16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég hefi borið hér fram brtt., sem ég vil leyfa mér að gera stuttlega grein fyrir. Till. þessi er um það, að ef skipulagsnefnd fær rétt til þess að heimta skýrslur af hverjum sem er, þá skuli hún svo skipuð, að í henni séu fulltrúar allra flokka, sem hafa afl til þess í Sþ., að koma manni í nefndina. Till. hljóðar svo: „enda sé þá þingflokki sjálfstæðismanna gefinn kostur á að tilnefna tvo menn í nefndina“. Verði brtt. þessi samþ., þá myndi n. skipuð líkt því, að tveir væru kosnir af Framsóknarflokknum, tveir af jafnaðarmönnum og tveir af Sjálfstæðisflokknum, en sá 7. skipaður af atvmrh. Þessi skipun nefndarinnar væri ekkert óeðlileg samanborið við skipun þingsins nú.

Við skipun slíkrar n. sem þessarar kemur tvennt til greina, að skipa í hana annað tveggja vísindamönnum eða fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Það má vera, að hér væri heppilegra að skipa nefndina vísindamönnum og sérfræðingum, en það myndi varla hægt í þessu landi, því að ekki myndi völ margra vísindamanna og sérfræðinga, sem ekki hefðu pólitískan blæ. Eigi aftur að tryggja það, að till. nefndarinnar nái fram að ganga í þinginu, þá er heppilegra, að í henni séu áhrifamenn úr þingflokkunum. Ég fyrir mitt leyti mun því ekkert setja út á það, þó að sú leið sé farin, að skipa í nefndina fulltrúum flokkanna, en það er hitt, sem ég set út á, að n. skuli ekki skipuð nema fulltrúum tveggja þeirra flokka, sem hefðu afl til þess í Sþ. að koma að mönnum í hana. við 1. umr. þessa máls hér í háttv. d. skildist mér svo, að form. Sjálfstæðisflokksins legði áherzlu á að koma að mönnum í n. þessa, og ég þóttist skilja hæstv. atvmrh. svo líka, að hann væri ekki á móti því að fjölga svo í nefndinni, að bætt yrði við tveimur mönnum. En nú koma engar óskir fram um þetta frá Sjálfstæðisflokknum og ekkert tilboð frá hæstv. atvmrh. um fjölgunina. Ég vænti því, að allir háttv. þdm. geti fallizt á till. mína. Að ég hefi ekki borið fram till. um mann frá Bændaflokknum eða mér sjálfum, er sökum þess, að við höfum ekki afl til þess í Sþ. að koma manni að. Þegar slík n. sem þessi er skipuð, þá á hún að vera skipuð mönnum úr fleiri en einum flokki. Að láta einn eða tvo flokka ráða eina, þegar svo stendur á sem hér, er ekki samkv. kröfum lýðræðisins. Ég er því fyllilega samþykkur, að stj. skipaði þessa n., því að það hafa oft verið skipaðar nefndir í þessu landi þegar síður skyldi en nú.

Ég hygg, að almenningi sé tæplega ljóst, hve gífurlega miklar breyt. hafa orðið og verða mánaðarlega í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðanna á síðastl. tveimur árum, í þá átt að skerða frjálsræðið og einstaklingsframtakið í heiminum. Í Bandaríkjunum hefir stjórnin tekið í sínar hendur meiri og meiri yfirráð og stjórn á atvinnugreinum þjóðarinnar. Það hefir ekki verið ríkisrekstur, heldur hefir stjórnin haft æ ríkari áhrif og afskipti af atvinnumálunum, af því hún hefir séð, að slíkt var óhjákvæmilegt, ef vel átti að fara. Á sama tíma og þetta hefir gerzt í Bandaríkjunum, hafa farið fram enn meiri breyt. í Þýzkalandi og á Ítalíu, og jafnvel í Englandi, sem þó hefir verið viðurkennt sem aðalverndari frjálsræðis á flestum sviðum, bæði í atvinnumálum, verzlunarmálum, stjórnmálum o. fl. sviðum, hefir líka orðið að leggja út á þessa braut. Og það þarf enginn að halda, að það, sem gerist í Englandi, komi okkur ekkert við. Það er lítil von til þess, að hin íslenzka smáþjóð geti staðizt breytingarnar, þegar það land hefir nú gerbreytt þeim stefnum í atvinnu- og stjórnmálum, sem gilt hafa á síðustu öldum. Við komumst ekki hjá því að líta til þeirra. Sú staðreynd hafir komið í ljós í heiminum á 2 til 3 síðustu árum, að það er framleitt meira af gæðum lífsins heldur en sótt er eftir, og þessi staðreynd hefir sagt til sín einnig hér heima á Íslandi á síðustu dögum. Er það ekki svo, að markaður fyrir afurðir landbúnaðarins, kjötið, sé orðinn takmarkaður, og útlendi markaðurinn jafnvel tapaður, en engar líkur til þess, að við getum torgað því sjálfir, sem framleitt er af þessari vöru? Og er ekki mjólkurframleiðslan orðin svo mikil, að það er alveg vonlaust um, að hún seljist? Það er vonlaust um ófyrirsjáanlega framtíð, að nokkrar mjólkurafurðir verði seldar út úr landinu, hvorki smjör né ostur. Það er engin von um það, að við getum selt út nokkrar mjólkurvörur, bæði er alstaðar yfirfullt af þessum vörum, og svo er verðið utanlands tvöfalt lægra þar en hér. Þegar því hverfa verður að því að nota og auka innlenda markaðinn fyrir þessa innlendu landbúnaðarframleiðslu, þá sýnist ekki veita af því að hafa vakandi n. milli þinga til þess að fylgjast með þessum höfuðatvinnuvegum okkar, landbúnaði og sjávarútvegi, og reyna að finna ráð þeim til bjargar. Svo er okkar litla uppvaxandi atvinnugrein, iðnaðurinn. Ekki þarf síður að gæta þess, að hann geti lifað við hið breytta ástand og fundið leiðir sér til vaxtar. Það þarf að athuga það, hvort við verðum ekki að breyta ýmsu í okkar tollalöggjöf meira eða minna, bæði tollum af innfluttu hráefni, innfluttum vörum sömu tegundar og framleiddar eru í landinu sjálfu og svo af útfluttum vörum. Það þarf að rannsaka. hvaða hráefni við kunnum að hafa í landinu sjálfu til iðnaðar, og það þarf að athuga, hverjar nýjar iðngreinir hægt væri að taka fyrir, sem enginn hefir enn þorað að byrja á. Á öllum sviðum eru stórmikil viðfangsefni fyrir hendi. Ég endurtek það, að aldrei hefir verið jafnmikil ástæða til þess að skipa n. milli þinga eins og nú. Ég sæi ekki eftir því, þó að allir formenn flokkanna, hver um sig með einn mann með sér fyrir sinn flokk, skipuðu þessa n. Það er ekki nema gott, að þeir, sem eru á oddinum, eigist við um þau vandamál og horfist í augu við þau. Það hefir að vísu verið sagt, að hér ætti að setja á stofn þjóðnýtingu á öllum hlutum og eyðileggja rétt einstaklingsins. Ég skal kannast við það, að ég er líklega ekki eins kunnugur í stjórnarherbúðunum eins og sumir aðrir, en enginn þarf að segja mér, að þessi nefndarskipun leiði til þess, að enginn bóndi fái lengur að halda sinni jörð, að enginn útgerðarmaður megi reka sína útgerð og enginn iðnaðarmaður sinn iðnað: Ég læt ekki segja mér neitt um það, og jafnvel þó eigi máske að athuga þjóðnýtingu í einstöku tilfellum, þá horfi ég ekki skelfdur á slíkar athuganir. Ég hefi nú horft upp á það í 14 síðastl. ár, þar sem jafnaðarmenn hafa setið að stjórn í ýmsum löndum, að skipaðar hafa verið n., sem hafa átt að rannsaka þjóðnýtingu eða hve mikil afskipti ríkið eigi að hafa af atvinnuvegunum. Englendingar hafa t. d. hvað eftir annað látið athuga það, hvernig ætti að hjálpa kolaiðnaðinum, og þjóðfélagið stendur þar þó enn, þrátt fyrir þessar athuganir. Það hefir ekki oltið um koll. Sannleikurinn er sá, að það þarf meira en svolítið nál. til þess að öllu sé komið í kring. Og það, sem ég hefi séð af störfum n., bendir eiginlega ekki mikið á byltingu, t. d. þetta litla frv. um mannflutninga með bifreiðum, sem rætt var hér í hv. d. í dag. Eftir þeirri lýsingu, sem hér hefir verið gefin á n., skyldi maður ætla, að í því frv. væri lagt til, að allir bílar yrðu teknir af einstaklingum og lagðir undir ríkið, og að allt yrði keyrt á stjórnarbílum. En ég sá ekkert af þessu í frv. (frv. eru aðeins sett viss skilyrði til fólksflutninga með bifreiðum á vegum, í þeim tilgangi að koma betra skipulagi á flutningana, en að þeir verði fyrir það hvorki dýrari fyrir ferðafólkið né hina, sem reka flutningana. Ég gæti búizt við því, að frá n. kæmu ýms frv. skyld þessu, en ég fæ ekki séð, að slík frv. séu nein þjóðnýtingaröxi, reidd að rótum atvinnuveganna. Hitt sakaði ekki, þó n. bæri öxi að rótum samskonar trjáa og upphaflega líkingin fjallar um, þeirra trjáa, sem ekki bera ávöxt.

Ég heyri kvartað um það, að ég muni vera búinn að tala fulllengi, (TT: Nei, nei.) en sjálfur held ég því auðvitað fram, að ég hafi talað of stutt. Ég er ekki hræddur við þjóðnýtingaranda í starfi þessarar n., ég ætla, að það verði svo, að sumar hennar till. stefni til þjóðnýtingar, sumar til samvinnuskipulags og sumar til einstaklingsrekstrar. Svo hefir það verið um till. slíkra n. sem þessarar. Hinn sterki straumur tímanna er sá, að atvinnu- og viðskiptalífið falli í þá farvegi og eftir þeim reglum, er gefa sem bezta útkomu með tilliti til almennra hagsmuna, þannig þó, að einstaklingsframtakið fái sem bezta aðstöðu til að njóta sín. Ætli það verði ekki sú stefna, sem n. fylgir. Og í því trausti og þeirri von, að n. starfi vel og dyggilega án úlfúðar og hefnigirni milli fulltrúa hinna einstöku flokka, sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og jafnaðarmanna, sem vitanlega verða ekki sammála í öllum málum, þá greiði ég frv. atkv., ef brtt. mín verður samþ. Og verði till. felld mun ég þó fylgja frv., ef hún fellur fyrir atkv. hv. sjálfstæðismanna, því þá lít ég svo á, að þeir með því afsali sér þeim rétti, sem ég ætla að hjálpa þeim til að ná.