16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. kom með gusti miklum og talaði um gremju í ræðu minni. Ég held nú, að gremjan hafi aðallega verið á hans hlið og verið gagnvart hans eigin tilfinningu um það, hvernig. hann hafi leyst start sitt af hendi sem fulltrúi bænda. Hann finnur, að hann hefir orðið að láta í minni pokann vegna áleitni sósíalista. Hann er gramur yfir þessu þróttleysi flokks síns og yfirgangi sósíalista og að hafa orðið að beygja sig fyrir þeim. Hann talar um, að Þorsteinn Briem hefði haft aðstöðu til þess að koma ýmsum landbúnaðarmálum í framkvæmd á meðan hann sat í landsstjórninni. Hann gleymir því, að í stjórnartíð fyrrv. stj. var unnið mikið að hagsmunamálum bænda. Þá var stofnaður Kreppulánasjóður og nauðsynlegur undirbúningur gerður að alhliða viðreisn landbúnaðarins, og mun hann bera árangur svo framarlega sem núv. stj. skilur hlutverk sitt. Í þessu sambandi nefndi hann skrif blaðanna og vildi leggja að jöfnu blaðið Framsókn og blöð sjálfstæðismanna, Morgunblaðið og Vísi. Hann las upp kafla úr Morgunblaðinu. Ég ætla nú ekki að fara að verja skrif þess, því að þau hafa verið ógætileg og ekki til þess að bæta aðstöðu bænda. En það hefir þó ekki gengið lengra en svo að segja, að verðhækkunin sé svo tilfinnanleg, að verð á kjöti megi ekki vera hærra. En samkv. skýrslum hagstofunnar, sem gefnar hafa verið út fyrir september, sést, að kjötið hefir ekki hækkað frá því í fyrra, heldur er verðið lítið eitt lægra. (Fjmrh.: Þetta er vitleysa). Hæstv. fjmrh. þarf ekki annað en lesa skýrslur hagstofunnar til þess að sjá, að ég fer með rétt mál. — Því verður ekki neitað, að Framsóknarfl. á sök á því, að stjórn þessara mála var að nokkru leyti dregin úr höndum bændanna. Hæstv. fjmrh. segir, að það sé nauðsynlegt að hafa fulltrúa frá neytendum í nefndum. Alþýðufl. hefir auðvitað viljað hafa það svo. Hann vill fá 2 aur. lækkun á mjólkinni fyrir nýár og 5 aur. eftir nýár. En er þetta velvilji í garð bænda? Mér finnst, að það hafi ekki verið ástæðulaust að halda því fram, að þeir fengju sjálfir að ráða þessum málum. Það þykir engin goðgá hjá Norðmönnum, að bændurnir hafa þar sjálfir stjórn þessara mála með höndum. En þar er bændum líka borgið með afurðasölu sína.

Hæstv. fjmrh. sagði út af þeim upplýsingum, sem ég gaf um verð á útflutta kjötinu, að það væri sagt út í loftið. Ég hefi nú ekki ómerkari mann fyrir mér í þessu efni en hæstv. forsrh. Hann lýsti því yfir í Árnessýslu, að verðið á kjötinu yrði eins og ég sagði. (Fjmrh.: Það er kyndugt). Það er kannske kyndugt í þessu tilfelli, en það er þó rétt með farið, og vil ég vitna í áheyrendur í Árnessýslu, sem heyrðu hæstv. ráðh. segja þetta. — Hæstv. fjmrh. talaði á móti till. Þorsteins Briem um styrk úr ríkissjóði til verðjöfnunar. Hann sagði, að innlendi markaðurinn ætti í framtíðinni að bera uppi verðmismuninn á innl. og erl. markaði. En ef innlendi markaðurinn getur það ekki, því þá ekki að greiða úr ríkissjóði? Hæstv. fjmrh. var ekki smeykur við að greiða hlutaruppbót til sjómanna. En þar var hann líka keyrður áfram af sósíalistum. (Fjmrh.: Það þurfti ekki að keyra mig. Ég var fús til þess).