv. ríkisstj., hefði hún að sjálfsögu valið menn í nefndina eingöngu út frá sjónarmiði sérþekkingar og hæfileika til að leysa þetta mikla og víðtæka starf hennar. En þetta hefir ekki verið gert. Í n. hefir einvörðungu verið valið frá pólitísku sjónarmiði og þeir menn skipaðir í hana, meðal annara, sem allra harðvítuglegast, hatramast og ofsafengnast hafa barizt í stjórnmálabaráttu undanfarinna ára, og á ég þá við hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. S.-Þ. verður þó a. m. k. um þann síðartalda eigi sagt, að hann hafi neina sérfræði til brunns að bera í fjármálum og atvinnumálum þjóðarinnar. Hans viðfangsefni hafa legið á öðrum þrengri sviðum. Og n. er í rauninni algerlega einlit pólitískt, eingöngu skipuð stuðningsmönnum stjórnarinnar, þar er í henni eru 3 Alþýðuflokksmenn og 2 framsóknarmenn, og um framsóknarmennina er það vitað, að þeir standa lengst til vinstri í flokki sínum. Enginn andstæðingur hæstv. ríkisstj. hefir þótt hafa þá þekkingu á atvinnumálunum, að hann væri hæfur til þessara starfa, og gegnir slíkt furðu, þar sem það er vitað, að einmitt í þeirra hópi eru flestir þeir menn, er mest hafa látið til sín taka í atvinnulífi þjóðarinnar bæði til lands og sjávar, mestu hafa áhætt, mest hafa reynt og mestu afrekað.

Það var þeim mun ástæðulausara að ganga framhjá andstæðingum ríkistj. við þessa nefndarskipun sem það var alþjóð kunnugt, að það var hreint stefnumál Sjálfstæðisflokksins að taka atvinnulíf þjóðarinnar til gagngerðrar rannsóknar og koma á margvíslegum endurbótum á sviði allra atvinnuvega landsmanna. Voru samþ. í þessum málefnum víðtækar till. á síðasta landsfundi sjálfstæðismanna og þær gerðar þjóðinni kunnar. Ennfremur hafði Sjálfstæðisflokkurinn átt verulegan þátt í þeirri rannsókn, sem þegar hefir verið framkvæmd á hag bænda og lagt mikinn skerf til þeirrar lausnar þess vandamáls, sem þegar er að nokkru leyti framkvæmd með starfi Kreppulánasjóðs. Jafnframt hafði Sjálfstæðisfl. haft forystuna í skipun milliþn. í sjávarútvegsmálum, sem ætlað var að framkvæma samskonar rannsókn á hag útvegsmanna. Sú rannsókn liggur nú fyrir, með þeirri niðurstöðu, að einnig á sviði útvegsins er brýn og aðkallandi þörf á bjargráðum þessum atvinnuvegi til handa, og af þessum ástæðum hefir nú Sjálfstæðisfl. á þessu þingi borið fram tvö stórvægileg frv. til bjargar og viðreisnar sjávarútveginum, sem hefir verið sterkasta stoð þjóðarbúskaparins á undanförnum áratugum og gjafmildasta auðlind þjóðarinnar. Sjálfstæðisfl. tók og vinsamlega tillögunni um skipun n. þeirrar, sem nú starfar að rannsóknum á afkomu verkamanna í kaupstöðum landsins. Skilningur sjálfstæðismanna á alvöru tímanna og erfiðleikum atvinnulífsins hefir ennfremur komið fram nú á þessu þingi með frv. því um fiskiráð, sem borið er fram af formanni flokksins og allur Sjálfstæðisfl. á þingi stendur að. Er þar ætlazt til, að sjávarútveginum sé fengin forysta hinna hæfustu og reyndustu manna. Þetta frv., sem að áliti þeirra manna, sem kunnugastir eru á sviði útvegsins, er bjargráð honum til handa, hefir fengið svo strákslegar og illkvittnislegar undirtektir nokkurra hinna ómerkari þm. sósíalista, að slíkt mun nærri einsdæmi í þingsögunni.

Það, sem ég nú hefi sagt, er fullkomin sönnun þess, hvern áhuga og hverja ábyrgðartilfinningu Sjálfstæðisfl. hefir sýnt í atvinnumálum þjóðarinnar, enda lætur það að líkindum, þar sem verndun og efling atvinnulífsins í landinu er hið fyrsta boðorð Sjálfstæðisfl. Enginn maður getur því látið sér sæma að telja fram þá ástæðu fyrir því, að algerlega var gengið fram hjá Sjálfstæðisfl. við skipun þessarar n., að Sjálfstæðisfl. hafi eigi haft nægilegan áhuga eða skilning á þessum vandamálum.

Það verður að segja, að hið einlita og ofstækisfulla val nefndarmanna er vissulega óviturlegt. Það vekur þegar í stað tortryggni og andúð þess meiri hl. þjóðarinnar, sem er í andstöðu við hæstv. ríkisstj. Ef stefnt hefði verið að alþjóðarheill, er þetta val fullkomlega óverjandi. Því að á slíkum erfiðleikatímum og nú blasa við þjóð vorri á öllum sviðum, þar sem ný vandræði steðja svo að segja daglega að atvinnulífi þjóðarinnar og framleiðslu, er það bein og bláköld skylda hverrar stjórnar, er einhverja viðleitni vill sýna til að vera ríkisstjórn og slíta sig úr viðjum klíkuskapar og flokksofstækis, að kalla til samstarfs alla þá þekkingarríkustu og sérfróðustu krafta, sem völ er á í okkar fáliðaða og aðþrengda þjóðfélagi. En þetta var ekki gert, enda þótt það kostaði riftun á kosningaloforði Alþýðuflokksins um vísindalega rannsókn hinna sérfróðu. Flokksmarkið var sett á nefndina. Þetta var enn óviturlegra fyrir þær sakir, að hæstv. núv. ríkisstj. er minnihlutastjórn með þjóðinni. Við síðustu alþingiskosningar fengu þeir þingflokkar, sem eru í beinni andstöðu við ríkisstj., samtals 25685 atkv. en stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. aðeins 22637 atkv. Stjórnarandstæðingur fengu því rúml. þrem þús. atkv. meira, en stjórnarliðar. Þetta hefði átt að vera ríkisstj. bending um það, að henni er full þörf á að fara sér gætilega og hóflega.

Menn gætu nú gert sér í hugarlund, að þetta einlita val n. ætti rót sína að rekja til skilnings- og hugsunarleysis hæstv. ríkisstj. Að hér væri um vangá að ræða. En svo var þó eigi. Umr. hér á hv. Alþ. um þetta mál, svo og skrif dagblaðs þess hæstv. ráðh., sem n. hefir skipað og á að taka við till. hennar og væntanlega ætlar sér að framkvæma þær, sýna það glögglega, að hér hefir hæstv. atvmrh. vitandi vits og beinlínis í ákveðnum flokkslegum tilgangi valið þessa menn, og einmitt þessa menn og enga aðra. Skal ég nú lýsa þessum tilgangi.

Við 1. umr. þessa máls í þessari hv. d., kvaðst hæstv. atvmrh., eigi hafa talið kleift að skipa sjálfstæðismenn í n., vegna þess, eins og hann komst að orði, að Sjálfstæðisfl. hafi til þessa haldið því fram, að atvinnurekstur allur og viðskipti ættu að vera í höndum einstaklinga. Ennfremur sagði hæstv. ráðh. þetta orðrétt: „Ég get lýst því yfir sem minni skoðun, að n. eigi ekki ýkja mikinn kost þess að gera verulegar breyt. til bóta, án þess að ganga lengra eða skemmra inn á þær leiðir, sem samflokkamenn hv. þm. kalla venjulega þjóðnýtingu. Mér er engin launung á þessu“.

Það verður nú eigi sagt, að ráðh. sé myrkur í máli. Sjálfstæðismenn eru ófærir til starfa í n., af því að þeir halda fram einstaklingsrekstri, og breyt. til bóta eru eigi hugsanlegar, nema með þjóðnýtingu.

Alþýðublaðið, málgagn hæstv. atvmrh., er, eins og að venju lætur, ennþá opinskárra. Þar segir í forystugrein 27. okt. síðastl. „Með skipun n. var viðurkennt í fyrsta sinni, að þjóðarbúið bæri að skipuleggja, það er að haga svo öllu atvinnulífi, að það sé miðað við þarfir, þjóðarinnar. Með þessu ráði er stefnt að þjóðnýtingu atvinnuveganna“ o. s. frv. Ennfremur: „Skiptir í þessu sambandi minna mái, hvort framleiðslutækin eru talin eign þjóðfélagsins, kaupstaða, sveitarfélaga eða félaga verkamanna“. Loks segir blaðið, út af ummælum hæstv. atvmrh. hér í hv. d. um hugsanlega þátttöku Sjálfstæðisfl. í nefndinni: „Flokkurinn, sem hefir það á sinni stefnuskrá að gera sem flesta, helzt alla, að sjálfstæðum atvinnurekendum og fjarlægja öll afskipti þess opinbera frá rekstri þeirra, kemur og bíður að lofa sér að vera með í því að undirbúa þjóðnýtingu atvinnuveganna“.

Það þarf því ekki frekar vitnanna við. Og hæstv. atvmrh. og málgagn hæstv. ríkisstj. eru bæði fullskýr og fullgild vitni í þessu máli. Tilgangur n. er því að leggja í rústir atvinnurekstur einstaklinganna og taka upp svo kallaða þjóðnýtingu. Það er m. ö. o. verið að undirbúa framkvæmd sósíalismans á Íslandi.

Fálmkennd og vandræðaleg mótmæli einstakra framsóknarmanna, sem fram hafa komið og fram kunna að koma hér við umr. gegn þessum augljósa og yfirlýsta tilgangi sósíalista, eru harla lítilsverð og verða vart tekin alvarlega. Öll saga Framsóknarfl. er ein óslitin píslarganga yfir eyðimörku sinnuleysis, sjálfsblekkinga og stefnuleysis undir lævíslegri og spilltri forystu inn í hið fyrirheitna land sósíalismans. Og atburðirnir á þessu þingi hafa jafnvel gert þetta ennþá augljósara en nokkru sinni áður. Við höfum nærri því daglega mátt horfa á það, hvernig þeir sósíalistar hér í hinu háa Alþ. ráða athöfnum og atkv. hv. framsóknarmanna. Ég skal eigi fara langt út í það mál að sinni, það mun sennilega gefast tækifæri til þess að ræða það betur síðar. En ég vil máli mínu til sönnunar aðeins minnast á tvennt. Hið fyrra er það, þegar hv. 2. þm. Reykv. óð að einum framsóknarmanni hér í d. og krafðist þess af honum með hótunum og frekju, að hann greiddi atkv. gegn sinni sannfæringu, sem augljós var orðin við fyrri atkvgr., og að hann yrði þessi valdandi þar með, að hætt er við, að fé það, sem lagt verður fram til bygginga verkamannabústaða hér í höfuðstað landsins, verði eingöngu látið ganga til félagsskapar sósíalista. Hitt málið er frv. um vinnumiðlun, sem er eingöngu flutt í þeim tilgangi að draga úr höndum hins lýðræðislega kosna meiri hl. bæjarstjórnar Rvíkur þann rétt, sem honum samkv. stjórnarskránni ber, til þess sjálfur að ráðstafa sínum málum. Frv. þetta gefur atvmrh. rétt til þess að setja á stofn skrifstofu, er miðli vinnu milli bæjarmanna, og var þetta þó með öllu óþarft, þar sem Rvíkurbær hefir þegar sett á stofn sína eigin skrifstofu í sama skyni. Eins og auðvitað er eiga sósíalistar að hafa meiri hl. í stj. hinnar nýju skrifstofu þeirra, og ríkissjóður á svo að borga brúsann að 1/3. Það hafa þó stundum á fyrri þingum heyrzt þær raddir hér, frá framsóknarþingmönnum, að óhæfilegt væri að hlaða á ríkissjóðinn þeim útgjöldum, sem Rvík beri að réttu að standa straum af til eigin málefna. Þessi tvö dæmi, sem ég nú hefi tilgreint, tala nægilega skýrt sínu máli.

Með frv. þessu hyggjast þeir hv. sósíalistar að ganga til beinnar atlögu við einstaklingsframtakið í landinu. Og eins og öllum herforingjum hefir ætíð verið ljóst, að eigi dugar að senda hermennina vopnlausa fram í baráttuna, eins hefir hæstv. atvmrh. talið nauðsynlegt að fá nefndarmönnunum einhver vopn í baráttunni við einstaklingsreksturinn og það er því frv., sem hér liggur fyrir, ætlað að vera. Heimildin til allsherjarrannsóknar er hugsuð sem sú öxi, sem nú skal reidd að rótum trjánna. En rannsóknarrétturinn getur því aðeins orðið það tilræði við einstaklingsframtakið í landinu, að athuganir hans verði notaðar til rangra ályktana, og í því efni má telja fullvíst, að hið fyrirfram ákveðna markmið valdi því, að tilgangurinn helgi meðalið. Það, að almenningur vissi, að nefnd þessi hefði haft vald til þess að framkvæma hverskonar rannsókn sem henni hefir hugkvæmzt hjá hverjum þjóðfél.þegni, er henni litist til þess verðugur, gæti gefið mönnum ástæðu til að ætla, að till. hennar væru allar byggðar á nauðsyn og fullum rökum. Það vald, sem þetta frv. á að veita nefndinni — valdið til að kalla fyrir sig hvern mann í landinu, er henni þóknast, hvar svo sem hann er búsettur og hversu erfitt sem hann á um vik — getur því orðið ægilegt vald, og Sjálfstæðisfl. hefir fulla ástæðu til að ætla, að því verði á þann veg beitt af þessum nefndarmönnum. Og hin heilaga einfeldni ein getur leyft sér að ætla, að þessu verði ekki beitt flokkspólitískt. Val nefndarmanna og hinn yfirlýsti tilgangur sósíalista er hér fullkomin trygging.

Viðhorf okkar sjálfstæðismanna er því það, að með nefndarskipun þessari og rannsóknarvaldi hennar er verið að skipa hv. nefndarm., höfuðfjendum einstaklingsframtaksins í landinu, á hinn æðri bekk sem rannsóknardómendum, en unnendum og gerendum athafnalífsins er boðið að krjúpa við fótskör þeirra sem sökudólgum.

Slíkan ójöfnuð að lögum getur Sjálfstæðisfl. ekki þolað. Slík skipting þjóðarinnar í réttláta og rangláta eftir flokksafstöðu einni getur hvergi staðizt í siðuðu þjóðfélagi. Af þessari ástæðu mótmælum vér þegar þessu frv.

Sjálfstæðisfl. getur heldur eigi, á meðan hann má sín nokkurs með þjóðinni, á meðan stefna hans og hugsjónir eiga sér nokkurn hljómgrunn í huga landsmanna, stuðlað að því með atkvæðum þeirra fulltrúa þjóðarinnar, sem fylkja sér undir merki hans her á hinu háa Alþ., að leitast sé við að leggja í rústir það einstaklingsframtak, sem skapað hefir Sjálfstæðisfl. og leitt hefir þjóðina fram úr öllum ógnum harðinda, elda og hverskonar áþjánar og óáranar fram til bjargálna, fram til menningar og sjálfstæðis. Og með engu móti getur Sjálfstæðisfl. samþ. að beygja þjóðina undir vald þessarar nefndar, sem á að grafa ræturnar undan atvinnurekstri einstaklinga hennar og þar með spilla afkomu hennar allrar. Sjálfstæðisfl. mun hinsvegar halda djarflega og ósleitilega áfram baráttu sinni fyrir fjölgun sjálfstæðra atvinnurekenda meðal þjóðarinnar, og þó að nú í bili kunni að horfa dauflega við, þá veldur það engum sinnaskiptum og veikir ekki trúna á það, að brátt muni rofa til. Því að þeim mun glannalegar sem hæstv. ríkisstj. siglir fleytu sinni gegnum háar og voldugar öldur andúðar og aðvörunar meiri hluta þjóðarinnar, þeim mun fyrr mun hún kollsigla sig. En af eðlisnauðsyn hljóta allir sjálfstæðismenn að snúast til varnar gegn hinum rauða rannsóknarrétti og þeirri tilraun, sem þar með er gerð til að jafna við jörðu þeim öflum. er drýgst og traustust hafa reynzt þjóðinni til framdráttar frá upphafi landsins byggðar og fram á þennan dag.

Ég vil nú spyrja, hefir þjóðin sjálf óskað þeirrar stórvægilegu stefnubreytingar, sem hinum rauða rannsóknarrétti er, samkv. yfirlýsingu stjórnenda hans, ætlað að innleiða í atvinnulíf þjóðarinnar? Þessu vil ég svara ákveðið neitandi. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, sem ég þegar hefi vikið að, að jafnvel samanlagt eru stjórnarflokkarnir í greinilegum minni hl. meðal kjósenda landsins. En í öðru lagi af því, að það er vitað, að Framsóknarflokkurinn hefir ekkert umboð til þess frá verulegum hluta kjósenda sinna að beita sér fyrir þjóðnýtingu og snúast með fullum fjandskap gegn einstaklingsframtakinu í landinn. Þeir bændur landsins, sem af ýmsum ástæðum hafa leiðzt til þess að kjósa framsóknarmenn á þing, hafa fæstir ætlazt til þessa af þingmönnum sínum. Bændastétt landsins hefir alla tíð samkvæmt eðli sínu, lífsbaráttu og allri aðstöðu í þjóðfélaginu verið fylgjandi eðlilegu og nauðsynlegu athafnafrelsi einstaklinganna í þjóðfélaginu og því verður eigi trúað, að verulegum hluta hinnar ísl. bændastéttar sé nú svo hrakað að djörfung og manndómi, að hún vilji svíkja sína stefnu. Ég vil því fullyrða, að þjóðnýtingarbrölt hæstv. ríkisstj. sé hugsað og talað í beinni andstöðu við stórkostlegan meiri hl. þjóðarinnar, og vilji hæstv. ríkisstj. telja sig málsvara og fulltrúa lýðræðis hér á landi, þá ber henni bein og augljós skylda til þess áður en hún lætur til skarar skríða um framkvæmd þeirrar stórvægilegu þjóðnýtingar, sem hún ráðgerir, að rjúfa þingið og bera þetta undir dómstól þjóðarinnar. Sé það eigi gert, eru kjósendur landsins sviknir og hæstv. ríkisstj. og þeir hv. þm., sem hana styðja, orðnir berir að beinni lítilsvirðingu og fjandskap við lýðræðið í landinu.

Taki hæstv. ríkistj. eigi tillit til málaflutnings sjálfstæðismanna, bið ég þjóðina að minnast þess, hverjir hafa staðið á verði til varnar sjálfstæði einstaklinganna í þjóðfélaginu og heilbrigðs atvinnulífs. Ég veit það, að þjóðin mun minnast þessa og hún skilur það jafnframt, að eigi veldur sá, er varir. En í nafni þeirra 22 þús. kjósenda, er fylgdu Sjálfstæðisfl. að málum við síðustu alþingiskosningar, mótmæla þingmenn Sjálfstæðisfl. þessu frv. og leggja eindregið til, að það verði fellt.